11.09.2025
Þriðjudaginn 16. september verða haldnir kynningarfundir fyrir foreldra og forsjáraðila barna í Egilsstaðaskóla. Fundirnir hefjast í matsal með kynningu á innleiðingu Heillaspora og síðan haldið áfram með kynningar í heimastofum árganga.
Fundir fyrir hvert stig hefjast sem hér segir:
1.-4. bekkur klukkan 16:30
5.-7.bekkur klukkan 17:30
8.-10. bekkur klukkan 18:30
Á kynningum í árgöngum verður farið yfir vetrarstarfið, sérstök verkefni á hverju stigi / árgangi og fleiri hagnýtar upplýsingar. Fundirnir taka u.þ.b. klukkustund.
Lesa meira
10.09.2025
Í vor var ákveðið að tveir skóladagar þessa skólaárs yrðu helgaðir því að styrkja hópa og efla tengsl milli nemenda og milli nemenda og starfsfólks. Í dag er fyrri umsjónardagurinn og um allt hús eru börn í samvinnuleikjum og verkefnum sem styrkja hópana.
Leitað var í Verkfærakistu Vöndu Sigurgeirsdóttur / KVAN en allt starfsfólk sat námskeið með Vöndu í haust þar sem árgangateymi undirbjuggu m.a. umsjónardaginn. Það er mikill lærdómur í því að takast á við verkefni í sameiningu og leita lausna. Það reynir á krakkana að skipta verkefnum á milli sín og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er færni sem allir þurfa að þjálfa til að taka þátt í samfélaginu okkar.
Í tilefni af gulum september og degi geðræktar voru margir mættir í gulum fötum og það var því bjart yfir að líta í skólanum í dag.
Lesa meira
05.09.2025
Í vikunni nýttu kennarar í 9. og 10. bekk vinnumixtíma til að safna krökkunum saman í matsalinn þar sem þau spiluðu félagsvist. Markmiðið var notaleg samvera til að styrkja hópana og efla samskipti. Að spila saman er góð þjálfun í samskiptahæfni auk margs annars, s.s. nefnuhraða, minnisþjálfun o.fl.
Í vetur verða sérstakir dagar á skóladagatalinu sem eru helgaðir samveru og hópefli, kallaðir umsjónardagar. Fyrsti umsjónardagurinn verður miðvikudaginn 10. september og þá er hver árgangur með umsjónarkennurum allan skóladaginn. Allir árgangar ljúka skóla klukkan 13.50 þennan dag.
Lesa meira
27.08.2025
Í Egilsstaðaskóla pössum við að vera ekki með hnetur eða kiwi þar sem einstaklingar í hópi nemenda og starfsfólks eru með bráðaofnæmi fyrir þeim matvörum. Á hverju hausti er allt starfsfólk upplýst um hvaða einstaklingar eru með bráðaofnæmi og hvernig á að bregðast við ef einstaklingur fær ofnæmisviðbrögð. Starfsfólki er kennt að beita adrenalínpenna og slíkir pennar fylgja þeim sem mögulega geta þurft að nota þá.
Bráðaofnæmi getur verið lífshættulegt og þess vegna leggjum við áherslu á að allir virði það að koma ekki með matvöru sem inniheldur hnetur, möndlur eða kiwi inn í skólann. Á meðfylgjandi upplýsingablaði er bent á þær matvörur sem geta innihaldið hnetur og kiwi.
Lesa meira
25.08.2025
Síðasta vetur var starfandi umhverfishópur Heillaspora sem m.a. gerði tillögur að merkingum í skólanum. Nú hefur hópurinn kynnt heiti innganga í skólann og sett upp merkingar við hvern inngang.
Aðalinngangurinn er nefndur Múli, inngangur á mið- og elsta stig heitir Hnúta og á yngsta stigi er Grund. Heitin eru örnefni úr sveitarfélaginu og það er von okkar, sem störfum í skólanum, að smám saman festist þessi heiti við inngangana og verði okkur töm.
