Heimili

Það er markmið Egilsstaðaskóla að samstarf skóla og heimila sé sem allra best. Gott samstarf eflir skólastarfið, stuðlar að betri líðan og styrkir nám nemenda.

Hlutverk forráðamanna er að gæta hagsmuna barna sinna og veita skólanum þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru. Jafnframt að fylgja eftir námi barna sinna, aðstoða við heimanám, taka þátt í bekkjarstarfi  og leggja sitt af mörkum til að stuðla að farsælli skólagöngu barnsins.  

Til að árangursríkt skólastarf eigi sér stað er upplýsingagjöf á milli skóla og heimila um nám og kennslu mikilvæg forsenda. Skólinn ber ábyrgð á að slíkt samstarf komist á með rafrænni upplýsingagjöf til foreldra um það sem fer fram í skólanum og með foreldrafundum. Að auki eru samstarfsviðtöl tvisvar á skólaárinu og umsjónarkennarar senda forráðamönnum tölvupóst á hverjum föstudegi um það sem fram fer í skólanum. Þá er skráning í Mentor hluti af starfi kennara og þar geta forráðamenn auðveldlega fylgst með t.d. ástundun og heimavinnu nemenda. Heimasíðan, fésbókasíða skólans og fréttabréf eru einnig upplýsingaveitur um skólastarfið fyrir foreldra.

Forráðamenn fá reglulega boð á viðburði og sýningar á vegum nemenda skólans auk þess sem haldnir eru reglulega fræðslufundir. Opinn dagur er í Egilsstaðaskóla tvisvar á ári og eru forráðamenn og aðrir þá sérstaklega hvattir til að leggja leið sína í skólann og kynnast starfinu sem þar fer fram. Skólinn væntir þess að foreldrar mæti í samstarfsviðtöl, á fundi um málefni einstakra árganga og afboði sig ef þeir af einhverjum ástæðum komast ekki.