24.05.2024
Á hverju vori fer 3. bekkur í fjöruferð. Fyrir landkrabba á Héraði er mjög spennandi að komast í fjöru og uppgötva lífríkið þar. Hópurinn byrjaði á að skoða Náttúruminjasafnið í Neskaupstað og þar heyrðist oft "VÁ!" enda margt fallegt að sjá. Síðan var farið í fjöruna þar sem sumir óðu út í sjó á meðan aðrir skoðuðu það sem finna mátti í fjörunni. Að lokum fór hópurinn út að vitanum, borðaði hádegisnestið og þangað kom starfsmaður Náttúrustofu Austurlands með fræðslu, m.a. um fæðukeðju hafsins og fjöllin í firðinum. Það var þoka í byrjun dags en svo létti til og Norðfjörðurinn skartaði sínu fegursta.
Lesa meira
22.05.2024
Á hverju vori fer 5. bekkur Fljótsdalshringinn og kynnir sér starfsemi stofnana í Fljótsdal. Á ferð sinni um dalinn í vikunni skoðuðu krakkarnir Fljótsdalsstöð og fengu fræðslu um Fljótsdalsvirkjun. Þau fóru inn í fjallið og skoðuðu stöðvarhúsið. Á Skriðuklaustri skoðuðu þau húsið og fengu að prófa sýndarveruleika. Í Snæfellsstofu var starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs kynnt fyrir krökkunum og þau skoðuðu sýningu sem er í gestastofunni. Það var vel tekið á móti krökkunum og starfsfólki skólans á öllum stöðum og við þökkum kærlega fyrir okkur.
Lesa meira
10.05.2024
Í dag komu saman nemendur úr öllum skólum Múlaþings á Héraðsleika fyrir 1. - 7. bekk og Forvarnadag fyrir 8. - 10. bekk. Héraðsleikarnir fóru fram í Brúarási, Fellaskóla og í Egilsstaðaskóla þar sem voru smiðjur með ýmsum verkefnum.
Forvarnadagurinn var skipulagður af starfsfólki sveitarfélagsins sem starfar í frístunda- og forvarnamálum. Krakkarnir í 8. - 10. bekk hlýddu á fyrirlestur hjá Pálmari Ragnarssyni en hann hefur haldið fjölda fyrirlestra um jákvæð samskipti og góða félaga. Krakkarnir tóku þátt í smiðjum og fóru á hraðstefnumót við jafnaldra. Lögreglan kom á staðinn og ræddi við krakkana um sakhæfi, stafrænt ofbeldi og hatursorðræðu. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna voru með fræðslu um hvað forvarnir snúast og svo var farið í skemmtilega leiki. Í hádeginu fengu allir grillaðar pylsur og sem betur fer hélst þurrt.
Lesa meira
03.05.2024
Krakkarnir í 1. - 4. bekk unnu ýmis verkefni og þrautir í dag á útivistardeginum sínum. Fjölbreyttar stöðvar voru settar upp í samvinnu við Náttúruskólann í næsta umhverfi skólans. Á stöðvunum var t.d. tálgað og svo skreyttir töfrasprotar, vatnslitað, farið í kubb og æfðir hnútar. Uppi í skólarjóðrinu voru steiktar lummur og poppað yfir eldi. Í Tjarnargarðinum æfðu krakkarnir frisbee-golf og tóku einnig þátt í víkingaleikjum sem var unnið í samstarfi við Minjasafn Austurlands. Á einni stöð var farið á hestbak og á annarri stöð var Hildur Bergsdóttir mætt með býflugurnar sínar, sem voru enn í vetrardvala. Auk þess skoðuðu krakkarnir ýmis undur náttúrunnar í víðsjám og með stækkunargler. Það voru glaðir krakkar sem komu inn í hádegismat að dagskránni lokinni.
Lesa meira
29.04.2024
Í liðinni viku fóru um 50 starfsmenn Egilsstaðaskóla til Skotlands í fræðsluferð. Markmið ferðarinnar var að kynnast áherslum í skoskum grunnskólum og heyra af verkefnum sem verið er að vinna að. Starfsfólk Seyðisfjarðarskóla var einnig með í ferðinni.
