Fréttir

Vinaliðar

Egilsstaðaskóli er þátttakandi í verkefni sem kennt er við Vinaliða, en að þessu sinni eru 41 barn í skólanum sem sinnir hlutverkinu. Um er að ræða verkefni sem stuðlar að forvörnum gegn einelti á skólalóðinni. Aðalmarkmið verkefnisins er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum fyrir hádegi. Nemendur í 4. til 7. bekk ásamt umsjónarkennurum velja einstaklinga úr bekkjunum sem fá hlutverk vinaliða en þeir hafa umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og ganga frá eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki Vinaliða starfar í u.þ.b 3 mánuði í senn. Hver vinaliði vinnur að verkefninu í frímínútunum fyrir hádegi einu sinni í viku. Hann mætir einnig á fundi, aðra hverja viku, þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að Vinaliði geti ekki verið valinn aftur, bekkjarfélagar tilnefna þá nemendur sem þeim finnst passa í starfið hverju sinni. Við val á Vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýna öðrum nemendum virðingu. Í lok hvers tímabils er vinaliðunum boðið upp á þakkarferð þar sem reynt er að gera sér góðan dag. Það sem meðal annars hefur gert til að þakka nemendum fyrir vel unnin störf er bíó og sundferð á Seyðisfjörð, ratleikur í Hallormsstaðaskógi, hjóla – og leikjaferð á Egilsstöðum, skíðadagur í Stafdal, baðferð í Vök svo eitthvað sé nefnt. Þá enda allar þakkarferðir á máltíð, oftast pizzaveislu. Þar að auki fá vinaliðarnir afsláttarkort þar sem þau geta nýtt sér góða afslætti, bæði innan sveitarfélagsins og utan. Undanfarin 2 ár hafa nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu verið svo góð að styðja við verkefnið með því að gefa krökkunum afslátt og færum við þeim bestu þakkir fyrir það. Verkefnastjórar vinaliðaverkefnisins í Egilsstaðaskóla skólaárið 2020 til 2021 eru Fjóla Hrafnkelsdóttir og Thelma Snorradóttir.
Lesa meira

Lilla hættir

Guðbjörg Friðriksdóttir, lét af störfum í dag eftir tæplega 32 ára starf sem skólaliði í Egilsstaðaskóla. Það hefur verið gæfa fyrir skólann, nemendur og starfsmenn að fá að vera samferða Lillu þennan tíma og skarð hennar verður ekki auðfyllt. Við óskum Lillu gæfu og góðrar heilsu á komandi árum með kæru þakklæti fyrir hennar starf í þágu okkar allra.
Lesa meira

Rafmagn í 7. bekk

Undanfarna daga hafa nemendur í 7. bekk unnið verkefni í tengslum við rafmagn. Þau hafa lært að stöðurafmagn er allt í kringum okkur í öllum hlutum. Venjulega eru jafnmargar róteindir og rafeindir í hlutum en við núning tveggja hluta getur það breyst og þá færast rafeindir af öðrum hlutum yfir á hinn. Ef hlutur fær í sig mikið af rafeindum úr öðrum hlutum er hann hlaðinn stöðurafmagni. Nemendur gerðu tilraun með því að strjúka uppblásinni blöðru hratt fram og aftur eftir hári sínu og létu hana svo loða við vegg í stutta stund. Eftir það stóð hárið út í loftið og var svolitla stund að jafna sig. Hvort tveggja, blaðran og hárið, fengu þá í sig rafhleðslu og hægt að segja að myndast hafi stöðurafmagn. Rafrásir byggjast á tveimur meginþáttum. Leiðara, sem straumurinn fer eftir og straumgjafa, eins og rafhlöðu. Til að nota rafstrauminn þarf að tengja tæki inn í rafrásina. Til dæmis þegar kveikt er á vasaljósi er ljósaperan tengd við straumgjafann (rafhlöðuna) og myndar rafrás í vasaljósinu. Með því að slökkva á rofanum er rafrásin rofin og það slokknar á ljósinu og ef kveikt er á rofanum lokast rafrásin og þá kviknar ljósið. Nemendur gerðu ýmsar verklegar æfingar þessu tengt eins og að tengja viftu við rafhlöðu og tengja rofa á milli til að slökkva og kveikja. Það er ekki ólíklegt að rafvirkjar framtíðarinnar séu hér að stíga sín fyrstu skref á framabrautinni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessu skemmtilega verkefni í sjöunda bekk.
Lesa meira

