Fréttir

Val í 8. - 10. bekk

Fimmtudaginn 5. september hefst fyrsta valtímabil. Nemendur hafa fengið kynningu á valnámskeiðum og fyrirkomulagi valsins. Þeir fara heim með valblaðið í dag og eiga að skila valblaðinu aftur á morgun með undirskrift foreldra / forsjáraðila. Foreldrar og forsjáraðilar fengu póst í dag með upplýsingum um valið; valblaðið í viðhengi ef einhver gleymir því í skólanum. Auk þess voru þar upplýsingar um reglur um utanskólaval. Valbæklingur er aðgengilegur á heimasíðu skólans, undir Nám og kennsla - Val í 8. - 10. bekk.
Lesa meira

Egilsstaðaskóli settur í 77. sinn

Í dag var Egilsstaðaskóli settur í 77. sinn. Viðar Jónsson, sem nýverið tók við stöðu skólastjóra, ávarpaði nemendur og forráðamenn þeirra. Hann greindi frá því að í haust hefja um 430 nemendur nám í skólanum og starfsfólk er um 100. Unnið er að þremur þróunarverkefnum í skólanum; leiðsagnarnámi, Uppeldi til ábyrgðar og frá þessu hausti hefst innleiðing verkefnisins Heillaspora en það verður nánar kynnt fyrir forráðamönnum á næstu vikum. Skólastarfið hefst svo að fullu á morgun, föstudag. Nú er boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir en forráðamenn eru beðnir um að skrá börn sín í ávaxtaáskrift.
Lesa meira

Skólasetning 2024

Egilsstaðaskóli verður settur þ. 22. ágúst nk. Nemendur í 1. - 4. bekk mæta klukkan 10.00 í matsal og eftir stutta samverustund fara þeir í heimastofur. Nemendur í 5. - 10. bekk mæta kl. 11.00 í matsal og fara einnig í heimastofur að lokinni stuttri samverustund. Foreldrar og forsjáraðilar eru velkomnir með börnunum. Skóladegi lýkur eftir að nemendur hafa hitt umsjónarkennara í heimastofum en skólastarf hefst svo að fullu föstudaginn 23. ágúst. Skrifstofa skólans er nú opin frá kl. 8.00 til 16.00 alla virka daga.
Lesa meira

Umsjónarkennarar veturinn 2024 - 2025

Undirbúningur fyrir næsta skólaár er í fullum gangi í Egilsstaðaskóla. Nú liggur fyrir hvernig umsjónarkennarateymi verða skipuð. Þar eru bæði kennarar sem hafa starfað lengi við skólann og aðrir sem eru að hefja störf við skólann. Upplýsingar um aðra kennara verða gefnar í ágúst, s.s. íþróttakennarar, list- og verkgreinakennarar, faggreinateymi á unglingastigi og hverjir sinna stoðþjónustu í skólanum. Í 1. bekk verða umsjónarkennarar Berglind Karlsdóttir, Drífa Magnúsdóttir og Sigrún Þöll Kjerúlf Í 2. bekk verða umsjónarkennarar Halldóra Björk Ársælsdóttir og Svana Magnúsdóttir Í 3. bekk verða umsjónarkennarar Berglín Sjöfn Jónsdóttir, Fanndís Ósk Björnsdóttir og Jóhanna Björk Magnúsdóttir Í 4. bekk verða umsjónarkennarar Gyða Guttormsdóttir, Jónína Brá Árnadóttir og Júlía Kristey H. Jónsdóttir Í 5. bekk verða umsjónarkennarar Carola Björk T. Orloff, Rósey Kristjánsdóttir og Védís Hrönn Gunnlaugsdóttir Í 6. bekk verða umsjónarkennarar Auður Dögg Pálsdóttir, Erla Gunnlaugsdóttir og Lovísa Hreinsdóttir Í 7. bekk verða umsjónarkennarar Adam Eiður Ásgeirsson, Hlín Stefánsdóttir og María Emilsdóttir Í 8. bekk verða umsjónarkennarar Sigurður Högni Sigurðsson og Þórunn Guðgeirsdóttir Í 9. bekk verða umsjónarkennarar Fjóla Rún Jónsdóttir, Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir og Sigfús Guttormsson Í 10. bekk verða umsjónarkennarar Jón Magnússon, Sandra Ösp Valdimarsdóttir og Sæbjörn Guðlaugsson
Lesa meira

