Það er að færast jólablær yfir skólann, nemendur og starfsfólk. Ýmis verkefni eru í gangi; yngri nemendur eru að pakka inn jólagjöfum til foreldra, lita jólamyndir, reikna og skrifa sögur. Það er búið að búa til ýmiskonar jólaskraut og jólakötturinn er sjáanlegur víða. Á bókasafninu er jólabókaklúbbur og nemendur og starfsfólk hafa hengt upp köngla í stofur og á bókasafni, sem tákna hverja lesna bók.
Á fimmtudaginn er jólaskemmtun elsta stigs og þangað er 7. bekkingum boðið sem gestum. Sú skemmtun stendur frá kl. 19.00 til 22.00.
Í 1. - 6. bekk koma nemendur í skólann kl. 10.00 á föstudaginn, hlusta á jólasögu, halda stofujól og dansa svo kringum jólatréð. Skóladegi þeirra lýkur klukkan 11.30.
Undanfarnar vikur hafa krakkarnir í 6. bekk verið í PALS, sem er lestraraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi. Aðferðin byggir á því að nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hvor annan við að bæta lesturinn. Pörin nota stigakerfi sem hvatningu og gefa sér stig m.a. fyrir að ljúka verkefnum. Kennari fylgist með pörunum og aðstoðar eftir þörfum.
Rannsóknir sýna að PALS bætir bæði lestrarfærni og lesskilning hjá þeim nemendum sem fara í gegnum PALS ferlið. Það byggir undir bættan lesskilning hjá nemendum og þar með bættan námsárangur.
Í tilefni af því að PALS er lokið í bili hjá 6. bekk héldu þau PALS-lokahátíð, spiluðu bingó og fengu kakó. Það lagðist vel í krakkana og þau áttu notalega stund.
Það er hefð í Egilsstaðaskóla að fagna fullveldisdeginum 1. desember með stuttri dagskrá. Allir nemendur og starfsfólk skólans kom saman í matsal og hlýddu á ávörp, sögulestur og sungu svo saman í tilefni af Degi íslenskrar tónlistar. Fólk var sparibúið og hátíðarbragur yfir öllu. Berglind Karlsdóttir umsjónarkennari í 1. bekk flutti ávarp fyrir hönd starfsfólks, Árni Stefán Ólafsson formaður Nemendaráðs talaði fyrir hönd nemenda og tveir nemendur í 7. bekk, þau Styrmir Vigfús Guðmundsson og Birgitta Ósk Borgþórsdóttur lásu upp úr Dæmisögum Esóps. Í lokin voru sungin þrjú lög og eftir það héldu nemendur og starfsfólk aftur til sinna starfa.