Fréttir

Sjöttubekkingar heimsækja Seyðisfjörð

Nemendum í 6. bekk var boðið í heimsókn í Skaftfell á Seyðisfirði. Auk þess að skoða myndir eftir Kjarval og fá fræðslu um hann fóru krakkarnir á Tækniminjasafnið og skoðuðu ýmsa muni sem þar eru varðveittir. Þau voru brosmild og sungu á leiðinni heim í rútunni enda góður föstudagsmorgunn á Seyðisfirði.
Lesa meira

Á ferð um Ísland

Það er gaman að læra um landið sitt og það er hægt að gera á margan hátt. Krakkarnir í 6. bekk hafa unnið verkefni um Ísland þar sem þau hafa skrifað ferðasögur og fundið þjóðsögur sem tengjast ákveðnum stöðum. Þau merktu inn á stórt Íslandskort og tengdu svo myndir og sögur við staðina á kortinu. Skemmtileg leið til að læra landafræði.
Lesa meira

Það er gott að lesa

PALS er heitið á aðferð sem er beitt í lestri og stærðfræði. Aðferðin byggist á því að þjálfa samtímis hóp af nemendum í stafaþekkingu og lestri með því að pör vinna saman. Pörin vinna saman í 35 – 40 mínútur í senn tvisvar til þrisvar í viku. Nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hvor annan við að bæta lesturinn. Pörin nota stigakerfi sem hvatningu og gefa sér stig m.a. fyrir að ljúka verkefnum. Aðferðin er mjög vel rannsökuð og hafa niðurstöður sýnt að PALS hjálpar flestum nemendum að bæta lesskilning og leshraða. Í 2. bekk eru nemendur þessa dagana að æfa sig í lestri með því að nota PALS aðferðina og sömuleiðis nemendur í 6. og 7. bekk. Áhugasömum er bent á að kynna sér PALS á læsisvefnum https://laesisvefurinn.is/ en þar er meðal annars að finna svæði sem heitir Lestrarmenning og þar er hægt að komast inn á aðra vefi þar sem er fjallað um lestur. Á vefsvæðinu www.lesummeira.is má finna gagnlegar ráðleggingar um hvernig er hægt styðja við lestur barna og gera lestur að gæðastund.
Lesa meira

10. bekkur í Stórurð

Árlegum göngudegi Egilsstaðaskóla var aflýst fyrr í haust vegna veðurs og þótti mörgum það afar leitt. Nemendur í 10. bekk voru mjög áhugasamir um að geta gengið í Stórurð, sem er síðasta - og jafnframt lengsta gangan - á skólaferli þeirra. Ákveðið var að grípa tækifærið ef veður leyfði sem reyndist raunin í vikunni. 10. bekkingar og starfsfólk sem kemur að árgangnum hélt af stað sl. miðvikudag, í góðu veðri og ágætum aðstæðum þrátt fyrir að það hefði snjóað á svæðinu nokkrum dögum áður. Hópurinn fékk bjart og fallegt veður í urðinni og allt gekk vel. Þar með geta nemendurnir hakað við það að hafa gengið í Stórurð, sem markar skref í áttina að útskrift þeirra úr grunnskóla.
Lesa meira

Náttúruskólinn að hausti

Krakkarnir í 3. bekk voru í Náttúruskólanum í Blöndalsbúð og Eyjólfsstaðaskógi 17.-18.september. Upplifun flestra var góð, þrátt fyrir kulda og bleytu en haustið kom með krafti þessa daga. Þetta voru skemmtilegir dagar með hæfilegri blöndu af námi, leik og spennandi næringu. Krakkarnir fóru í þrjár vinnusmiðjur; lærðu að tálga, fengu býflugufræðsla og lærðu óhefðbundnar trjámælingar. Á meðan maturinn mallaði yfir eldinum hjuggu þau eldivið og fengu að prófa að kveikja eld. Eftir hádegisverðinn, sem voru eldbakaðar tortillur með kjúklingi og grænmeti, eldbökuð eðla og snakk og eldpoppað popp, fengu þau að leika lausum hala í nánasta umhverfi. Lækurinn var mest spennandi í þeim efnum. Dagar eins og þessir eru góð tilbreyting frá hefðbundnu námi og auka þekkingu krakkanna á gæðum náttúrunnar og útivistar.
Lesa meira

