Í vor var ákveðið að tveir skóladagar þessa skólaárs yrðu helgaðir því að styrkja hópa og efla tengsl milli nemenda og milli nemenda og starfsfólks. Í dag er fyrri umsjónardagurinn og um allt hús eru börn í samvinnuleikjum og verkefnum sem styrkja hópana.
Leitað var í Verkfærakistu Vöndu Sigurgeirsdóttur / KVAN en allt starfsfólk sat námskeið með Vöndu í haust þar sem árgangateymi undirbjuggu m.a. umsjónardaginn. Það er mikill lærdómur í því að takast á við verkefni í sameiningu og leita lausna. Það reynir á krakkana að skipta verkefnum á milli sín og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er færni sem allir þurfa að þjálfa til að taka þátt í samfélaginu okkar.
Í tilefni af gulum september og degi geðræktar voru margir mættir í gulum fötum og það var því bjart yfir að líta í skólanum í dag.