02.06.2021
Undanfarna daga hefur 3. bekkur verið að vinna með hafið og kynntust krakkarnir helstu fiskitegundum. Nokkrar tegundir voru svo teknar fyrir sérstaklega og unnið nánar með þær.
Í tengslum við þessa vinnu fórum við í ferðalag niður á Fáskrúðsfjörð. Fáskrúðsfjörður tók vel á móti okkur og byrjuðum við á því að skoða fjöruna. Þar var ýmislegt að sjá og meira að segja kom selur og kíkti á okkur.
Eftir fjöruskoðun lá leið okkar á franska safnið og fengum við leiðsögn þar um. Ýmislegt áhugavert sem við heyrðum og sáum þar og mælum við sannarlega með ferð þangað.
Að lokum fundum við okkur leiksvæði til að fá okkur hádegis nesti og leika okkur áður en haldið var heim, sæl og glöð eftir góðan dag.
Einnig höfum við unnið með hvali og í þeirri vinnu voru gerðar mælingar á skólalóðinni. Við komumst m.a. að því að ekki er pláss fyrir fullvaxna steypireyði í miðgarðinum okkar.
Lesa meira
26.03.2021
Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk 2020 –2021 lauk formlega á norðursvæði Austurlands þann 17. mars sl. með upplestrarhátíð í golfskálanum Ekkjufelli í Fellum. Þar komu saman fulltrúar frá Egilsstaðaskóla, Fellaskóla, Brúarásskóla, Vopnafjarðarskóla og Seyðisfjarðarskóla.
Í ár var keppnin haldin í 25. sinn og að þessu sinni voru lesnir valdir kaflar úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Auk þess fluttu þátttakendur ljóð að eigin vali. Að vanda reyndist ekki auðvelt að velja sigurvegarana þar sem allir keppendur stóðu sig með miklum ágætum.
Stóra upplestrarkeppnin í sjöunda bekk hefur, undanfarinn aldarfjórðung, hafist ár hvert á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og lokið í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.
Egilsstaðaskóli átti fimm fulltrúa á lokahátíðinni og er ánægjulegt að segja frá því að Harpa Sif Þórhallsdóttir hlaut 2. sæti í keppninni.
Lesa meira
26.03.2021
Þann 23. mars síðastliðinn var útivistardagur í 5. – 7. bekk . Nemendum stóð til boða tveir valkostir sem þeir þurftu að velja fyrirfram. Annað var gönguferð í Taglarétt með Þórdísi Kristvinsdóttur, leiðsögumanni. Hópur 35 nemenda gekk sem leið lá að Miðhúsum og þaðan í Taglarétt. Gamla réttin var skoðuð og nesti borðað. Staldrað við hjá Klofasteini og athugað með kökur sem hefð er fyrir að álfkonan sem þar býr bjóði upp á fyrir duglegt göngufólk á göngudaginn í 2. bekk. Því miður átti álfkonan ekki von á gestum þennan dag og því engar kökur í boði fyrir vonsvikna göngugarpa. Að lokinni göngu var látið líða úr sér í sundlauginni á Egilsstöðum. Á sama tíma fóru rúmlega 70 nemendur með rútu frá Egilsstaðaskóla í Stafdal. Sumir alvanir brekkunum á meðan aðrir stigu í fyrsta skipti á skíði eða snjóbretti. Skíðakennari var á staðnum til að leiðbeina nýliðum. Það var gaman að sjá hvað nemendur voru tilbúnir að láta vaða og standa alltaf upp aftur eftir ítrekuð föll. Seiglan!
Veðrið var eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Datt í dúnalogn, fljótlega eftir að lagt var af stað og nokkrir sólargeislar náðu í gegnum skýin á tímabili.
Heilt yfir frábær dagur hjá okkar fólki. Ánægjan skein úr andlitum nemenda og greinilega kærkomið að fara aðeins út úr skólanum og stunda nám af öðrum toga en gengur og gerist hversdags.
Lesa meira
11.03.2021
Þegar nemandi velur sér valgrein á unglingastigi er mikilvægt að hann velti öllum möguleikum fyrir sér og ræði hugmyndir sínar við foreldra eða forráðamenn. Valið á að byggja á áhuga og þörfum hvers og eins en ekki því hvert félagarnir stefna. Valgreinar eru jafnmikilvægar og aðrar námsgreinar og kröfur um ástundun og árangur jafnmiklar og í öðrum greinum.
Nýverið lauk hópur nemenda á unglingastigi námskeiði í leirvali. Aðalverkefnið var að hanna og móta vasa úr rauðleir skv. pylsuaðferð. Nemendur veltu fyrir sér formi, skreytingu og litum á glerungum sem þeir settu á vasann.
Verkefni tókst vel og mikill metnaður hjá nemendum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira
05.03.2021
Á hverju ári fá nemendur í 3. bekk fræðslu um eldvarnir fyrir jólin og í kjölfarið geta þeir tekið þátt í eldvarnargetraun frá Landsambandi slökkviliðsmanna. Nú á dögunum var dregið í þessari getraun og ekki hægt að segja annað en að við höfum fengið skemmtilega heimsókn í kjölfarið. Haraldur Geir, slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi kom og tilkynnti okkur að einn nemandi úr okkar hópi hafi verið dreginn út og var það Edda Ósk Björgvinsdóttir sem var hin heppna og fékk hún inneign í Spilavinum og viðurkenningarskjal í verðlaun.
