Fréttir

,,Þetta vilja þau"

Nýlega kom út skýrsla forvarnardagsins 2020. Á forvarnardeginum sem haldinn hefur verið árlega í október síðan 2006, ræða nemendur sín á milli niðurstöður úr rannsóknum ,,ungt fólk“ sem Rannsóknir og greining hefur unnið undanfarin 20 ár á högum og líðan ungmenna. Spurningarnar varða samverustundir fjölskyldunnar, þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi, auk spurninga sem tengjast áfengis- og vímuefnaneyslu. Spurningarnar voru lagðar fyrir og ræddar í umræðuhópum. Tilgangurinn var að fá fram sjónarmið unglinganna sjálfra og hlusta á skoðanir þeirra og reynslu af ofangreindum málefnum. Helstu niðurstöður voru þær að þvert á það sem margir gætu talið að þá eru unglingar alls ekki á móti því að verja tíma með fjölskyldu sinni. Flestir gera sér fulla grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir fjölskyldur í öllum myndum að taka sér tíma til þess að viðhalda tengslum og gagnkvæmu trausti. Þessi samvera getur verið á ýmiskonar formi, hvort sem það sé að horfa saman á góðamynd, spila, fara saman í útilegu eða einfaldlega setjast niður sem fjölskylda, borða saman og ræða daginn og veginn. Aðalatriðið er samveran. Þegar kemur að því hversu miklum tíma á að verja saman þá er að mati unglinganna, ekkert eitt rétt svar. Almennt eru þau þó sammála um að það sé mikilvægt að finna tíma daglega til þess að vera saman þó að dagskrá unglinga og foreldra í kringum vinnu og tómstundir séu oft þétt skipaður. Að mati nemendanna að þá er íþrótta- og tómstundarstarf mikilvægur vettvangur fyrir unglinga þar sem þau geta hitt vini sína, kynnast nýju fólki með sameiginleg áhugamál og haldið sér í líkamlega góðu formi. Mörgum finnst þó að þátttaka í slíku starfi geti verið full dýr og kalla einnig eftir meiri kynningu fyrir börn og unglinga svo fleiri geti tekið þátt. Áhersla á keppni og árangur í íþróttastarfi getur stundum verið fullmikil að mati sumra, þar sem að þeim finnst mikilvægi þess að haf abara gaman stundum gleymast og aðstaða í sumum tilfellum gæti verið betri. Þrátt fyrir þetta eru langflestir meðvitaðir um forvarnargildi skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs og þau jákvæðu áhrif sem að slík starf hefur á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Unglingarnir eru alveg með að á hreinu hvað það er sem að skiptir máli til þess að lifa heilbrigðu lífi. Góður svefn, hollt mataræði og hreyfing stuðla að líkamlegu heilbrigði og samvera með góðum vinum og fjölskyldu er lykillinn að andlegri vellíðan. Hinsvegar sé slæmur félagsskapur og notkun áfengis og vímuefna ávísun á óheilbrigðan líkama og slæma andlega heilsu. Að þeirra mati er félagsþrýstingur oftast neikvæð pressa frá jafningjum á að gera eitthvað sem að þau vilja ekki gera. Oftar en ekki snerist sú pressa að áfengis-eða vímuefnanotkun en þó voru ekki allir sammála um að félagsþrýstingur væri alltaf neikvæður. Skýrsluna í heild sinni er hægt að lesa hér.
Lesa meira

Söfnun á birkifræjum

Á Degi íslenskrar náttúru fóru nemendur í 3. bekk að safna birkifræjum. Með því tóku þeir þátt í átaki Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að breiða út birkiskóga á Íslandi. Ekki var leitað langt yfir skammt því á skólalóðinni fundust birkitré sem voru alþakin þroskuðum rekklum. Krakkarnir sýndu söfuninni mikinn áhuga og var hvert boxið á fætur öðru fyllt og tæmt í poka. Í framhaldinu var næsta skref að heimsækja Þröst skógræktarstjóra þar sem pokinn var afhentur en í honum reyndust vera alls 947 gr. af fræi. Skógræktarstjóri lofaði að sjá til þess að fræið yrði þurrkað og fundinn góður staður til að sá því svo nýr skógur geti vaxið upp.
Lesa meira

Skólaþjónusta Múlaþings

Áratuga farsælu starfi Skólaskrifstofu Austurlands lauk 31. júlí sl., en gengið hafði verið frá því að sveitarfélögin, Fjarðabyggð og Múlaþings tækju við starfsemi skólaþjónustunnar frá 1. ágúst. Starfsemi skólaþjónustu sveitarfélaga er skilgreind í 40. gr. grunnskólalaga nr. 9172008 og kveðið á um nánari útfærslu í reglugerð 444/2019.
Lesa meira

Dagur íslenskrar náttúru 16. september

Nemendur í 2. bekk unnu verkefni í tilefni af degi íslenskrar náttúru. Þema verkefnisins var „Við erum náttúra“. Skóladagurinn hófst á stuttri göngu yfir í Tjarnargarðinn þar sem nemendur tíndu eitt og annað úr náttúrunni fyrir verkefnavinnuna. Þegar í skólann var komið gerðu allir nemendur mynd af sér í náttúrunni þar sem efniviðurinn var nýttur. Útkoman er glæsileg og höfðu allir gaman af. Meðfylgjandi myndir eru af vinnu nemenda og verkum þeirra.
Lesa meira

