Nærsamfélag

Eldri borgarar: Egilsstaðaskóli býður eldri borgurum í heimsókn og sendir litla hópa í félagsaðstöðu þeirra. Félagsþjónusta Héraðssvæðis: Fulltrúi Félagsþjónustunnar situr nemendaverndarráðsfundi. Félagsþjónustan hefur einnig veitt ráðgjöf og aðstoðað skólann og foreldra í málum einstakra nemenda.

Fyrirtæki á Fljótsdalshéraði: Í tengslum við starfskynningar í 9. bekk fer fram samstarf við ýmis fyrirtæki á Fljótsdalshéraði. Náms- og starfsráðgjafi heldur utan um samstarfið. Jafnframt er samstarf við leikskóla og Stólpa í tengslum við val á miðstigi.

Heilsugæsla: Skólahjúkrunarfræðingur situr í nemendaverndarráði og hefur viðveru í skólanum þrjá daga í viku. Hann sinnir fræðslu og heilsuvernd og veitir ráðgjöf til foreldra og skóla í málum einstakra nemenda. Skólahjúkrunarfræðingur er jafnframt tengiliður við heilsugæslu.

Íþróttafélög og önnur skipulögð starfsemi fyrir börn og unglinga á Fljótsdalshéraði: Samstarf í tengslum við val á elsta stigi. Nemendur geta fengið skipulagðar æfingar hjá íþróttafélagi eða annarri skipulagða félagsstarfsemi metnar sem eitt af sex valtímabilum skólans.

Íþróttamiðstöðin Egilsstöðum: Í Íþróttamiðstöðinni fara fram skólaíþróttir. Því gilda skólareglur þar auk sérreglna sem kunna að vera í gildi á hverjum tíma. Baðvarsla: Starfsfólki Íþróttamiðstöðvarinnar er m.a. ætlað að vera inni í búningsklefum/böðum þegar nemendur eru þar. Ástæða þessa er tvíþætt: Að sjá um að allir fari í sturtu og þvoi sér eins og skyldan býður ásamt því að sjá um að samskipti nemenda séu jákvæð og uppbyggileg. Fulltrúar frá stjórnendateymi skólans funda reglulega með starfsfólki Íþróttamiðstöðvarinnar vegna baðvörslu.

Vatnajökulsþjóðgarður: Starfssemi þjóðgarðsins og þekkingin sem starfsmenn hans búa yfir býður upp á mörg tækifæri í skólastarfi. Skólinn hefur í samstarfi við þjóðgarðsvörð markað sér þá stefnu að nemendur í 5.bekk fá heimsókn frá þjóðgarðinum í tengslum við dag íslenskrar náttúru 16.september. Þeir heimsækja síðan Snæfellsstofu í vorferð. Nemendur 8.bekkjar fá heimsókn frá þjóðgarðinum og heimsækja síðan Snæfell og fara í göngu með landverði á göngudegi skólans.

Skólaskrifstofa Austurlands: Skrifstofan veitir skólum á Austurlandi ýmsa faglega ráðgjöf. Skrifstofan sinnir jafnframt greiningu á þroska og námsvanda barna. Óski foreldrar/forráðamenn eftir þjónustu sálfræðings eða annarra sérfræðinga vegna nemenda skólans er þeim bent á að hafa samband við umsjónarkennara og/eða skólastjóra. Í framhaldi er send beiðni um sérfræðiþjónustu til skrifstofunnar undirrituð af foreldrum og skólastjóra. Á heimasíða Skólaskrifstofu Austurlands er að finna ýmis hagnýt ráð til foreldra í tengslum við nám og líðan nemenda.

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs: Óformlegt samstarf er við Menningarmiðstöðina vegna ýmissa skólaverkefna. Stefna skólans er að nemendur og kennarar nýti sér þær sýningar sem settar eru upp í Sláturhúsinu og taki virkan þátt í starfi Menningarmiðstöðvarinnar