27.11.2025
Mikilvægur þáttur í þróun skólastarfs er innra mat en samkvæmt lögum um grunnskóla ber öllum grunnskólum að meta starf sitt með reglubundnum hætti.
Innra mat Egilsstaðaskóla er viðamikið og tekur til margra þátta í skólastarfinu. Kannanir Skólapúlsins eru lagðar fyrir nemendur í 2. – 10. bekk, allt starfsfólk og úrtak foreldra & forsjáraðila. Auk þess eru reglulega lagðar fyrir aðrar kannanir s.s. Íslenska æskulýðsrannsóknin og Ungt fólk.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir þróunarstarfi sem fer fram innan skólans en þar ber helst að nefna innleiðingu á Heillaspori, leiðsagnarnámi og Uppeldi til ábyrgðar. Skólinn hlaut í vor vottun frá Háskólanum á Akureyri á því að vera Byrjendalæsisskóli.
Leitast er við að draga fram styrkleika og veikleika í skólastarfinu. Útfrá greiningu á veikleikum er lögð fram úrbótaáætlun sem tekur til yfirstandandi skólaárs. Auk þess er mat á úrbótaáætlun fyrra árs.
Skólastarf er í stöðugri þróun og því er mikilvægt að meta það með kerfisbundnum hætti þannig að hægt sé að bregðast við ef veikleikar koma fram í einhverjum þáttum.
Matsskýrslan hefur verið kynnt fyrir Fjölskylduráði Múlaþings, skólaráði Egilsstaðskóla og fyrir starfsfólki. Hún er aðgengileg undir tenglinum Skólinn; Mat á skólastarfi.
Lesa meira
27.11.2025
Það er hefð fyrir því að fagna fullveldi Íslands 1. desember ár hvert. Af því tilefni safnast nemendur og starfsfólk saman á sal undir stuttri dagskrá. Á dagskránni eru ávörp, stuttur upplestur og í lokin eru sungin þrjú lög til að halda upp á Dag tónlistarinnar.
Allir eru hvattir til að koma í betri fötunum til að gera daginn sem hátíðlegastan.
Aðventan er svo að ganga í garð og skólastarfið mun taka á sig jólalega mynd að einhverju leyti. Það er þó reynt að hafa uppbrot með minnsta móti og hafa sem mestan fyrirsjáanleika þar sem þessi árstími reynist mörgum krefjandi. Þannig færumst við hægt mót hækkandi sól á nýju ári.
Lesa meira
19.11.2025
Einn þáttur í umfjöllun um mannslíkamann í 9. bekk er krufning innyfla úr sauðfé og nautgripum. Þetta er mikilvægur þáttur í að gera sér grein fyrir starfsemi líffæranna. Þetta reynist sumum meiri áskorun en öðrum en nær öllum finnst þetta fróðlegt og lærdómsríkt. Nokkrar myndir fylgja af vettvangi.
Lesa meira
18.11.2025
Í liðinni viku settu nemendur á elsta stigi söngleikinn The Greatest Showman eða Sýningarstjórann á svið á fyrstu árshátíð skólaársins. Krakkarnir hafa unnið að undirbúningi síðan í september en það felur í sér leikæfingar, söngþjálfun, sviðsmyndagerð, hljóð- og ljósastjórn. Stór hópur nemenda og starfsfólk kemur að uppsetningu sem þessari enda er þetta viðamikil sýning. Hrefna Hlín Sigurðardóttir kennari þýddi söngleikinn The Greatest Showman og leikstýrði krökkunum. Kennarar í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum aðstoðuðu við söngþjálfun og myndmenntakennari stýrði leikmyndagerð auk stuðningsfulltrúa á elsta stigi sem aðstoðuðu við undirbúning og leikstjórn. Það er alltaf gaman að fylgjast með krökkunum eflast og styrkjast í æfingaferlinu og margir sigrar vinnast á leiðinni. Lokapunkturinn, sýningin sjálf, er uppskera margra vikna vinnu og það var auðséð í lok sýningar hve glöð og stolt krakkarnir voru af sýningunni. Fullur salur áhorfenda fagnaði þeim vel í lokin.
Lesa meira
12.11.2025
Þriðudaginn 18. nóvember boðar Foreldrafélag Egilsstaðaskóla til fundar kl. 17.00. Í upphafi verður fræðsla frá fulltrúa Heimilis og skóla og síðan stuttur aðalfundur. Í lokin verður vinnustofa um Farsældarsáttmálann.