Vitund um velferð

Í skólanum í vetur hefur farið fram velferðarkennsla sem leggur rækt við að efla vitund nemenda um eigin velferð og hugarfar. Kennslan byggist á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði sem beinist að því að auka velsæld, efla bjartsýni og trú á eigin getu. Unnið er út frá því sjónarmiði að hamingja snúist ekki endilega um að vera alltaf ánægð og líða vel heldur að bregðast við erfiðleikum sem upp geta komið í lífinu á farsælan hátt. Þeir þættir sem unnið er með að þessu sinni eru tilfinningar og mikilvægi þeirra allra, áhrif hugsana á líðan, nemendur læra að greina styrkleika sína og annarra og hvernig áhrif hugarfars nýtist þeim til að blómstra. Einnig er heilastarfsemin skoðuð með tilliti til tilfinninga og þess að læra nýja hluti. Rannsóknir Carol Dweck hafa sýnt fram á að þegar nemendur læra um heilastarfsemina ná þeir betur að átta sig á eigin viðbrögðum og sjá frekar tilgang með námi sínu. Einnig er áhersla á mikilvægi slökunar. Elsta stigið mun hefja sitt velferðarnám í næstu viku þar sem sérstök áhersla verður á samkennd í eigin garð. Meðfylgjandi myndband er viðtal við börn í 2. bekk í fyrra sem höfðu lokið 2 vikna þemadögum um hamingjuna.
Lesa meira

Skólastarf á nýju ári

Gleðileg jól og kærar þakkir fyrir samvinnu á árinu sem er að líða. Megi nýja árið verða okkur farsælt. Þann 21. desember var birt reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem tekur gildi 1. janúar nk. og gildir til 28.febrúar. Samkvæmt henni er nú leyfilegt að blanda hópum og jafnframt leyfilegt að fara yfir 50 nemenda fjöldamörk í matsal og göngum að því tilskyldu að starfsmenn séu með grímur. Á grunni þessarar nýju reglugerðar stefnum við því að hefðbundnu skólastarfi eftir áramótin með fullan skóladag fyrir alla nemendahópa. Jafnframt geta nú allir nemendur snætt hádegisverð í mötuneyti. Frístund mun einnig starfa hefðbundið að morgni og síðdegis. Skólinn verður áfram lokaður gestum, nema með leyfi og í samráði við skólastjóra, og grímuskylda verður áfram fyrir gesti. Reglugerðina er að finna hér: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=82943967-43ae-11eb-812c-005056bc8c60 Sá fyrirvari er á þessum áformum að ef faraldurinn færist í aukana á ný og settar verða nýjar reglur um takmarkanir mun þurfa að aðlaga skólastarfið að því, en það mun þá verða tilkynnt foreldrum þann 4.janúar. Fyrsti skóladagur nemenda er þriðjudagurinn 5. janúar.
Lesa meira

Jólafrí - jólakveðja

,,Þetta er ekki árið sem þú færð allt sem þú vilt. Þetta er árið sem þú kannt að meta allt sem þú hefur“ 2020 hefur sannarlega verið öðruvísi ár. Við höfum öll þurft að aðlagast breyttum veruleika og tileinka okkur nýja siði og venjur. Jákvæðni og seigla starfsmanna og nemenda hafa skilað því að breytingar og takmarkanir á skólastarfi hafa gengið mjög vel fyrir sig. Eldri nemendur hafa nýtt takmarkaðan tíma í skólanum vel til náms og tekist hefur að halda úti fullum skóladegi hjá yngstu nemendunum. Í dag fara nemendur og starfsmenn í jólaleyfi. Skólahald hefst aftur að loknu jólaleyfi, þann 5. janúar. Enn er óljóst með hvaða hætti skólastarfið verður á nýju ári en upplýsingar um það verða sendar foreldrum í tölvupósti 4. janúar. Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Meðfylgjandi eru myndir af jólaballi á yngsta stigi sem haldið var með óhefðbundnu sniði í dag.
Lesa meira

