Fréttir

Skólabyrjun

“Kæri vinur, heyrirðu ekki að haustið er að kalla.”
Lesa meira

Sumarlokun skrifstofu og upphaf næsta skólaárs

Skrifstofa skólans er lokuð frá og með miðvikudeginum 23. júní og opnar aftur mánudaginn 9. ágúst. Skólasetning næsta skólaárs er þriðjudaginn 24. ágúst skv. skóladagatali. Minnt er á skráningu í Frístund fyrir haustönn 2021. Skráningarfrestur fyrir haustönn er 10. ágúst nk. Skráning í Frístund fer fram í gegnum heimasíðu skólans undir Frístund eða með því að smella hér. Um leið og við sendum ykkur okkar bestu óskir um gott og gefandi sumarfrí eru upplýsingar um umsjónarkennara næsta skólaárs.
Lesa meira

Góðverk

Á vormánuðum hafa nemendur í textílmennt mátt vinna aukaverkefni í tímum sem heitir Sjúkrabílabangsar. Nemendur sníða og sauma bangsa eftir ákveðnu sniði en útfærslan á litum og skreytingum er algjörlega þeirra. Oft voru fleiri en einn sem unnu að hverjum bangsa. Bangsarnir fóru síðan á heilsugaæsluna á Egilsstöðum þar sem Aðalsteinn Aðaðslteinsson vaktmaður á sjúkrabíl tók við þeim. Þessir bangsar eiga síðan eftir að hughreista unga sjúklínga sem þurfa að nýta sér þjónustu sjúkrabílsins. Það er ánægjulegt fyrir nemendur að geta unnið að verkefnum í skólanum sem gera gott fyrir samfélagið okkar og verður þessu verkefni haldið áfram í textílstofunni.
Lesa meira

Magnús Gunnar í úrslit Pangeu.

Á nýliðnu skólaári tóku átta nemendur úr 8. bekk og tuttugu úr 9. bekk Egilsstaðaskóla þátt í stærðfræði keppni Pangeu sem haldin er í yfir 20 löndum Evrópu en Ísland var fyrst meðal þátttakenda árið 2016. Á heimasíðu Pangeu kemur fram að það eru sjálfboðaliðar úr félagi Horizon ásamt raungreina- og verkfræðinemum sem sjá um vinnu og skipulagningu keppninnar og er það unnið í sjálfboðavinnu. Keppnin er til þess að vekja áhuga nemenda á stærðfræði og hvetja til dáða á sviðinu. Einn nemandi Egilsstaðaskóla komst í úrslit Magnús Gunnar Sigurhansson. Í venjulegu árferði hefði honum staðið til boða að fara til Reykjavíkur og taka þátt í úrslitakeppninni þar en vegna Covid-19 varð hann að láta sér bókasafn skólans nægja. Hann lenti í 14. sæti af þeim 60 nemendum 8. bekkjar sem komust í úrslit. Við óskum Magnúsi innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og þökkum öllum sem tóku þátt að þessu sinni.
Lesa meira

Harpa kveður Egilsstaðaskóla

Í vor mun Harpa Höskuldsdóttir láta af störfum við skólann eftir 40 ára starf. Það eru tímamót bæði fyrir Hörpu og skólann sem fylgst hafa að svo lengi. Harpa hóf störf sem umsjónarkennari við skólann en lærði síðan sérkennslufræði og hefur bæði starfað við sérkennslu og nú um langa hríð sem deildarstjóri sérkennslu. Harpa var legni deildarstjóri á yngsta stigi m.a. þegar kennsla yngstu nemenda fór fram í Barnaskólanum á Eiðum. Hún var jafnframt deildarstjóri á Hallormsstað, þann tíma sem Hallormsstaðaskóli starfaði sem deild úr Egilsstaðskóla. Harpa hefur verið í faglegri forystu í skólanum varðandi sérkennslu, skóla án aðgreiningar og þjónustu við nemendum með sérþarfir. Hún fylgist náið með faglegri umræðu og beitir sér fyrir því að skólinn innleiði nýjar leiðir við að virkja og styðja nemendur. Við eigum eftir að sakna hennar og hennar traustu fagþekkingar í Egilsstaðskóla, en í huga okkar er fyrst og fremst þakklæti til Hörpu fyrir það örlæti og alúð sem hún hefur sýnt í starfi sínu og að skólasamfélagið hefur fengið að njóta starfskrafta hennar. Samstarfsfólk í Egilsstaðskóla þakkar Hörpu hjartanlega fyrir hennar framlag til skólastarfsins og við óskum henni og fjölskyldu hennar heilsu og hamingju í framtíðinni.
Lesa meira

