Fréttir

Allir jafnir í Ávaxtakörfunni

Það er fallegur og góður boðskapur í leikritinu Ávaxtakarfan, sem nemendur í 5. - 7. bekk sýndu á árshátíð sinni í vikunni. Allir eiga jafnan rétt og eru jafn mikilvægir hvort sem þeir eru ávextir, ber eða ávextir! Undirbúningur árshátíðarinnar hefur staðið í nokkrar vikur og fyrst og fremst i höndum umsjónarkennara. Aðrir hafa þó lagt hönd á plóg enda er margt sem þarf að hafa tilbúið þegar svo viðamikil sýning er sett á svið. Kennarar saumuðu búninga, húsvörður aðstoðaði við gerð sviðsmyndar, list- og verkgreinakennarar komu að gerð sviðsmyndar auk þess sem starfsfólk skólans aðstoðaði nemendur við að læra á og stjórna hljóði og ljósum. Kennarar við Tónlistarskólann á Egilsstöðum mynduðu hljómsveit sem spilaði undir í nokkrum lögum ásamt því að hafa æft krakkana í sönglögum. Það er mikill lærdómur fyrir alla að taka þátt í að setja leikrit á svið og oft reynir á í undirbúningsferlinu. Við erum afskaplega stolt yfir því hve vel krakkarnir stóðu sig á sýningunni. Meðfylgjandi eru myndir sem starfsfólk tók á sýningunni en líka myndir sem Unnar Erlingsson tók á generalprufu og leyfði okkur að nota fyrir heimasíðuna.
Lesa meira

100 daga hátíð

Í Egilsstaðaskóla er hefð fyrir svokallaðri 100-daga-hátíð fyrir nemendur í 1. bekk. Þá er haldið upp á það að krakkarnir hafa verið í skólanum í 100 daga. Hátíðin var undirbúin með því að búnar voru til veifur og skrifað á 100 hjörtu það sem krakkarnir hafa lært þessa fyrstu 100 daga. Hjörtun mynda töluna 100 á veggnum fyrir framan stofur 1. bekkjar. Í litlum hópum voru gerðar tilraunir með að skrifa 100 orð á blað. Krakkarnir útbjuggu medalíur sem á stóð „100 dögum klárari“ og skreyttu með einum tug af perlum. Á hátíðinni sjálfri mátti koma með dót að ósk hvers og eins. Þá teiknuðu krakkarnir mynd af sér þegar þau væru orðin 100 ára og skrifuðu þrennt sem þau ætla að vera búin að gera þegar þau verða 100 ára. Það voru búin til 100 skrímsli og síðast en ekki síst fengu allir að telja sér 10 einingar af 10 tegundum af góðgæti í poka, sem þau gæddu sér á yfir bíómynd í lok dags.
Lesa meira

Ísbirnir og fólk

Nemendur í 3. bekk hafa síðustu daga verið að fræðast um og vinna með ísbirni. Þetta samþætta verkefni fellur undir Byrjendalæsi þar sem unnið er með hæfniviðmið sem falla undir íslensku, náttúru- og samfélagsfræði og er bókin Ísbjörn (  https://mms.is/namsefni/milli-himins-og-jardar-isbjorn-rafbok ) lögð til grundvallar. Meðal þess sem nemendur hafa gert er æfa sig í lestri fræðitexta og svara spurningum úr textanum, semja ljóð og gera myndasögu sem lýsir lífsháttum ísbjarna. Stærsta verkefnið var þó að teikna upp ísbirni og barn í raunstærð.  
Lesa meira

Bóndadagur 2024

Nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla fögnuðu upphafi þorra í dag, á bóndadag. Margir komu í þjóðlegum fatnaði og í mötuneytinu var boðið upp á hangikjöt, nýja sviðasultu, súra punga og hákarl ásamt fleiru. Krakkarnir voru dugleg að borða og smakka þennan mat, sem er nú sjaldan á borðum. Starfsfólk skólans bjó sig upp á í tilefni dagsins og það var skemmtileg tilbreyting.
Lesa meira

Heimsóknir leikskólabarna

Á hverjum vetri koma börn úr elsta árgangi leikskólans Tjarnarlands í heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Markmiðið er að börnin fái innsýn í ákveðna þætti í skólastarfinu smám saman og aðlagist þannig tilhugsuninni um að byrja í 1. bekk. Í dag sótti hluti árgangsins tíma í list- og verkgreinum en áður hafa þau komið á bókasafnið og eldri nemendur hafa lesið fyrir þau. Eftir er heimsókn í íþróttatíma og í vor koma þau hluta úr degi í skólann og sjá þá kennslustofurnar sem þau koma til með að vera í.
Lesa meira

Símalaus skóli

Frá áramótum er Egilsstaðaskóli símalaus skóli. Með því er átt við að nemendur mega ekki vera með síma uppivið, hvorki í kennslustundum eða í frímínútum og matartímum. Þetta á við nemendur í 7. - 10. bekk. Engar breytingar urðu á reglum fyrir nemendur í 1. - 6. bekk sem ekki hafa mátt koma með síma/snjalltæki í skólann. Fyrstu dagarnir hafa gengið mjög vel og nemendur hafa nánast undantekningarlaust tekið breytingunni vel. Bókasafnið verður nú opið í fríminútum en þar er hægt að tefla, spila og lesa. Í opnum rýmum verða í boði spil, borðtennis og fleira. Sem fyrr geta nemendur farið út í frímínútum og nýtt aðstöðu úti. Nemendaráð mun sjá um að sýndir verði þættir í fyrirlestrasal einhverja daga og kennarar ætla að skipta með sér að kenna á spil og aðstoða við prjón og hekl svo eitthvað sé nefnt. Vikurnar til 2. febrúar eru hugsaðar sem aðlögunartímabil en þann tíma verða ekki viðurlög ef nemendur fara ekki eftir reglunum. Boðið verður uppá að skila símum í lítil box, sem kennarar koma fyrir í læstri hirslu. Símarnir verða svo afhentir í lok skóladags. Í byrjun febrúar verður farið yfir það sem vel hefur gengið og hvað má bæta.
Lesa meira

Skólastarf á nýju ári

Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum og foreldrum / forráðamönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir samskiptin á liðnu ári. Skólastarf hefst aftur fimmtudaginn 4. janúar.
Lesa meira

Jólakveðja

Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Nemendur mæta aftur í skólann 4. janúar. Skrifstofa skólans verður lokuð frá 21. des til 3. jan. Miðvikudaginn 3. janúar er starfsdagur í skólanum og Frístund lokuð. Skólastarf nemenda hefst samkvæmt stundaskrá á nýju ári fimmtudaginn 4. janúar.
Lesa meira

Jólatré í stofu stendur

Undirbúningur fyrir jólaskemmtanir var í fullum gangi í dag; Jólatréð var tekið inn og þurfti að kalla marga til því tréð er stórt og þungt. Nemendaráð sér svo um að skreyta tréð og salinn fyrir jólaskemmtun fyrir 7. - 10. bekk er í kvöld. Að henni lokinni eru nemendur í þeim árgöngum komnir í jólafrí. Á morgun verður dansað í kringum tréð þegar nemendur í 1. - 6. bekk mæta sinn síðasta skóladag fyrir jólafrí.
Lesa meira

Fiðrildafangarar í 6. bekk

Krakkarnir í sjötta bekk héldu sýningu á fiðrildum, sem þau höfðu búið til í textíl. Fiðrildin eru litrík og fjölbreytileg eins og vera ber og þau tóku sig vel út í vetrarbirtunni.
Lesa meira