Fréttir

Héraðsleikar 2023

Veðrið lék við okkur á Héraðsleikunum í síðustu viku. Nemendur í grunnskólum Múlaþings gerðu sér glaðan dag í Brúarásskóla, Fellaskóla og í Egilsstaðaskóla. Í Egilsstaðaskóla voru 3. og 4.bekkingar og nemendur á elsta stigi. Það var ýmislegt við að vera s.s. leikir, forritun, fyrirlestrar og margt fleira. Allir fengu pylsur í hádeginu og íspinna á eftir. Flestir virtust njóta dagsins, bæði ungir og eldri.
Lesa meira

Forvarnadagurinn 2023

Í dag koma nemendur úr 8.-10.bekk úr öllum grunnskólum í Múlaþingi saman í Egilsstaðaskóla á Forvarnadegi. Dagskráin er sett saman af starfsfólki íþrótta- og tómstundasviðs Múlaþings og starfsfólki félagsmiðstöðva. Í boði verða fyrirlestrar og smiðjur; Vanda Sigurgeirsdóttir talar um jákvæða leiðtoga og síðan er orðasmiðja, smiðja um fjölmenningu og fokk me fokk jú. Í kvöld verður sameiginlegt raveball í Nýung.
Lesa meira

Viðfangsefni 4.bekkjar á þemadögum

Verkefni 4.bekkjar á þemadögum voru í tengslum við hóflega nýtingu og endurnýtingu. Krakkarnir fóru í gámasvæðið og skoðuðu sig um. Síðan var fjallað um nýsköpun og tækifæri sem felast í því að hanna nýja hluti. Hægt var að velja á milli þess að föndra verkefni í nýsköpun eða taka í sundur gömul raftæki. Það síðarnefnda vakti mikla gleði hjá mörgum nemendum. Auk þessa var unnið hljóðdempunarlistaverk fyrir eitt kennslurýmið sem nú er fullunnið og tekið í notkun.
Lesa meira

Blómin og býflugurnar

Á þemadögum fjölluðu fyrstu bekkingar um býflugur og gildi þeirra, og annarra lífvera, í lífríkinu. Ekkert getur án annars verið. Gerð voru blóm og býflugur sem skreyta nú skólann okkar fagurlega.
Lesa meira

Heimsmarkmið númer 12 í 2.bekk

Á þemadögum vann 2.bekkur með heimsmarkmið nr. 12, ábyrg neysla og framleiðsla. Krakkarnir flokkuðu óskilafatnað sem safnast hefur hjá yngsta stigi í vetur og verðlögðu með því að finna sambærilegar flíkur á heimasíðum verslana. Kostnaðarverð þessa óskilafatnaðar hljóðar upp á 1.450.000 krónur. Nemendur gerðu kannanir, fundu uppruna fata sinna, horfðu á fróðleiksmyndbönd og bjuggu til spil sem vekja okkur til umhugsunar um eigin lífsstíl. Krakkarnir voru því talsvert fróðari um hvaðan fötin þeirra koma og hvers virði þau eru að þemadögum loknum.
Lesa meira

5. - 7.bekkur á þemadögum

Starfsfólk, sem starfar með 5.-7.bekk tók höndum saman og skipulagði dagskrá á þemadögum. Viðfangsefnið var sjálfbærni og fyrr í vikunni var efnið rætt í hverjum árgangi. Nemendunum var blandað í 4 hópa sem fóru á milli fjögurra svæða. Í upphafi fóru allir úr að plokka og síðan hófst svæðavinna. Á hverju svæði var ákveðið efni: 1) Rusl og sköpun: Unnið með listsköpun og nýsköpun úr nýtíndu rusli. 2) Endurnýting: Farið í Nytjamarkað og Fatabúð Rauða krossins, gámasvæðið og fatagám RK auk þess sem flokkunarkerfi voru skoðuð og hvernig breytingar eru að verða á ruslaflokkun. 3) Matur og uppruni; Fjallað um uppruna matvöru og síðan farið í kynnisferð í Nettó til að skoða hvaðan vörur koma. 4) Hreinsivirki og hringrás: Farið á eina hreinsistöð HEF út við Eyvindará. Kynning frá HEF og aðila frá Hreinsitækni um hvernig unnið er úr skólpinu og í hvaða ástandi það fer út í umhverfið aftur. Unnið verkefni í framhaldinu. Endapunktur þemadaganna í 5. – 7.bekk var svo fyrirlestur frá Aðalsteini Þórhallssyni framkvæmdastjóri HEF Veitna um hreinsikerfin, sóun og ýmislegt fleira. Krakkarnir voru áhugasamir og virkir í vinnunni og gaman að sjá afrakstur verkefnavinnunnar þeirra.
Lesa meira

