Námsver - sérkennsla og stuðningur

Sérkennsla 1.-3. bekkjar

Nemendur með fötlun eða þroskafrávik fá úthlutuðum sérkennslutímum og er ýmist kennt utan bekkjarstofu eða inn í bekk. Unnið er eftir einstaklingsnámskrá þar sem markmið og leiðir koma fram. Mest er unnið með málþroska, lestur, stærðfræði og félagsfærni. Nemendur með fötlun eða þroskafrávik læra að nýta sér sjónrænt skipulag eftir fyrirkomulagi TEACCH. Sumir nemendur með þroskafrávik eða fötlun hafa með sér stuðningsfulltrúa sem vinnur undir handleiðslu umsjónarkennara. Nemendur með lestrarvanda fá sérkennslu í þeim þáttum sem liggja til grundvallar lestrarþjálfun. Reglulegar skimanir og kannanir eru framkvæmdar til þess að fylgjast með framvindu lestrarnáms.

Sérkennsla 4.-7. bekkjar

Á miðstiginu er lestrarfærni nemenda orðin meiri og er haldið áfram að skima og greina lestrarvanda og gripið til úrræða fyrir nemendur sem þurfa meiri þjálfun í lestri og stærðfræði. Sérkennslan fer fram innan bekkjar eða utan allt eftir því sem hentar best hverju sinni. Sérkennari aðstoðar nemendur með aðlagað námsefni eftir þörfum og haldið er áfram að vinna með sjónrænt skipulag eftir því sem við á. Nemendur með þroskafrávik eða fötlun hafa með sér stuðningsfulltrúa sem vinnur undir handleiðslu umsjónarkennara.

Sérkennsla 8.- 10. bekk

Egilsstaðaskóli starfar samkvæmt lögum um grunnskóla nr.91/2008 og reglugerð nemenda með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010. Stuðningur við nemendur á elsta stigi er sniðinn að hverjum og einum. Stuðningur getur falist í aðlögun námsefnis og styttri áætlunum til þess að gerð er einstaklingsnámskrá þar sem markmið og leiðir að náminu koma fram. Einstaklingsáætlanir eru gerðar fyrir skemmri tímabil og miða að því að gera nemandann sjálfstæðari í vinnubrögðum. Leitast er við að veita aðstoð inni í kennslustofu eða með því að nemendur vinna í smærri hópum. Þroskaþjálfi sinnir félagsfærniþjálfun hjá nemendum sem álitið er að þurfi slíka þjálfun. Stuðningsfulltrúar vinna með börnum með þroskafrávik eða fötlun.