Fréttir

28.09.2023

Árshátíð elsta stigs - breytt dagsetning

Ákveðið hefur verið að færa árshátíð elsta stigs til 29. nóvember nk. Undirbúningur er þegar hafinn í samvinnu við Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Að þessu sinni verður söngleikurinn Grease settur á svið. Við hlökkum til!
27.09.2023

Haustið í 2. bekk

Krakkarnir í 2. bekk eru að vinna ýmis verkefni tengd haustinu. Þau fóru út og söfnuðu laufum sem þau þurrkuðu og límdu svo á blað sem þau skrifuðu texta á. Þau hafa líka skoðað orð sem tengjast haustinu auk þess að æfa sig á samsettum orðum, orðum sem byrja á au- og mörgu öðru.
20.09.2023

Þriðji bekkur í Náttúruskólanum

Náttúruskólinn var formlega stofnaður árið 2022 af hópi náttúru- og útivistarunnenda í Múlaþingi. Hópurinn hefur í mörg ár haldið námskeið á þessu sviði. Hlutverk Náttúruskólans er að efla börn og ungmenni til umhyggju og árvekni gagnvart sjálfum sér og náttúrunni og bjóða upp á áskoranir og skapandi tækifæri til reynslunáms. Í skólanum er lögð áhersla á útivist, átthagafræðslu, heilbrigðan lífsstíl, samskipti og samvinnu. Múlaþing gerði samning við Náttúruskólann um að tveir árgangar sæktu námskeið í skólanum og í liðinni viku fóru nemendur í 3ja bekk inn í Eyjólfsstaðaskóg þar sem ýmislegt var brasað. Skólinn hefur aðstöðu í Blöndalsbúð og rjóðrinu rétt hjá. Krakkarnir lærðu að tálga, búa til klifurgrind, baka lummur og fóru í gönguferðir í skóginum. Það voru einbeitt börn sem lögðu sig fram í verkefnunum og virtust njóta þessarar tilbreytingar frá hefðbundnu skólastarfi. Í október mun 9. bekkur fara í Óbyggðasetrið á vegum Náttúruskólans. Sagt verður frá því þegar þar að kemur.