Teymiskennsla

Í Egilsstaðaskóla er unnið undir merkjum teymiskennslu. Í því felst að tveir til þrír kennarar vinna saman með hvern árgang nemenda.

Markmiðið er að teymiskennsla dragi úr beinni kennslu, þar sem kennarinn stendur fyrir framan bekkinn og kennir öllum það sama. Í stað þess skapast möguleikar á að nemendur læri að vinna sjálfstætt, hafi meira val um viðfangsefni og geti unnið með námsefni við hæfi. Teymiskennslan skapar einnig aukið svigrúm fyrir kennara til að sinna nemendum einstaklingslega. Markmið með teymiskennslu eru jafnframt að rjúfa fageinangrun kennara og tryggja að allir kennarar taki þátt í samstarfi um nám og kennslu.

Í hverjum árgangi vinna umsjónarkennarar saman í teymi, auk þess mynda íþróttakennarar sér teymi og það sama á við um sérkennara og list- og verkgreinakennarar. Teymiskennsla hefur bæði kosti og galla en kostirnir eru umtalsvert fleiri. Meðal kosta fyrir kennara er að hægt er að nýta sérhæfingu hvers og eins kennara mun betur, það er gagnkvæmur stuðningur við agamál, námsmat verður samræmdara og það verður meiri fjölbreytni í kennslunni. Meðal kosta fyrir nemendur er að nemendur eru síður aðgreindir eftir getu, hægt er að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda og meiri fjölbreytni verður í verkefnum, þar sem fleiri koma að skipulagi kennslunnar.