Skrifstofa Egilsstaðaskóla lokar klukkan 12:30 í dag 4. júní

Skrifstofa Egilsstaðaskóla lokar klukkan 12:30 í dag, föstudaginn 4. júní, vegna starfsmannaferðar.
Lesa meira

Fjöruferð

Undanfarna daga hefur 3. bekkur verið að vinna með hafið og kynntust krakkarnir helstu fiskitegundum. Nokkrar tegundir voru svo teknar fyrir sérstaklega og unnið nánar með þær. Í tengslum við þessa vinnu fórum við í ferðalag niður á Fáskrúðsfjörð. Fáskrúðsfjörður tók vel á móti okkur og byrjuðum við á því að skoða fjöruna. Þar var ýmislegt að sjá og meira að segja kom selur og kíkti á okkur. Eftir fjöruskoðun lá leið okkar á franska safnið og fengum við leiðsögn þar um. Ýmislegt áhugavert sem við heyrðum og sáum þar og mælum við sannarlega með ferð þangað. Að lokum fundum við okkur leiksvæði til að fá okkur hádegis nesti og leika okkur áður en haldið var heim, sæl og glöð eftir góðan dag. Einnig höfum við unnið með hvali og í þeirri vinnu voru gerðar mælingar á skólalóðinni. Við komumst m.a. að því að ekki er pláss fyrir fullvaxna steypireyði í miðgarðinum okkar.
Lesa meira

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk

Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk 2020 –2021 lauk formlega á norðursvæði Austurlands þann 17. mars sl. með upplestrarhátíð í golfskálanum Ekkjufelli í Fellum. Þar komu saman fulltrúar frá Egilsstaðaskóla, Fellaskóla, Brúarásskóla, Vopnafjarðarskóla og Seyðisfjarðarskóla. Í ár var keppnin haldin í 25. sinn og að þessu sinni voru lesnir valdir kaflar úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Auk þess fluttu þátttakendur ljóð að eigin vali. Að vanda reyndist ekki auðvelt að velja sigurvegarana þar sem allir keppendur stóðu sig með miklum ágætum. Stóra upplestrarkeppnin í sjöunda bekk hefur, undanfarinn aldarfjórðung, hafist ár hvert á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og lokið í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Egilsstaðaskóli átti fimm fulltrúa á lokahátíðinni og er ánægjulegt að segja frá því að Harpa Sif Þórhallsdóttir hlaut 2. sæti í keppninni.
Lesa meira

Útivistardagur í 5.-7. bekk

Þann 23. mars síðastliðinn var útivistardagur í 5. – 7. bekk . Nemendum stóð til boða tveir valkostir sem þeir þurftu að velja fyrirfram. Annað var gönguferð í Taglarétt með Þórdísi Kristvinsdóttur, leiðsögumanni. Hópur 35 nemenda gekk sem leið lá að Miðhúsum og þaðan í Taglarétt. Gamla réttin var skoðuð og nesti borðað. Staldrað við hjá Klofasteini og athugað með kökur sem hefð er fyrir að álfkonan sem þar býr bjóði upp á fyrir duglegt göngufólk á göngudaginn í 2. bekk. Því miður átti álfkonan ekki von á gestum þennan dag og því engar kökur í boði fyrir vonsvikna göngugarpa. Að lokinni göngu var látið líða úr sér í sundlauginni á Egilsstöðum. Á sama tíma fóru rúmlega 70 nemendur með rútu frá Egilsstaðaskóla í Stafdal. Sumir alvanir brekkunum á meðan aðrir stigu í fyrsta skipti á skíði eða snjóbretti. Skíðakennari var á staðnum til að leiðbeina nýliðum. Það var gaman að sjá hvað nemendur voru tilbúnir að láta vaða og standa alltaf upp aftur eftir ítrekuð föll. Seiglan! Veðrið var eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Datt í dúnalogn, fljótlega eftir að lagt var af stað og nokkrir sólargeislar náðu í gegnum skýin á tímabili. Heilt yfir frábær dagur hjá okkar fólki. Ánægjan skein úr andlitum nemenda og greinilega kærkomið að fara aðeins út úr skólanum og stunda nám af öðrum toga en gengur og gerist hversdags.
Lesa meira