Fréttir

Stutt vika 14. - 16. október en margt í gangi

Síðasta vikan fyrir vetrarfrí er hafin. Það er margt um að vera í skólanum þessa daga og krakkarnir fá heimsóknir frá ýmsum aðilum. Í dag eru fulltrúar Samtakanna 78 með fræðslu fyrir 3 árganga, 3., 6. og 9. bekk. Á morgun fer 6. bekkur í Sláturhúsið á leiksýningu um Kjarval og á miðvikudaginn verður kynning á starfsemi Alþingis fyrir 9. og 10. bekk. Í dag eru kynningarfundir fyrir foreldra/ forsjáraðila en þeir hefjast á stuttri fræðslu í matsal skólans. Kl. 16. 30 - 17.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 1. - 4. bekk Kl. 17.30 - 18.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 5. - 7. bekk Kl. 18.30 - 19.30 mæta foreldrar / forsjáraðilar barna í 8. - 10. bekk
Lesa meira

Péturshlaup

Í vikunni var Péturshlaupið sem er minningarhlaup fyrir Pétur Þorvarðarson, sem var nemandi í Egilsstaðaskóla. Hlaupin er ákveðin vegalengd sem nemendur hafa hlaupið í útiíþróttum í haust. Nemendur í 5. - 7. bekk tóku þátt í hlaupinu og úrslitin á miðstigi voru þau að bróðurbörn Péturs, Ísabella Rún og Pétur Logi komu fyrst í mark. Á elsta stigi kom Andrea Ýr Benediktsdóttir fyrst í mark í stúlknaflokki en tæknileg mistök við framkvæmd hlaupsins urðu til þess að tveir deildu fyrsta sæti í drengjaflokki, þeir Alexander Klausen og Aron Daði Einarsson.
Lesa meira

Leikið í skóginum

Nemendur í 9. bekk voru í Náttúruskólanum á dögunum. Krakkarnir voru á Hallormsstað og áttu stórskemmtilega daga þar sem unnið var með að höggva eldivið og kveikja eld frá grunni, súrra skýli, læra á áttavita og kynnast óbyggðaskyndihjálp, læra smá línuvinnu og byggja DaVinci brýr. Auk þess voru matreiddar kræsingar yfir opnum eldi sem allir gæddu sér á. Þetta er góð og gagnleg tilbreyting frá hefðbundnu skólastarfi sem krakkarnir og kennararnir kunna mjög vel að meta.
Lesa meira

Skóli án síma gefur gæðatíma

Um síðustu áramót varð Egilsstaðaskóli símalaus skóli. Þar með var nemendum ekki heimilt að vera með farsíma í skólanum, hvorki í kennslustundum eða frímínútum. Fyrsta misserið var látið reyna á að krakkarnir geymdu símana í töskum eða yfirhöfnum ef þau komu með símana í skólann. Þetta hefur svo reynst ýmsum erfitt og starfsfólk verður vart við að það fjölgar þeim nemendum sem eru með símana á lofti, sérstaklega í frímínútum. Þeir nemendur, í 7. - 10. bekk, sem velja að koma með síma í skólann þurfa frá og með mánudeginum 23. september að skila símanum í símabox í upphafi skóladags. Símarnir eru svo afhentir í lok skóladags. Símakassarnir verða geymdir í lokuðum skáp á starfsmannagangi. Ef nemendur þurfa að hringja þá er alltaf hægt að óska eftir að hringja hjá ritara eða fá leyfi hjá kennara til að hringja úr kennslustofum. Stöðugt fleiri rannsóknir sýna skaðleg áhrif mikillar farsímanotkunar, þá sérstaklega notkun samfélagsmiðla, á líðan barna og ungmenna og sömuleiðis á lestrarfærni. Það skiptir því miklu máli að samstaða sé milli heimila og skóla um að draga úr þeim tíma sem börn nota síma og samfélagsmiðla. Eins og áður er nemendum í 1. - 6. bekk ekki heimilt að koma með síma í skólann. Meðfylgjandi eru myndir af símakössunum og þeim skilaboðum sem nemendur fá um símalausan skóla.
Lesa meira

