25.10.2024
Skelfilegi bókaklúbburinn er nú í gangi á bókasafninu í tilefni al-íslenskrar hrekkjavöku.
Það er hægt að finna hinar ýmsu hryllilegu hryllingssögur, mishryllilegar eftir aldri og þori nemenda. Krakkarnir, sem vilja taka þátt, fá lestrarkort og geta valið sér hryllingsmyndir til að líma í það þegar þau hafa lokið bók. Nú þegar hafa um 140 börn skráð sig í klúbbinn því það er gríðarlegur áhugi á að taka þátt. Klúbburinn lifir næstu þrjár til fjórar vikur en þá tekur jólaklúbburinn við.
Lesa meira
16.10.2024
Nemendur í 9. og 10. bekk fengu heimsókn frá Alþingi í morgun. Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur starfsfólk skrifstofu Alþingis ferðast um landið til að heimsækja grunnskóla á landsbyggðinni þar sem þeir kynna starfsemi Alþingis og setja upp eins konar Skólaþing. Nemendum var skipt í 4 þingflokka og ýmis mál rædd. Gestirnir voru mjög ánægðir með hve virkan þátt krakkarnir tóku þátt í umræðunni og hældu hópunum.
Lesa meira
16.10.2024
Í haust urðu ýmsar breytingar á nýtingu húsnæðis Egilsstaðaskóla. Árgangar voru fluttir til í þeim tilgangi að nemendur fengju meira rými, aðstaða starfsfólks var sameinuð og opin rými nýtt sem vinnusvæði. Fjórir deildarstjórar hafa sameiginlega vinnuaðstöðu í því sem áður var fundaherbergi, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri deila skrifstofu, náms- og starfsráðgjafi og félagsfærnikennari deila rými og þrjú rými, sem áður voru skrifstofur eru nú fundaherbergi, vinnurými og kennsluaðstaða. Bókasafn skólans hefur tekið nokkrum breytingum og er að hluta til opið fyrir börnin sem eru í Frístund fyrir og eftir skóla. Frístund hefur nú aðstöðu á efstu hæð, við hliðina á bókasafninu.
Fjórði og fimmti bekkur eru í vetur á efstu hæð skólans, næst bókasafni en þar er möguleiki á að opna flekahurðir á milli stofanna og þannig er hægt að nýta rýmið ennþá betur. Meðfylgjandi eru myndir af aðstöðu 4. bekkjar þar sem sést hvernig kennslurýmið lítur út í dag. Einnig fylgir mynd af verkefni nemenda sem sýna hringrás vatns og af hluta bekkjarsáttmála sem börnin hafa sameinast um.
Lesa meira
14.10.2024
Síðasta vikan fyrir vetrarfrí er hafin. Það er margt um að vera í skólanum þessa daga og krakkarnir fá heimsóknir frá ýmsum aðilum.
Í dag eru fulltrúar Samtakanna 78 með fræðslu fyrir 3 árganga, 3., 6. og 9. bekk. Á morgun fer 6. bekkur í Sláturhúsið á leiksýningu um Kjarval og á miðvikudaginn verður kynning á starfsemi Alþingis fyrir 9. og 10. bekk.
Í dag eru kynningarfundir fyrir foreldra/ forsjáraðila en þeir hefjast á stuttri fræðslu í matsal skólans.
Kl. 16. 30 - 17.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 1. - 4. bekk
Kl. 17.30 - 18.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 5. - 7. bekk
Kl. 18.30 - 19.30 mæta foreldrar / forsjáraðilar barna í 8. - 10. bekk
Lesa meira
04.10.2024
Í vikunni var Péturshlaupið sem er minningarhlaup fyrir Pétur Þorvarðarson, sem var nemandi í Egilsstaðaskóla. Hlaupin er ákveðin vegalengd sem nemendur hafa hlaupið í útiíþróttum í haust. Nemendur í 5. - 7. bekk tóku þátt í hlaupinu og úrslitin á miðstigi voru þau að bróðurbörn Péturs, Ísabella Rún og Pétur Logi komu fyrst í mark.
Á elsta stigi kom Andrea Ýr Benediktsdóttir fyrst í mark í stúlknaflokki en tæknileg mistök við framkvæmd hlaupsins urðu til þess að tveir deildu fyrsta sæti í drengjaflokki, þeir Alexander Klausen og Aron Daði Einarsson.