Þemadagar í 3.bekk

Viðfangsefni þemadaganna í 3.bekk voru sjálfbærni og loftslagsbreytingar. Verkefnið var byggt upp sem stöðvavinna þar sem margt var til umfjöllunar. Í upphafi var horft á myndbönd um sjálfbærni og loftslagsbreytingar. Eftir það sköpuðust miklar umræður um hvað það er sem hvert og eitt okkar getur gert sem hefur jákvæð áhrif á jörðin okkar og að allt skiptir máli Á einni stöð var farið í gönguferð og hættuleg gatnamót skoðuð með það í huga að koma með lausnir á því hvernig hægt væri að greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi. Síðan var farið í ferðalag um landið í gegnum google earth og aðrir bæir skoðaðir sem og lausnir tengdu umferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Önnur stöðin var heimilisfræði þar sem var bakað nesti fyrir lautarferð sem var lokapunktur þemadaganna í þriðja bekk. Á þriðju stöðinni fór hópurinn í eldri bekki og gerði könnun á ferðamáta nemenda í skólann þann daginn og gerðu úr því súlurit. Fjórða stöðin var svo könnun á ferðamáta nemendanna sjálfra þessa daga og þau teiknuðu sig og ferðamátann og settu í súlurit sem var sett upp á plaköt. Endapunkturinn á þemadögunum var lautarferð hjá Vilhjálmsvelli, þar sem byrjað var á að tengjast saman í hring og mynda jörðina og hver og einn sendi eina ósk til handa jörðinni út í alheiminn. Óskirnar voru fjölbreyttar, allt frá því að passa hreiður fugla og vernda dýralíf, menga minna, eyða minna, fleiri rafmagnsflugvélar o.s.frv. Allir plokkuðu svo rusl í kringum áhorfendapallana og í lokin gæddu allir sér á bakkelsi úr heimilisfræði. Nemendur voru áhugasamir og virkir í þessum verkefnum öllum og eiga hrós skilið fyrir.
Lesa meira

Heimsálfuspil

Í 8.bekk nýttu nemendur tímann á þemadögum til að hanna og búa til spil um heimsálfurnar. Viðfangsefni í samfélagsfræði hefur einmitt verið umfjöllun um heimsálfurnar og því kjörið að vinna með efnið þessa tvo daga. Í lokin komu foreldrar og forráðamenn í heimsókn og tóku sumir þátt í að spila spilin sem krakkarnir bjuggu til. Það var mjög gaman að fylgjast með því hve áhugasamir og virkir nemendurnir voru í þessu verkefni og þau voru sýnilega ánægð með afraksturinn.
Lesa meira

Vel heppnaður útivistardagur

Eftir páskafrí tókst loksins að hafa útivistardag fyrir 5. - 9.bekk en áður hafði þurft að fresta vegna veðurs. Boðið var upp á ferð í Eyjólfsstaðaskóg annars vegar þar sem gert var út frá Blöndalsbúð og hins vegar var skíðaferð í Stafdal. Viðfangsefnin í Blöndalsbúð voru skipulögð af Náttúruskólanum í samvinnu við starfsfólk skólans. Krakkarnir fengu að tálga, mála á klaka, vatnslita úti, baka lummur yfir opnum eldi, gera jógaæfingar og ýmislegt fleira. Það var sérlega gaman að fylgjast með krökkunum í fjölbreyttum viðfangsefnum og í öðrum aðstæðum en dags daglega. Í Stafdal var skíðað af miklum krafti og þó nokkrir fóru á skíði í fyrsta skipti undir styrkri leiðsögn Hildar Jónu Gunnlaugsdóttur skíðakennara. Dagurinn var í heild vel heppnaður og nemendur og starfsfólk nutu þess að vera úti í fjölbreyttum verkefnum.
Lesa meira

Herra Skruddi og týnda galdradótið

Í 2.bekk hafa krakkarnir verið að lesa bókina Herra Skruddi og týnda galdradótið. Í tengslum við lesturinn eru ýmis verkefni unnin; æfð skrift, teiknaðar myndir, unnið með einstök orð, tvöfalda samhljóða og ýmislegt annað. Í meðfylgjandi myndasafni má sjá sýnishorn af vinnunni, sem er mjög mikilvægur þáttur á þeirri leið að ná tökum á lestri.
Lesa meira