Á sumardaginn fyrsta sat starfsfólkið fyrirlestra frá nokkrum aðilum. M.a. var kynnt stefna sem skosk menntayfirvöld hafa innleitt og kallast GIRFEC (Getting it right for every child). Stefnan gengur út á að styðja við börnin á fjölþættan hátt með áherslu á velferð þeirra. Af sama meiði er verkefnið Nurture sem íslensk menntayfirvöld hafa verið að kynna fyrir skólafólki á Íslandi. Eftir hádegi var fyrirlestur um hvernig nýta má LEGO í kennslu og þátttakendur unnu nokkur skemmtileg verkefni i tengslum við það.
Íþróttakennarar sóttu sérstakt námskeið í íþrótt sem kallast padlet auk annarrar fræðslu.
Á föstudeginum var farið í skólaheimsókn í grunnskólann í Alloa í Clackmannanshire. Þar var kynning á verkefnum sem skólinn vinnur með og nemendur kynntu verkefni sem þau eru að vinna í ritun.
Það er áhugavert að sjá skólastarf í öðrum löndum; margt er svipað og hjá okkur og áherslan á að styðja við börnin til að þau geti nýtt styrkleika og hæfileika sem best. Við fengum margar hugmyndir og sáum spennandi hluti sem við gætum nýtt okkur í starfinu.
Starfsmannahópurinn naut þess að vera saman og við komum heim reynslunni ríkari.
Lesa meira
19.04.2024
Stríðsárin eru til umfjöllunar í samfélagsfræði í 9. bekk. Fjallað er um fyrri og seinni heimsstyrjöldina og áhrif styrjaldanna á Ísland. Allir vinna lokaverkefni þar sem viðfangsefnið er tengt stríðsárunum á einhvern hátt. Foreldrum og forsjáraðilum var boðið að koma og sjá afrakstur vinnunnar á þemadögum. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og víða leitað fanga. Þar mátti m.a. sjá líkön, vopn, myndbandskynningar, plaköt og myndverk. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af kynningunni.
Lesa meira
19.04.2024
Miðvikudaginn 24. apríl er skóladagur skertur hjá nemendum.
Nemendur í 1. - 4. bekk ljúka skóladegi að loknum hádegismat kl. 12.00. Frístund er opin en sérstök skráning fyrir þennan dag. Skráningunni lýkur 22. apríl.
Nemendur í 5. - 7. bekk eru í skólanum til 11.20.
Nemendur í 8. - 10. bekk eru í skólanum til 11.10.
Skólabílar fara klukkan 12.00.
Fimmtudaginn 25. apríl er sumardagurinn fyrsti og frí í skólanum.
Föstudaginn 26. apríl er starfsdagur hjá kennurum. Frístund er lokuð.
Lesa meira
18.04.2024
Skólastarfið síðastliðna tvo daga hefur verið með óhefðbundnum hætti. Nemendur unnu að margvíslegum verkefnum, í hópum og á stöðvum, inni og úti. Meðal viðfangsefnanna voru skjaldarmerki Íslands, heimabyggðin, stríðsárin, vinabandagerð, stuttmyndagerð, útivist og hreyfing. Í 8. bekk bjuggu krakkarnir til spil og krakkarnir í 7. bekk kynntu sér þjóðsögur sem þau gerðu svo stuttmyndir uppúr.
Í gær var einnig úrtökukeppni fyrir Skólahreysti til að velja þátttakendur í liðið sem fer og keppir í Skólahreysti á Akureyri 30. apríl nk.
Í dag var opið hús og fjöldi gesta heimsótti okkur. Sveitarstjórn var boðið að koma og kynna sér tillögur nemenda í 10. bekk um hvernig þau myndu skipuleggja svæði í sveitarfélaginu. Einnig kynntu nemendur í 9. bekk verkefni um stríðsárin sem þau hafa unnið að í samfélagsfræði undanfarnar vikur. Fleiri myndir af stríðsáraverkefnum og heimabyggðarverkefnum birtast á heimasíðunni á næstu dögum.