Skólaslit 2024

Egilsstaðaskóla var slitið í 76. sinn fimmtudaginn 6. júní sl. Þá fengu 413 nemendur vitnisburð sinn en af þeim útskrifuðust 34 úr 10. bekk. Kristín Guðlaug Magnúsdóttir flutti skólaslitaræðu þar sem hún greindi m.a. frá því að hún lætur af starfi skólastjóra í vor en heldur áfram störfum innan skólans sem umsjónarmaður bókasafnsins. Við útskrift 10. bekkjar flutti formaður Nemendaráðs, Ríkey Anna Ingvarsdóttir, ávarp og umsjónarkennarar 10. bekkjar töluðu til nemenda. Fulltrúar nemenda afhentu umsjónarkennurum, iðjuþjálfa og stuðningsfulltrúum gjafir með þökkum fyrir samstarfið. Nemendur fluttu tónlistaratriði á skólaslitunum. Maria Anna Szczelina spilaði verk eftir Debussy á píanó og hljómsveit skipuð 9 nemendum í 10. bekk spilaði lagið Hotel California ásamt Margréti Láru Þórarinsdóttur. Við óskum öllum útskriftarnemum til hamingju með þennan stóra áfanga og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Lesa meira

Skólaslit í dag

Í dag verður Egilsstaðaskóla slitið í 76. sinn og nemendur fara í sumarfrí. Skólaslit fyrir nemendur í 1.-4. bekk eru klukkan 9.00 og hefjast með stuttri samveru í matsal. Klukkan 10.30 eru skólaslit fyrir nemendur í 5. - 9. bekk sem hefjast einnig með samveru í matsal. Í kvöld verður 10. bekkur útskrifaður og hefst sú athöfn klukkan 20.00. Foreldrum og forsjáraðilum er bent á að mikið magn er af óskilafatnaði sem liggur frammi við innganga. Hægt verður að koma og líta yfir bunkana næstu þar til um miðja næstu viku.
Lesa meira

Stríðsminjasafn og hellaskoðun

Í tengslum við umfjöllun um stríðsárin fer 9. bekkur í skoðunarferð á Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði. Í síðustu viku nýtti hópurinn góða veðrið, skoðaði safnið og fór svo yfir á Eskifjörð þar sem tekið var á móti hópnum á Mjóeyri. Sævar spjallaði við krakkana og leiðsagði í helli, sem er skammt frá Mjóeyrinni. Það var áskorun að fara inn í hellinn sem djúpur og þar sér fólk ekki handa sinna skil. Ferðin gekk í alla staði vel og krakkar og starfsfólk glöð við heimkomuna.
Lesa meira

Blómin á þakinu

Nemendur í 2. bekk hafa síðustu vikur unnið með bókina Blómin á þakinu eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur í Byrjendalæsi og verkgreinum. Þau gerðu meðal annars bók með allskyns verkefnum, saumuðu blóm í textílmennt og máluðu blóm á glært plexígler í myndmennt. Þau gerðu einnig salat í heimilsfræði og smíðuðu dýr í smíðum. Þetta er dæmi um samþætt verkefni þar sem unnið er með mörg hæfniviðmið sem þjálfa börnin á margvíslegan hátt. Foreldrum og forsjáraðilum var boðið á sýningu á afrakstri vinnunnar en krakkarnir buðu upp á veitingar í Miðgarði.
Lesa meira

Þriðjubekkingar í fjöruferð

Á hverju vori fer 3. bekkur í fjöruferð. Fyrir landkrabba á Héraði er mjög spennandi að komast í fjöru og uppgötva lífríkið þar. Hópurinn byrjaði á að skoða Náttúruminjasafnið í Neskaupstað og þar heyrðist oft "VÁ!" enda margt fallegt að sjá. Síðan var farið í fjöruna þar sem sumir óðu út í sjó á meðan aðrir skoðuðu það sem finna mátti í fjörunni. Að lokum fór hópurinn út að vitanum, borðaði hádegisnestið og þangað kom starfsmaður Náttúrustofu Austurlands með fræðslu, m.a. um fæðukeðju hafsins og fjöllin í firðinum. Það var þoka í byrjun dags en svo létti til og Norðfjörðurinn skartaði sínu fegursta.
Lesa meira

Fimmti bekkur heimsækir Fljótsdalinn

Á hverju vori fer 5. bekkur Fljótsdalshringinn og kynnir sér starfsemi stofnana í Fljótsdal. Á ferð sinni um dalinn í vikunni skoðuðu krakkarnir Fljótsdalsstöð og fengu fræðslu um Fljótsdalsvirkjun. Þau fóru inn í fjallið og skoðuðu stöðvarhúsið. Á Skriðuklaustri skoðuðu þau húsið og fengu að prófa sýndarveruleika. Í Snæfellsstofu var starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs kynnt fyrir krökkunum og þau skoðuðu sýningu sem er í gestastofunni. Það var vel tekið á móti krökkunum og starfsfólki skólans á öllum stöðum og við þökkum kærlega fyrir okkur.
Lesa meira