Í fyrsta bekk er í nógu að snúast

Í fyrsta bekk er lögð megin áhersla á Byrjendalæsi. Skólinn vinnur samkvæmt aðferðum Byrjendalæsis í læsiskennslu í 1.-3. bekk. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingabærar tengingar við eigið líf. Því er margs konar gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi. Frá skólabyrjun hafa nemendur í fyrsta bekk lært stafina A, L, S og Ó og unnið verkefni tengd þeim. Meðfylgjandi myndir eru frá útikennslustund í fyrsta bekk á dögunum.
Lesa meira

Þjóðleikhúsið á Austurlandi

Leikarar Þjóðleikhússins eru á ferð um landið með sýninguna Vloggið. Unglingarnir okkar fengu boð um að um að sjá sýninguna sem fór fram á Iðavöllum. Sýningin fjallar um vináttu, misgóðar forvarnir og myndbandaveituna Youtube. Þau Konráð og Sirrý eru með mikilvæg skilaboð út í alheiminn í von um heimsfrægð. Að minnsta kosti að bjarga nokkrum unglingum frá glötun. Höfundur verksins er Matthías Tryggvi Haraldsson og leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson. Þau Konráð og Sirrý, eru leikin af þeim Kjartani Darra Kristjánssyni og Þóreyju Birgisdóttur.
Lesa meira

Göngudagur - þegar hæsta tindi er náð

Þriðjudaginn 31. ágúst var árlegur göngudagur Egilsstaðaskóla. Þessi skemmtilega hefð hefur verið við lýði í skólanum í áraraðir og hefur þróast og orðið betri með hverju árinu. Að þessu sinni lék veðrið við nemendur og starfsmenn sem gefur alltaf betri möguleika á því að hægt sé að njóta göngunnar, náttúrunnar og félagsskaparins. Göngudagurinn er skipulagður með þeim hætti að þeir sem eru á yngsta stigi fara í styttri göngur eins og í Sigfúsarlund, að Klofasteini og í Egilsstaðavík. Á miðstigi verða göngurnar meira krefjandi eins og ganga á Hrafnafell, á Rauðshaug, að Fardagafossi og í Valtýshelli. Á unglingastigi verða göngurnar enn lengri eins og inn að Snæfelli og í Stapavík en 10. bekkur lýkur sínum gönguferli í skólanum með göngu í Stórurð. Fyrrum nemendur skólans nefna oft göngudaginn þegar þeir horfa til baka og minnast skólans. Á göngudaginn myndast oft sterk vinabönd, þar eru oft betri tækifæri til að mynda tengsl og kynnast á öðrum forsendum heldur en í hefðbundnu skólastarfi inni í skólanum. Þar kynnast menn einnig fagurri náttúru og umgengni við hana. Ekki má gleyma þeirri áskorun sem krefjandi göngur geta verið fyrir marga og kannski við hæfi að leyfa síðasta erindi af skólasöngnum okkar að fylgja með því óhætt er að segja að hann eigi vel við um göngudaginn á sama tíma og skólagönguna í heild sinni.
Lesa meira

Breytingar í tengslum við matartíma nemenda

Nú í haust tók gildi nýtt fyrirkomulag á matartíma nemenda í Egilsstaðskóla. Á síðasta ári kom út endurskoðuð handbók fyrir grunnskólamötuneyti og var hún ásamt aðalnámskrá grunnskóla höfð við hliðsjónar við þetta verkefni. Í vetur borða umsjónarkennarar með öllum árgöngum skólans og er matartími hluti af kennslutíma hjá nemendum á yngsta og miðstigi. Nemendur koma með umsjónarkennurum í matsal og sitja til borðs með þeim. Nemendur á yngsta stigi fara í frímínútur að loknum matartíma, en nemendur á miðstigi fara aftur í sínar kennslustofur og eru áfram í kennslu til 12:30, þegar þeir fara í 30 mínútna útifrímínútur. Fyrstu dagarnir með þessu fyrirkomulagi lofa góðu, en við erum spennt að sjá hvernig þetta nýja fyrirkomulag reynist okkur.
Lesa meira

Takmarkanir vegna heimsfaraldurs 24. ágúst - 1. október 2021

Samtök sveitarfélaga og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hafa gefið út leiðbeiningar vegna skólastarfs í ljósi farsóttar. Samkvæmt gildandi reglugerð þurfa stjórnendur að skipuleggja starf án takmarkana en þó þannig að ýtrustu sóttvarna og varkárni sé gætt. Stjórnendum er heimilt að gæta sóttvarna umfram það sem reglugerð kveður á um, að því marki að þær ráðstafanir takmarki starfið eins lítið og kostur er. Markmiðið með þessum aðgerðum í upphafi skólaárs er að halda starfseminni órofinni og minnka líkur á því að stórir hópar barna og starfsfólks þurfi að fara í sóttkví eða jafnvel einangrun. Hér er samantekt yfir þær takmarkanir sem eru í gildi í Egilsstaðaskóla til 14. september hið minnsta. Samantektin er unnin eftir leiðbeiningum frá Samtökum sveitarfélaga og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins.
Lesa meira

Skráning í mötuneyti og ávaxta- og grænmetisáskrift

Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er talað um að í skólaumhverfinu þurfi að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. Öllum nemendum Egilsstaðaskóla gefst kostur á að vera í ávaxta- og grænmetisáskrift á morgnana og fá keyptan mat í hádeginu sem eldaður er í mötuneyti skólans. Upplýsingar um mötuneyti og matseðill er aðgengilegur á heimasíðu skólans. Tekið er við skráningu í hádegismat og ávaxta- og grænmetisáskrift rafrænt með því að smella hér.
Lesa meira