Kynningarfundir að hausti

Þriðjudaginn 16. september verða haldnir kynningarfundir fyrir foreldra og forsjáraðila barna í Egilsstaðaskóla. Fundirnir hefjast í matsal með kynningu á innleiðingu Heillaspora og síðan haldið áfram með kynningar í heimastofum árganga. Fundir fyrir hvert stig hefjast sem hér segir: 1.-4. bekkur klukkan 16:30 5.-7.bekkur klukkan 17:30 8.-10. bekkur klukkan 18:30 Á kynningum í árgöngum verður farið yfir vetrarstarfið, sérstök verkefni á hverju stigi / árgangi og fleiri hagnýtar upplýsingar. Fundirnir taka u.þ.b. klukkustund.
Lesa meira

Umsjónardagur

Í vor var ákveðið að tveir skóladagar þessa skólaárs yrðu helgaðir því að styrkja hópa og efla tengsl milli nemenda og milli nemenda og starfsfólks. Í dag er fyrri umsjónardagurinn og um allt hús eru börn í samvinnuleikjum og verkefnum sem styrkja hópana. Leitað var í Verkfærakistu Vöndu Sigurgeirsdóttur / KVAN en allt starfsfólk sat námskeið með Vöndu í haust þar sem árgangateymi undirbjuggu m.a. umsjónardaginn. Það er mikill lærdómur í því að takast á við verkefni í sameiningu og leita lausna. Það reynir á krakkana að skipta verkefnum á milli sín og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er færni sem allir þurfa að þjálfa til að taka þátt í samfélaginu okkar. Í tilefni af gulum september og degi geðræktar voru margir mættir í gulum fötum og það var því bjart yfir að líta í skólanum í dag.
Lesa meira

Samvera - spil og umsjónardagur í næstu viku

Í vikunni nýttu kennarar í 9. og 10. bekk vinnumixtíma til að safna krökkunum saman í matsalinn þar sem þau spiluðu félagsvist. Markmiðið var notaleg samvera til að styrkja hópana og efla samskipti. Að spila saman er góð þjálfun í samskiptahæfni auk margs annars, s.s. nefnuhraða, minnisþjálfun o.fl. Í vetur verða sérstakir dagar á skóladagatalinu sem eru helgaðir samveru og hópefli, kallaðir umsjónardagar. Fyrsti umsjónardagurinn verður miðvikudaginn 10. september og þá er hver árgangur með umsjónarkennurum allan skóladaginn. Allir árgangar ljúka skóla klukkan 13.50 þennan dag.
Lesa meira

Bráðaofnæmi

Í Egilsstaðaskóla pössum við að vera ekki með hnetur eða kiwi þar sem einstaklingar í hópi nemenda og starfsfólks eru með bráðaofnæmi fyrir þeim matvörum. Á hverju hausti er allt starfsfólk upplýst um hvaða einstaklingar eru með bráðaofnæmi og hvernig á að bregðast við ef einstaklingur fær ofnæmisviðbrögð. Starfsfólki er kennt að beita adrenalínpenna og slíkir pennar fylgja þeim sem mögulega geta þurft að nota þá. Bráðaofnæmi getur verið lífshættulegt og þess vegna leggjum við áherslu á að allir virði það að koma ekki með matvöru sem inniheldur hnetur, möndlur eða kiwi inn í skólann. Á meðfylgjandi upplýsingablaði er bent á þær matvörur sem geta innihaldið hnetur og kiwi.
Lesa meira

Múli, Hnúta og Grund

Síðasta vetur var starfandi umhverfishópur Heillaspora sem m.a. gerði tillögur að merkingum í skólanum. Nú hefur hópurinn kynnt heiti innganga í skólann og sett upp merkingar við hvern inngang. Aðalinngangurinn er nefndur Múli, inngangur á mið- og elsta stig heitir Hnúta og á yngsta stigi er Grund. Heitin eru örnefni úr sveitarfélaginu og það er von okkar, sem störfum í skólanum, að smám saman festist þessi heiti við inngangana og verði okkur töm.
Lesa meira