Dagskrá fundarins verður sem hér segir:
Kl. 17.00 - 17.40 - Fræðsla frá Heimili og skóla (Sigurjón Fox)
Kl. 17.45 - 18.15 - Stuttur aðalfundur FE
Kl. 18.20 - 19.00 - Vinnustofa um Farsældarsáttmálann
Stjórn FE vonast til að sjá sem flesta á fundinum, að minnsta kosti eitt foreldri / forsjáraðili komi frá hverju heimili.
Undir flipanum Foreldrar - Foreldrafélag er skýrsla stjórnar. Undir flipanum Heimili og skóli er tengill á Farsældarsáttmálann.
Lesa meira
28.10.2025
Þriðjudaginn 4. nóvember eru samstarfsviðtöl í Egilsstaðaskóla. Í einhverjum árgöngum er líka boðað í viðtöl 3. nóvember sem annars er starfsdagur í skólanum. Búið er að senda út upplýsingar til foreldra og forsjáraðila um sjálfsmat nemenda sem er undirbúningur fyrir viðtölin. Opnað verður fyrir bókanir í viðtöl miðvikudaginn 29. október kl. 8.00 og lokað á miðnætti sunnudaginn 2. nóvember. Reiknað er með um 15 mínútum fyrir hvert viðtal þar sem rætt er um líðan barnsins, ástundun, hegðun og skipulag í námi.
Frístund er opin þennan dag en foreldrar þurfa að skrá börnin sérstaklega og miðast mönnun í Frístund við þá skráningu. Skólaakstur er á hefðbundnum tíma þennan dag en foreldrar eru beðnir um að láta skólabílstjóra vita ef þeir hyggjast ekki nýta sér aksturinn.
Kennsla hefst svo aftur miðvikudaginn 5. nóvember.
Lesa meira
20.10.2025
Miðvikudaginn 22. október er opið hús i skólanum. Foreldrar og forsjáraðilar eru velkomnir í skólann til að kynna sér skólastarfið. Dagurinn er einnig helgaður vitundarvakningu um krabbamein og nemendur og starfsfólk hvatt til að klæðast bleiku til að lýsa upp skammdegið.
Lesa meira
09.10.2025
Nemendum í 6. bekk var boðið í heimsókn í Skaftfell á Seyðisfirði. Auk þess að skoða myndir eftir Kjarval og fá fræðslu um hann fóru krakkarnir á Tækniminjasafnið og skoðuðu ýmsa muni sem þar eru varðveittir. Þau voru brosmild og sungu á leiðinni heim í rútunni enda góður föstudagsmorgunn á Seyðisfirði.
Lesa meira
03.10.2025
Það er gaman að læra um landið sitt og það er hægt að gera á margan hátt. Krakkarnir í 6. bekk hafa unnið verkefni um Ísland þar sem þau hafa skrifað ferðasögur og fundið þjóðsögur sem tengjast ákveðnum stöðum. Þau merktu inn á stórt Íslandskort og tengdu svo myndir og sögur við staðina á kortinu. Skemmtileg leið til að læra landafræði.
Lesa meira
02.10.2025
PALS er heitið á aðferð sem er beitt í lestri og stærðfræði. Aðferðin byggist á því að þjálfa samtímis hóp af nemendum í stafaþekkingu og lestri með því að pör vinna saman. Pörin vinna saman í 35 – 40 mínútur í senn tvisvar til þrisvar í viku. Nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hvor annan við að bæta lesturinn. Pörin nota stigakerfi sem hvatningu og gefa sér stig m.a. fyrir að ljúka verkefnum.
Aðferðin er mjög vel rannsökuð og hafa niðurstöður sýnt að PALS hjálpar flestum nemendum að bæta lesskilning og leshraða. Í 2. bekk eru nemendur þessa dagana að æfa sig í lestri með því að nota PALS aðferðina og sömuleiðis nemendur í 6. og 7. bekk.
Áhugasömum er bent á að kynna sér PALS á læsisvefnum https://laesisvefurinn.is/ en þar er meðal annars að finna svæði sem heitir Lestrarmenning og þar er hægt að komast inn á aðra vefi þar sem er fjallað um lestur.
Á vefsvæðinu www.lesummeira.is má finna gagnlegar ráðleggingar um hvernig er hægt styðja við lestur barna og gera lestur að gæðastund.
Lesa meira