Skóli án aðgreiningar

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla (585/2010) kemur fram að sérkennsla eða stuðningur við nemendur eða nemendahóp felist í sveigjanlegu og margbreytilegu námsumhverfi og kennsluháttum sem ætlað er að mæta þörfum allra nemenda. Við skipulag stuðnings við einstaka nemendur eða nemendahópa skal stuðla að því að hann fari fram innan skólans, án aðgreiningar. Stuðningi við nemendur með sérþarfir skal sinnt af umsjónarkennara, sérkennara eða öðrum kennurum eftir því sem við verður komið. Sérstakur stuðningur eða sérkennsla getur falið í sér breytingu á námsmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla, námsgögnum, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum til lengri eða skemmri tíma.  Í sérkennslu felst m.a. að gerð er rökstudd einstaklingsnámskrá fyrir nemendahóp eða einstakling í samráði við foreldra sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemenda og mati á stöðu hans í námi og þroska. Námskráin er reglulega endurskoðuð í samstarfi við foreldra. Sérkennsla einstakra nemenda eða nemendahópa fer fram innan eða utan bekkjardeilda.