Fréttir

Barnaþing

Umboðsmaður barna stóð fyrir barnaþingi föstudaginn 17. nóvember. Þetta er í þriðja sinn sem barnaþing er haldið en það hefur verið haldið á tveggja ára fresti. Um 150 börn á aldrinum 11 – 15 ára víðs vegar af landinu sótti þingið en þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Þrír nemendur í Egilsstaðaskóla sóttu þingið, einn úr 9. bekk og tveir úr 7. bekk. Börnin ræddu ýmis mál en m.a. kom fram að börn telja brýnt að stjórnvöld hlusti meira á börn og að réttindi allra barna væru tryggð. Lagt var til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, kosningaaldur væri lækkaður niður í 16 ár, skólakerfið væri sniðið betur að þörfum allra og bið eftir greiningum væri stytt. Auk þess bentu börnin á að bæta þyrfti þjónustu fyrir flóttafólk, strætó væri ókeypis fyrir öll börn undir 18 ára og að öll kyn fengju sömu réttindi í íþróttum. (Upplýsingar teknar af heimasíðu Umboðsmanns barna, www.umbodsmaður.is)
Lesa meira

Upplestur fyrir börn úr leikskólanum

Elsti árgangur á Skógarlandi kom í heimsókn og hlustaði á krakka úr 7. bekk lesa upp á bókasafninu. Þetta er hluti af áætlun um skólaaðlögun leikskólabarna. Sjöunda- bekkjar börnin stóðu sig með prýði og gestirnir okkar hlustuðu af athygli á lesturinn. Næsta heimsókn leikskólabarnanna er eftir áramót en þá koma þau í verkgreinatíma. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá samverustundinni.
Lesa meira

Skólaþing 1. - 6. bekkjar

Seinni hluti Skólaþings Egilsstaðaskóla var haldið í gær. Nemendur í 1. – 6. bekk, foreldrar þeirra og forsjáraðilar, fóru í ferðalag um skólann í nokkurs konar ratleik. Fjölbreytt verkefni voru á stöðvum um allan skóla og því mikið líf í öllu húsinu. Verkefnin voru t.d. að klippa út fótspor sitt og festa á vegg, mæla hávaða í desibilum, þrykkja lófafar á óralangan pappírsstranga, smakka góðgæti í heimilisfræðistofu og fræðast um fæðuhringinn, mynda orð úr orði og leysa ýmsar þrautir svo dæmi séu tekin. Börnin svöruðu líka spurningum sem vörðuðu líðan þeirra og skólastarfið. Spurt var hvar og hvernig þeim þætti best að lesa, hvernig væri best að læra stærðfræði, hvernig mætti minnka hávaða í kennslustofunum og ýmislegt fleira. Spurningarnar voru mótaðar útfrá svörum í Skólapúlsinum og hugmyndin að kalla eftir áliti barnanna á hvernig hægt sé að bæta þætti í skólastarfinu til að komið sé betur til móts við þarfir þeirra. Það var gott að sjá foreldra og börn vinna saman, ræða um skólann og kryfja málin. Kennarar undirbjuggu ferðalagið eða ratleikinn með forritinu Actionbound en því er hlaðið niður í snjalltæki og skráð inn með QR kóða. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi leið er farin á skólaþingi í Egilsstaðaskóla og í ferlinu safnaðist mikil reynsla og þekking hjá starfsfólkinu. Við þökkum foreldrum og forsjáraðilum innilega fyrir að koma á Skólaþingið og hlökkum til að kynna niðurstöður þess síðar í vetur.
Lesa meira