Eldstöðvakerfi á Íslandi

Síðastliðnar vikur hafa nemendur í 9. bekk unnið að verkefni um eldstöðvakerfi á Íslandi. Hver og einn safnaði upplýsingum um eitt eldstöðvakerfi og skilaði svo verkefninu því formi sem þeir völdu. Margar útfærslur komu fram og er gaman að sjá hve fjölbreytt verkefni nemendanna eru.
Lesa meira

Jólaþema í list- og verkgreinum

Nú fyrir jólin hafa nemendur í 5. bekk unnið ýmis jólaverkefni í list- og verkgreinum. Í myndmennt skoðuðu þeir hvernig listamenn hafa búið til steinda glugga í gegnum tíðina. Þeir finnast aðallega í kirkjum og menningarstofnunum víða um heiminn. Nemendur unnu síðan eigin mynd í karton og silkipappír sem var svo plöstuð. Hér er afraksturinn sem mun sóma sér vel í gluggunum heima.
Lesa meira

Lagarfljótsormurinn kominn út í 51.sinn

Lagarfljótsormurinn, skólablað Egilsstaðskóla, er kominn út í 51. sinn. Það tölublað sem nú lítur dagsins ljós átti með réttu að koma út í maí sl. en vegna heimsfaraldurs hefur útgáfa frestast þar til nú. Markmiðið er ávalt að allir nemendur skólans leggi af mörkum efni í blaðið og hafa skapast ýmsar hefðir í því sambandi. Blaðið er um 60 síður. Ritstjóri Lagarfljótsormsins er Sigfús Guttormsson.
Lesa meira

Okkar eigin velferð

Í Egilsstaðaskóla er mikið lagt upp úr því að öllum geti liðið vel í leik og starfi. Í vetur fá nemendur velferðarkennslu þar sem unnið er út frá hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði um okkar eigin velferð og hugarfar. Þroskaþjálfi og sérkennari vinna svo að því að kafa dýpra í allt þetta flókna, félagslega samspil með annarskonar félagsfærnikennslu. Sú félagsfærni er kennd einstaklingslega, í litlum hópum og einnig á bekkjarvís eins og gert er með ART í 2.bekk. Í þessari kennslu er lögð áhersla á félagsfærni, tilfinningastjórnun og siðferði. Undirstaðan er sú að öll höfum við hugsanir og tilfinningar sem við lærum smám saman að þekkja og stjórna. Kennt er hvað það þýðir að vera hluti af hópi, hvernig við getum lesið í umhverfið og dregið ályktanir um hvaða hegðun er viðeigandi og/eða óviðeigandi hverju sinni. Kennslan er fjölbreytt, síbreytileg og lausnamiðuð. Í grunninn er áhersla lögð á spjall, hlutverkaleiki og spil en barnabækur, myndbrot, sjónvarpsefni og hinar ýmsu heimasíður spila líka mikilvægt hlutverk í kennslunni. Á meðan barnabækur og bútar úr teiknimyndum eru kjörin til kennslunnar á yngsta stigi þá henta myndbrot, auglýsingar og fyrirmyndir úr sjónvarpsþáttum/kvikmyndum ef til vill betur fyrir nemendur á eldri stigum. Allt nám í félagsfærni er einstaklingsmiðað. Það er því mikilvægt að samvinna við foreldra og heimilin sé góð. Hvað hugmyndafræði varðar má nefna ART-þjálfun, Félagslega hugsun (Social Thinking) og CAT-kassann. Allt þetta, ásamt fleiru, er tvinnað við það sem verið er að fást við hverju sinni. Að lokum er hér meðfylgjandi ein af þeim heimasíðum sem gæti nýst foreldrum vel: https://sterkariutilifid.is/
Lesa meira