Um skólann

Egilsstaðaskóli er heildstæður grunnskóli sem fyrst og fremst þjónar nemendum sem búa á Egilsstöðum og í dreifbýlinu sem áður tilheyrði Eiða- og Hjaltastaðaþinghá. Frá haustinu 2014 er Hallormsstaðaskóli deild frá skólanum. Alls eru um 350 nemendur í skólanum og rúmlega 60 starfsmenn.

Allir nemendur hefja skóla á sama tíma eða kl. 8:50 árdegis, en hluti nemenda kemur með skólabílum úr dreifbýlinu. Aukinn nemendafjöldi og einsetning skóla kallaði á aðgerðir í húsnæðismálum og haustið 2010 var langþráðum áfanga náð, þegar rúmgóð nýbygging var tekin í notkun að fullu og um leið var lokið umfangsmiklum endurbótum á eldra húsnæði skólans. Gildi skólans eru gleði, virðing og metnaður. Gleði hefur mikil áhrif á líðan okkar, það er mikilvægt að hafa gaman af því sem við erum að gera. Þegar við erum glöð höfum við góð áhrif á aðra og okkur líður vel í návist annarra. Með virðingunni er átt við að allir eigi rétt á að láta sér líða vel í skólanum, fái að njóta sín sem einstaklingar og takist á við verkefni við hæfi. Jafnframt eru hverjum og einum lagðar þær skyldur á herðar að koma fram af virðingu við samnemendur, starfsfólk skóla og aðra þá sem þeir umgangast. Metnaður er að gera ávallt sitt besta og vera stoltur af verkum sínum. Hver einstaklingur býr yfir auði í formi sköpunarkrafts, getu og reynslu. Metnaður felst í því að virkja þennan auð til góðra verka. Egilsstaðaskóli er Olweusarskóli. Olweusaráætlunin er áætlun gegn einelti og andfélagslegu atferli. Vinaliðaverkefni fyrir 4.-7. bekk hófst haustið 2013. Aðal markmiðið verkefnisins er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútum. Þá er samstarf við Embætti landlæknis um verkefnið Heilsueflandi skóli. Verkefni snýst um heilsueflingu nemenda og starfsfólks. Skólinn er í hópi brautryðjenda í þessum efnum. Skólastjóri er Ruth Magnúsdóttir. Aðstoðarskólastjóri er Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir.

Símanúmer: Frístund    894-0471 Mötuneyti  470 0619