Skóli án síma gefur gæðatíma

Á fyrra Skólaþingi vetrarins ræddu nemendur í 7. - 10. bekk, ásamt foreldrum sínum um tækifæri og áskoranir við það að Egilsstaðaskóli verði símalaus. Lykilspurning þingsins var "Hver eru tækifærin við skóla án síma og hverjar eru áskoranirnar? Skólaþingið var sett upp eins og heimskaffi þannig að umræður fóru í fyrstu umferð fram á 4 manna borðum. Í annarri umferð dreifðust þáttakendur á önnur borð og umræðunni lauk svo með því að upphaflegur umræðuhópur greindi leiðir til að takast á við áskoranir og hvernig fanga mætti tækifærin. Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með umræðunni en niðurstöður þingsins verða nýttar í undirbúningi fyrir að skólinn verði snjallsímalaus um næstu áramót. Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir foreldrum og forsjáraðilum í fréttabréfi þegar úrvinnslu er lokið. Það er mikilvægt að fá foreldra og forsjáraðila í skólann til að fjalla um mál með börnum sínum. Við þökkum þeim sem mættu kærlega fyrir þátttökuna.
Lesa meira

Okkar menn í körfunni

Starfsfólk og nemendur Egilsstaðaskóla fylgjast spennt með leikjum Hattar í úrvalsdeild karla í körfubolta þetta leikár. Í liðinu eru þrír starfsmenn skólans; Adam Eiður íþróttakennari og stuðningsfulltrúarnir Gísli Þórarinn og Sæþór Elmar. Mikil gleði var eftir leikinn á fimmtudaginn þegar liðið vann Keflavík 83 - 75 en liðið hefur unnið fjóra af fyrstu sex leikjum mótsins. Við óskum okkar mönnum og liðinu í heild innilega til hamingju með sigurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim í vetur. Við fengum að nota myndir sem Daníel Cekic tók á leiknum og þökkum honum kærlega fyrir að leyfa okkur að birta þær.
Lesa meira

Aðalfundur foreldrafélags Egilsstaðaskóla

Stjórn foreldrafélags Egilsstaðaskóla boðar til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 7. nóvember klukkan 20:00 í matsal skólans. Öll hvött til að mæta!
Lesa meira

Skólaþing 14. og 15. nóvember

Ákveðið hefur verið að halda Skólaþing fyrir nemendur og foreldra & forsjáraðila í 1. - 6. bekk miðvikudaginn 15. nóvember klukkan 17:00 - 18:30 til að auðvelda foreldrum & forsjáraðilum að mæta á þingið. Skólaþingið fyrir þessa árganga verður sett upp að hluta eins og ferðalag um skólann þar sem foreldrar/forsjáraðilar og börn ganga á milli stöðva og svara ýmsum spurningum sem varða skólastarfið. Skólaþing 7. - 10. bekkjar verður 14. nóvember kl. 16:30 - 19:00 með þjóðfundarsniði. Í vikunni var haldinn undirbúningsfundur þar sem Sigurborg Kr. Hannesdóttir hitti nemendur í Nemendaráði og Leiðtogaráði, kennara og starfsfólk í árgöngunum og fulltrúa foreldra til að kynna fyrir þeim hvernig fundurinn færi fram. Margar góðar hugmyndir komu fram um yfirskrift þingsins og lykilspurningar en miklu skiptir að vel takist til þar sem markmiðið með þinginu er að undirbúa það að skólinn verði snjallsímalaus eftir áramót.
Lesa meira

Náttúruskólinn í Óbyggðasetrinu

Nemendur í 9. bekk fóru í Óbyggðasetrið í síðustu viku til að taka þátt í námskeiði á vegum Náttúruskólans. Hópurinn prófaði ýmislegt óvenjulegt, t.d. að kveikja eld með frumstæðum aðferðum, óbyggðaskyndihjálp, rötun og áttavitar, hnútar og línuvinna. Krakkarnir elduðu hádegismat úti fyrir opnum eldi. Þetta var skemmtileg tilbreyting fyrir krakkana og þau voru ánægð í lok dags.
Lesa meira

Upptaktur fyrir símalausan skóla

Nemendaráð stóð fyrir símalausum degi í dag, 1. nóvember. Því var beint til nemenda á elsta stigi að skilja símana eftir heima eða sleppa því að vera í símanum í frímínútum. Í hádeginu efndi Nemendaráð til tónlistarbingós. Það voru fáir á göngunum í hádegisfrímínútunum enda flestir að spila bingó.
Lesa meira