Viðbrögð við alvarlegum samskiptavanda eða einelti

Einkunnarorð Egilsstaðaskóla eru gleði, virðing og metnaður. Áhersla er á að skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi þar sem öllum líður vel og allir tilheyra.

Skólinn vinnur að fyrirbyggjandi aðgerðum með þverfaglegu starfi. Egilsstaðaskóli starfar eftir uppbyggingarstefnunni Uppeldi til ábyrgðar og unnið er að innleiðingu Heillaspora og leiðsagnarnáms. Í gegnum hugmyndafræði þessara verkefna er áhersla á að styrkja hópa og einstaklinga og styðja börn og fullorðna í að eiga í góðum samskiptum þar sem borin er virðing fyrir hverjum og einum. Beitt er ýmsum aðferðum til að bæta bekkjaranda og skólabrag, m.a. nýtt Verkfærakista KVAN. Brugðist er við samskiptavanda ef hann kemur upp og unnið skv. viðbragðsáætlun við erfiðum samskiptavanda eða einelti.

Skilgreiningar
Í samskiptum nemenda er ágreiningur daglegt brauð og er alla jafna leystur jafnóðum.
Samskiptavandi verður alvarlegur þegar ekki næst að leysa málin og þegar samskiptamynstrið heldur áfram dögum eða vikum saman.

Einelti er þegar einstaklingur eða hópur beitir annan einstakling endurtekið ofbeldi yfir lengri tíma. Tilgangurinn getur verið að særa, ógna, útiloka eða niðurlægja til að láta viðkomandi líða illa

Birtingarmyndir eineltis:
Andlegt: Þvingun til að gera eitthvað án þess að vilja það.
Líkamlegt: Barsmíðar, spörk, að klípa, hrindingar.
Munnlegt: Uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni.
Félagslegt: Baktal, hunsun og útilokun úr vinahópi.
Efnislegt: Eigum barns er stolið eða þær eyðilagðar.
Stafrænt: Neikvætt áreiti í gegnum stafræna miðla eins og samfélagsmiðla, spjallforrit, tölvupóst eða tölvuleiki. Netið eða tæknibúnaðar er notaður til að meiða, stríða, niðurlægja, ógna eða útiloka.

Með því að ýta á tengilinn hér fyrir neðan kemur fram myndræn lýsing á ferli sem sett er af stað ef grunur vaknar um alvarlegan samskiptavanda eða einelti. 

Allir geta tilkynnt grun um einelti; starfsfólk, nemendur sjálfir og forsjáraðilar. Eyðublað fyrir tilkynningu er meðal þess sem er undir tenglinum. 

https://www.egilsstadaskoli.is/static/files/skolinn/eineltisvidbrogd/einelti-ferli-mals-eydublod.pdf