Lesa meira
12.04.2024
Hluti af námi nemenda er sett upp sem val. Eftir því sem krakkarnir verða eldri eykst vægi vals og er því mest á unglingastigi. Vali á unglingastigi er skipt í fjögur tímabil yfir veturinn og nemendur velja hvaða námskeið eða viðfangsefni þau hafa mestan áhuga á. Það sem hefur verið í vali þetta skólaár er m.a. leirmótun, skák, framandi matreiðsla og bakstur, forritun, teikning og málun. Einnig hafa verið námskeið þar sem nemendur gerðu sér prógram í ræktina og unnu eftir, enski boltinn og námskeið þar sem var fjallað um raunveruleikaþætti og nú síðast er námskeið þar sem er pælt í körfubolta ásamt því að spila þegar veður leyfir.
Nýta má hluta af vali nemenda á unglingastigi sem svokallað utanskólaval en þá fá nemendur metið tómstundastarf utan skóla. Nemendaráð og Leiðtogaráð voru hluti af vali á þessu skólaári og það hefur gefist vel.
Hluti af námi nemenda er sett upp sem val. Eftir því sem krakkarnir verða eldri eykst vægi vals og er því mest á unglingastigi. Vali á unglingastigi er skipt í fjögur tímabil yfir veturinn og nemendur velja hvaða námskeið eða viðfangsefni þau hafa mestan áhuga á. Það sem hefur verið í vali þetta skólaár er m.a. leirmótun, skák, framandi matreiðsla og bakstur, forritun, teikning og málun. Einnig hafa verið námskeið þar sem nemendur gerðu sér prógram í ræktina og unnu eftir, enski boltinn og námskeið þar sem var fjallað um raunveruleikaþætti og nú síðast er námskeið þar sem er pælt í körfubolta ásamt því að spila þegar veður leyfir.
Nýta má hluta af vali nemenda á unglingastigi sem svokallað utanskólaval en þá fá nemendur metið tómstundastarf utan skóla. Nemendaráð og Leiðtogaráð voru hluti af vali á þessu skólaári og það hefur gefist vel.
Meðfylgjandi myndir eru frá gærdeginum og sýna nemendur vinna að ýmsum verkefnum í valinu.
Lesa meira
22.03.2024
Egilsstaðaskóli hefur í vetur verið þátttakandi í verkefninu Eldur, ís og mjúkur mosi sem er samstarfsverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs, Náttúrminjasafns Íslands, listafólks og skóla. Verkefnið fékk styrk úr Barnamenningarsjóði í fyrravor og í vetur hafa krakkarnir í 3ja bekk unnið fjölbreytt verkefni tengd listsköpun, náttúruvernd og Vatnajökulsþjóðgarði undir leiðsögn Írisar Lindar Sævarsdóttur listakonu auk umsjónarkennara árgangsins.
Krakkarnir lásu söguna Ástarsaga úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur og unnu svo sérstaklega með hlutann þegar Flumbra fer að hitta kærastann sinn. Það leiddi þau til þess að skoða leiðir og staði í þjóðgarðinum og fjölbreytta náttúruna sem þar er að finna.
Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður hitti krakkana og ræddi við þau um þjóðgarðinn. Þau bjuggu til sín eigin tröll og Íris Lind aðstoðaði svo við að vinna myndverk með umhverfi fyrir tröllin. Krakkarnir skrifuðu líka stuttar sögur og bjuggu til myndband í Stop-motion sem þau töluðu inn á eða settu texta.
Að auki lærðu krakkarnir ljóðið Vont og gott eftir Þórarin Eldjárn, skrifuðu það upp og myndskreyttu.
Foreldrum og aðstandendum var boðið á sýningu þar sem afrakstur verkefnisins var til sýnis og krakkarnir buðu líka upp á veitingar.
Það er ekki ólíklegt að umhverfið í þjóðgarðinum hafi með þessu verkefni fengið aðra og meiri merkingu fyrir krakkana í 3ja bekk því nú þekkja þau ýmis kennileiti og hver veit nema tröllin þeirra leynist einhversstaðar bak við hæð!
Lesa meira