Lesa meira
04.10.2024
Nemendur í 9. bekk voru í Náttúruskólanum á dögunum. Krakkarnir voru á Hallormsstað og áttu stórskemmtilega daga þar sem unnið var með að höggva eldivið og kveikja eld frá grunni, súrra skýli, læra á áttavita og kynnast óbyggðaskyndihjálp, læra smá línuvinnu og byggja DaVinci brýr. Auk þess voru matreiddar kræsingar yfir opnum eldi sem allir gæddu sér á.
Þetta er góð og gagnleg tilbreyting frá hefðbundnu skólastarfi sem krakkarnir og kennararnir kunna mjög vel að meta.
Lesa meira
20.09.2024
Um síðustu áramót varð Egilsstaðaskóli símalaus skóli. Þar með var nemendum ekki heimilt að vera með farsíma í skólanum, hvorki í kennslustundum eða frímínútum. Fyrsta misserið var látið reyna á að krakkarnir geymdu símana í töskum eða yfirhöfnum ef þau komu með símana í skólann. Þetta hefur svo reynst ýmsum erfitt og starfsfólk verður vart við að það fjölgar þeim nemendum sem eru með símana á lofti, sérstaklega í frímínútum.
Þeir nemendur, í 7. - 10. bekk, sem velja að koma með síma í skólann þurfa frá og með mánudeginum 23. september að skila símanum í símabox í upphafi skóladags. Símarnir eru svo afhentir í lok skóladags. Símakassarnir verða geymdir í lokuðum skáp á starfsmannagangi. Ef nemendur þurfa að hringja þá er alltaf hægt að óska eftir að hringja hjá ritara eða fá leyfi hjá kennara til að hringja úr kennslustofum.
Stöðugt fleiri rannsóknir sýna skaðleg áhrif mikillar farsímanotkunar, þá sérstaklega notkun samfélagsmiðla, á líðan barna og ungmenna og sömuleiðis á lestrarfærni. Það skiptir því miklu máli að samstaða sé milli heimila og skóla um að draga úr þeim tíma sem börn nota síma og samfélagsmiðla.
Eins og áður er nemendum í 1. - 6. bekk ekki heimilt að koma með síma í skólann.
Meðfylgjandi eru myndir af símakössunum og þeim skilaboðum sem nemendur fá um símalausan skóla.
Lesa meira
19.09.2024
Það sem af er hausti nemendur 4. bekkjar verið að vinna að samþættu verkefni í íslensku og náttúru- og samfélagsfræði eftir aðferðafræði byrjendalæsis. Þeir hafa nýtt sér góða haustdaga til að bregða sér út fyrir veggi skólans og nýtt sér náttúruna í næsta nágrenni hans til náms og leikja. Í blíðunni í gær lá leiðin upp í Selskóg þar sem m.a. var gengið í þögn og skynfærin nýtt til hins ítrasta til að upplifa umhverfið, birkifræjum safnað, farið í náttúrubingó og leitað að litum haustsins. Krakkarnir nutu sín ágætlega á þessum fallega haustdegi.
Lesa meira
17.09.2024
Í dag er Þorgrímur Þráinsson rithöfundur í heimsókn hjá okkur í Egilsstaðaskóla. Hann byrjaði daginn á því að hitta nemendur í 5. - 7. bekk og ræða við þau um lestur. Hann kallar það erindi Tendrum ljós fyrir lestri. Síðar í dag hittir hann nemendur í 10. bekk og ræðir við þau um að bera ábyrgð á sjálfum sér, sýna samkennd og þrautseigju, koma fallega fram, gera góðverk, sinna litlu hlutunum daglega og setja sér markmið.
Þorgrímur hefur farið um landið og spjallað við krakka í mörg ár og það alltaf tilhlökkunarefni að fá hann í heimsókn.
Lesa meira
06.09.2024
Árlegur göngudagur Egilsstaðaskóla heppnaðist með ágætum. Starfsfólk og nemendur héldu af stað í ljómandi veðri á áfangastaði vítt og breitt á Fljótsdalshéraði. Ferðalangarnir tíndu í sig ber og syntu þar sem því varð við komið. Allir komu heilir heim en sumir skítugri en aðrir. Meðfylgjandi eru svipmyndir frá ferðum nokkurra árganga.
Lesa meira