Miðvikudaginn 22. október er opið hús i skólanum. Foreldrar og forsjáraðilar eru velkomnir í skólann til að kynna sér skólastarfið. Dagurinn er einnig helgaður vitundarvakningu um krabbamein og nemendur og starfsfólk hvatt til að klæðast bleiku til að lýsa upp skammdegið.
Nemendum í 6. bekk var boðið í heimsókn í Skaftfell á Seyðisfirði. Auk þess að skoða myndir eftir Kjarval og fá fræðslu um hann fóru krakkarnir á Tækniminjasafnið og skoðuðu ýmsa muni sem þar eru varðveittir. Þau voru brosmild og sungu á leiðinni heim í rútunni enda góður föstudagsmorgunn á Seyðisfirði.
Það er gaman að læra um landið sitt og það er hægt að gera á margan hátt. Krakkarnir í 6. bekk hafa unnið verkefni um Ísland þar sem þau hafa skrifað ferðasögur og fundið þjóðsögur sem tengjast ákveðnum stöðum. Þau merktu inn á stórt Íslandskort og tengdu svo myndir og sögur við staðina á kortinu. Skemmtileg leið til að læra landafræði.