Við samgleðjumst henni og óskum henni innilega til hamingju.
Lesa meira
04.03.2021
Nemendur 6. bekkjar unnu á dögunum skemmtilegt verkefni þar sem þeir kynntu sér matarsóun og með hvaða leiðum við getum minnkað hana. Þeir unnu í hópum og útbjuggu kynningu sem þeir fluttu fyrir áhugasama nemendur 1.-5. bekkjar. Með því vildum við vekja alla til umhugsunar um þá sóun sem felst í því að leifa mat.
Á tveggja vikna tímabili vigtuðu nemendur hve mikill matur fór til spillis í matsal skólans í matartímum yngsta stigs og miðstigs, þ.e. hve mikill matur var skafinn af diskunum eftir matartímann. Fyrri vikuna vissu aðeins nemendur 6. bekkjar af vigtuninni en fyrir þá seinni höfðu hóparnir haldið kynningar um matarsóun fyrir 1. – 5. bekk. Nemendur í þessum bekkjum voru því meðvitaðir um vigtunina og að fá sér aðeins minna á diskinn og fara frekar oftar. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og leifðu mun minni mat seinni vikuna eða 21,25 kg á móti 31,85 kg í þeirri fyrri.
Allir hópar unnu svo með niðurstöður vigtunarinnar í Excel töflureikni og gerðu súlurit sem sýnir vel mun milli vikna. Að lokum voru gerð veggspjöld sem hengd voru um skólann til að sýna niðurstöður vigtunarinnar til að minna alla á að gera sitt besta og sóa ekki mat að óþörfu.
Lesa meira
16.02.2021
Vikuna 8.-12. febrúar voru heilsu- og hreyfidagar í Egilsstaðaskóla.
Þessa daga var sérstök áhersla lögð á hreyfingu og heilsu í skólastarfinu. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa hreyfingu meiri gaum og hreyfa sig með fjölbreyttum hætti í skólastarfinu og huga að heilsu og vellíðan hvort sem það var með gönguferðum, útileikjum, slökun, stofuleikfimi, dans eða með öðrum hætti. Það var vinsælt að fara út að renna, á skauta og lengdar frímínútur nýttar í gönguferðir og aukatíma á fót- og körfuboltavelli. Á öllum stigum var notast við myndbönd Lazy monster fyrir stofuleikfimi og dansað með just dance.
Hafragrautur var í boði á morgnana fyrir nemendur og starfsmenn í matsal skólans og voru allt upp í 100 manns sem nýttu sér það á degi hverjum. Krafthræra, sem nemendur í sjöunda bekk útbjuggu í heimilisfræði var í boði fyrir alla nemendur og starfsmenn. Krafthræra er nýtt íslenskt orð yfir ávaxtaboost.
Því miður þurfti að fresta hefðbundnu bekkjarmóti í íþróttahúsi, þar sem aðeins mátti vera með 50 nemendur í hóp sökum heimsfaraldurs. Stefnt er á að halda það mót um leið og takmörkunum verður aflétt. Þess í stað fóru allir bekkir í Tarzanleik í íþróttum.
Rætt var við nemendur um gildi hreyfingar, slökunar, svefns, útiveru, mataræðis og þeirra þátta sem almennt snerta heilsu og vellíðan okkar.
Starfsmenn skólans fengu leiðsögn á gönguskíðum ásamt hugleiðslu og slökun í vikulokin.
Lesa meira
16.02.2021
Þessa dagana á himingeimurinn hug allra í 3. bekk. Nemendur hafa unnið í hópum með eina plánetu hver og orðið sérfræðingar í henni. Hópavinnunni lauk svo með kynningu fyrir bekkjarfélaga og þannig hafa allir fengið fræðslu um allar pláneturnar. Á þessum tímum þar sem foreldrar geta ekki komið í heimsókn í skólann var brugðið á það ráð að bjóða foreldrum að vera með í gegnum Teams. Ekki hægt að segja annað en að ánægja hafi verið með hversu vel tókst til.
Lesa meira
11.02.2021
Menntun í list- og verkgreinum felst í því að nemendur vinna verklega og skapandi vinnu þar sem reynir á huga, hjarta og hönd. Námið felur í sér kerfisbundna þjálfun í hverri námsgrein fyrir sig þar sem reynir á ólíka þætti í mismiklum mæli eftir eðli verkefna.
Nemendur í 2. bekk fara í tvær lotur í textílmennt á hverju skólaári, ein á haustönn og ein á vorönn. Haldið er áfram að byggja ofan á þekkingu sem nemendur hafa og þeir fá að kynnast saumavélinni í einföldum vélsaumsverkefnum. Lögð er áhersla á að nemendur beri virðingu fyrir tækjum og efnivið sem verið er að nota og temji sér góða umgengni.
Um helmingur bekkjarins hefur nú lokið textílmennt á þessari önn. Þau stigu sín fyrstu skref í vinnu á saumavél og áhuginn á því töfra tæki mikill. Þessir kátu krakkar eru búin að sauma sér þessar fínu húfur úr flísefni sem hafa komið sér sérstaklega vel í kuldanum upp á síðkastið.
Eins og sjá má eru menn ánægðir með útkomuna.
Lesa meira