Heilbrigði og velferð

Heilbrigði byggist jafnt á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska nemenda og heilbrigði þeirra frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra nemenda á einstaklingsbundinn hátt. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Með því að gefa áhugasviðum nemenda rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði. Egilsstaðaskóli er heilsueflandi skóli, í því felst markviss hvatning og fræðsla allt skólaárið um hreyfingu, næringu, góð samskipti, hreinlæti og hvíld. Þættir sem snúa að sjálfsmynd og samskiptum eru einnig til umræðu á bekkjarfundum og viðfangsefni í lífsleikni. 

Heilbrigði og velferð, Egilsstaðaskóli