Haustið í 4. bekk

Það sem af er hausti nemendur 4. bekkjar verið að vinna að samþættu verkefni í íslensku og náttúru- og samfélagsfræði eftir aðferðafræði byrjendalæsis. Þeir hafa nýtt sér góða haustdaga til að bregða sér út fyrir veggi skólans og nýtt sér náttúruna í næsta nágrenni hans til náms og leikja. Í blíðunni í gær lá leiðin upp í Selskóg þar sem m.a. var gengið í þögn og skynfærin nýtt til hins ítrasta til að upplifa umhverfið, birkifræjum safnað, farið í náttúrubingó og leitað að litum haustsins. Krakkarnir nutu sín ágætlega á þessum fallega haustdegi.
Lesa meira

Þorgrímur Þráinsson í heimsókn

Í dag er Þorgrímur Þráinsson rithöfundur í heimsókn hjá okkur í Egilsstaðaskóla. Hann byrjaði daginn á því að hitta nemendur í 5. - 7. bekk og ræða við þau um lestur. Hann kallar það erindi Tendrum ljós fyrir lestri. Síðar í dag hittir hann nemendur í 10. bekk og ræðir við þau um að bera ábyrgð á sjálfum sér, sýna samkennd og þrautseigju, koma fallega fram, gera góðverk, sinna litlu hlutunum daglega og setja sér markmið. Þorgrímur hefur farið um landið og spjallað við krakka í mörg ár og það alltaf tilhlökkunarefni að fá hann í heimsókn.
Lesa meira

Vel heppnaður göngudagur

Árlegur göngudagur Egilsstaðaskóla heppnaðist með ágætum. Starfsfólk og nemendur héldu af stað í ljómandi veðri á áfangastaði vítt og breitt á Fljótsdalshéraði. Ferðalangarnir tíndu í sig ber og syntu þar sem því varð við komið. Allir komu heilir heim en sumir skítugri en aðrir. Meðfylgjandi eru svipmyndir frá ferðum nokkurra árganga.
Lesa meira

Göngudagurinn

Nemendur Egilsstaðaskóla og starfsfólk er nú farið af stað í árlega gönguferð. Gönguleiðirnar eru á Héraði, styttri fyrir yngri börnin og lengri eftir því sem þau eldast. Þær leiðir sem eru farnar eru: 1.bekkur – Sigfúsarlundur; gengið frá skóla 2. bekkur – Klofasteinn; gengið frá skóla 3. bekkur – Egilsstaðavík; gengið frá skóla 4. bekkur – Hrafnafell 5. bekkur – Rauðshaugur 6. bekkur – Fardagafoss 7. bekkur – Valtýshellir 8. bekkur – Bargselsbotnar 9. bekkur – Stapavík 10. bekkur – Stórurð Nemendur í 1. - 4. bekk koma í hádegismat og þá tekur við venjulegur skóladagur til 13.50. Nemendur í 1. - 5. bekk fara heim þegar þeir koma tilbaka. Göngudagurinn er áralöng hefð í skólanum og tækifæri til að njóta náttúrunnar í nærumhverfinu og þjappa árgöngum saman.
Lesa meira

Val í 8. - 10. bekk

Fimmtudaginn 5. september hefst fyrsta valtímabil. Nemendur hafa fengið kynningu á valnámskeiðum og fyrirkomulagi valsins. Þeir fara heim með valblaðið í dag og eiga að skila valblaðinu aftur á morgun með undirskrift foreldra / forsjáraðila. Foreldrar og forsjáraðilar fengu póst í dag með upplýsingum um valið; valblaðið í viðhengi ef einhver gleymir því í skólanum. Auk þess voru þar upplýsingar um reglur um utanskólaval. Valbæklingur er aðgengilegur á heimasíðu skólans, undir Nám og kennsla - Val í 8. - 10. bekk.
Lesa meira

Egilsstaðaskóli settur í 77. sinn

Í dag var Egilsstaðaskóli settur í 77. sinn. Viðar Jónsson, sem nýverið tók við stöðu skólastjóra, ávarpaði nemendur og forráðamenn þeirra. Hann greindi frá því að í haust hefja um 430 nemendur nám í skólanum og starfsfólk er um 100. Unnið er að þremur þróunarverkefnum í skólanum; leiðsagnarnámi, Uppeldi til ábyrgðar og frá þessu hausti hefst innleiðing verkefnisins Heillaspora en það verður nánar kynnt fyrir forráðamönnum á næstu vikum. Skólastarfið hefst svo að fullu á morgun, föstudag. Nú er boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir en forráðamenn eru beðnir um að skrá börn sín í ávaxtaáskrift.
Lesa meira