Lesa meira
19.08.2025
Skólastarf í Egilsstaðaskóla hefst formlega með samstarfs- / nemendaviðtölum föstudaginn 22. ágúst. Foreldrar & forsjáraðilar hafa fengið upplýsingar um viðtölin í tölvupósti og opið er fyrir bókanir (sjá upplýsingar í tölvupósti). Nemendur og foreldrar & forsjáraðilar mæta í skólann á settum tíma og ræða við umsjónarkennara. Kennsla hefst skv. stundaskrá mánudaginn 25. ágúst kl. 8.50.
Lesa meira
13.08.2025
Starfsfólk Egilsstaðaskóla situr tvö endurmenntunarnámskeið 13. og 14. ágúst. Í dag, miðvikudaginn 13. ágúst, er fjallað um sterka hópa undir leiðsögn Vöndu Sigurgeirsdóttur lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Vanda rekur ráðgjafafyrirtækið KVAN sem hefur sérhæft sig ráðgjöf fyrir einstaklinga, skóla og fyrirtæki. Hún hefur unnið með starfsfólki skólans í verkefnum sem tengjast sérstökum árgöngum og haldið námskeið um verkfærakistu grunnskólakennara.
Fimmtudaginn 14. ágúst er framhaldsnámskeið í tengslum við innleiðingu Heillaspora. Þá verður Íris D. Hugrúnardóttir Marteinsdóttir sérfræðingur Heillaspora hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með starfsmannahópnum.
Fyrsti starfsdagur skólaársins er föstudaginn 15. ágúst en þá hefst formlegur undirbúningur skólastarfsins. Kennarar munu boða alla foreldra & forsjáraðila í viðtöl með börnum sínum föstudaginn 22. ágúst en bókanir fara fram í gegnum Mentor.
Hægt er að hafa samband við skrifstofu skólans eða stjórnendur ef óskað er eftir frekari upplýsingum.
Lesa meira
27.06.2025
Skrifstofa Egilsstaðaskóla er lokuð vegna sumarleyfa til 5. ágúst. Brýnum erindum er hægt að beina til skólastjóra, Viðars Jónssonar (vidar.jonsson@mulathing.is)
Lesa meira
12.06.2025
Nýverið var úthlutað úr Sprotasjóði sem styrkir skólaþróunarverkefni í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Áherslusvið sjóðsins í ár var m.a gervigreind og hlaut Egilsstaðaskóli 850 þúsund krónur í styrk til verkefnisins "Aðlögun námsefnis með hjálp gervigreindar". Ætlunin er að leita leiða til að styðja kennara við að nýta gervigreind til að aðlaga námsefni að mismunandi þörfum nemenda og koma þannig betur til móts við þá. Verkefnið verður þróað á næstu mánuðum og leiðirnar kynntar fyrir kennurum Egilsstaðaskóla á næsta skólaári.
Lesa meira
10.06.2025
Egilsstaðaskóla var slitið í 77. sinn þann 6. júní sl. Nemendur í 1. - 9. bekk mættu í skólann, hlýddu á ávarp skólastjóra og tóku svo við vitnisburði frá umsjónarkennurum. Nemendur í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum fluttu tónlistaratriði.
Um kvöldið voru útskrifaðir 38 nemendur úr 10. bekk. Við þá athöfn voru flutt ávörp og afhentir vitnisburðir. Nokkrir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í námi og fyrir dugnað, framfarir, prúðmennsku og þátttöku í félagslífi nemenda. Fulltrúar útskriftarnema ávörpuðu 10. bekkjarteymið og færðu þeim gjafir.
Hljómsveit skipuð nemendum í 10. bekk flutti tvö lög og í lokin stigu krakkarnir dans en í vetur hafa þau æft sig í að dansa gömlu dansana. Þannig kvöddu þau skólann eftir 10 ára skólavist með skottís og "Hæll tá".
Lesa meira