Starfsfólk Egilsstaðaskóla situr tvö endurmenntunarnámskeið 13. og 14. ágúst. Í dag, miðvikudaginn 13. ágúst, er fjallað um sterka hópa undir leiðsögn Vöndu Sigurgeirsdóttur lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Vanda rekur ráðgjafafyrirtækið KVAN sem hefur sérhæft sig ráðgjöf fyrir einstaklinga, skóla og fyrirtæki. Hún hefur unnið með starfsfólki skólans í verkefnum sem tengjast sérstökum árgöngum og haldið námskeið um verkfærakistu grunnskólakennara.
Fimmtudaginn 14. ágúst er framhaldsnámskeið í tengslum við innleiðingu Heillaspora. Þá verður Íris D. Hugrúnardóttir Marteinsdóttir sérfræðingur Heillaspora hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með starfsmannahópnum.
Fyrsti starfsdagur skólaársins er föstudaginn 15. ágúst en þá hefst formlegur undirbúningur skólastarfsins. Kennarar munu boða alla foreldra & forsjáraðila í viðtöl með börnum sínum föstudaginn 22. ágúst en bókanir fara fram í gegnum Mentor.
Hægt er að hafa samband við skrifstofu skólans eða stjórnendur ef óskað er eftir frekari upplýsingum.
Skrifstofa Egilsstaðaskóla er lokuð vegna sumarleyfa til 5. ágúst. Brýnum erindum er hægt að beina til skólastjóra, Viðars Jónssonar (vidar.jonsson@mulathing.is)
Nýverið var úthlutað úr Sprotasjóði sem styrkir skólaþróunarverkefni í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Áherslusvið sjóðsins í ár var m.a gervigreind og hlaut Egilsstaðaskóli 850 þúsund krónur í styrk til verkefnisins "Aðlögun námsefnis með hjálp gervigreindar". Ætlunin er að leita leiða til að styðja kennara við að nýta gervigreind til að aðlaga námsefni að mismunandi þörfum nemenda og koma þannig betur til móts við þá. Verkefnið verður þróað á næstu mánuðum og leiðirnar kynntar fyrir kennurum Egilsstaðaskóla á næsta skólaári.