Fréttir

Sumardagar í sól og blíðu

Nemendur Egilsstaðaskóla voru á ferð og flugi þennan föstudag, í 20° hita og sólskini. Það voru farnar ísferðir, gönguferðir á Krummaklett, samverustundir vinabekkja, heimsókn á Egilsstaðabýlið og eftir hádegi var sett upp vatnsrennibraut fyrir nemendur á elsta stigi. List- og verkgreinakennarar hafa notað góða veðrið undanfarið, með nemendum í 8.bekk, til að skreyta svæði á skólalóðinni. Útkoman er afar góð. Góða helgi!
Lesa meira

Lokaverkefni 10. bekkinga

Undir lok 10.bekkjar vinna allir nemendur lokaverkefni að eigin vali byggð á áhugasviði. Vinnuferlið tekur u.þ.b. tvær vikur og vinna krakkarnir bæði í skólanum eða heima hjá sér eftir því sem best hentar. Á hverjum degi koma þau í skólann og gera grein fyrir stöðu verksins og fá leiðbeiningar um framhaldið. Verkefnin voru til sýnis fyrir aðra nemendur og foreldra um miðjan maí. Hér má sjá umfjöllun um lokaverkefnin vorið 2023.
Lesa meira

Skólablaðið komið út í 54.sinn

Skólablað Egilsstaðaskóla, Lagarfljótsormurinn, er komið út. Þetta er 54.árgangur blaðsins og er venju er forsíðan skreytt með mynd eftir nemanda skólans. Að þessu sinni teiknaði Natalía Rós Guðjónsdóttir, í 9.bekk, myndina á forsíðunni. Efnið er fjölbreytt; myndir, sögur, getraunir og brandarar. Umfjöllun um nemendur í 10.bekk er í blaðinu og auk þess er viðtal við Víði Reynisson, sem við þekkjum öll vel úr Covid-faraldrinum, þar sem hann talaði til okkar mánuðum saman til að upplýsa um stöðu mála. Nemendur í 9.bekk ganga þessa dagana í hús til að bjóða blaðið til sölu. Ágóði sölunnar rennur í ferðasjóð þeirra vegna skólaferðalags vorið 2024.
Lesa meira

Stríðsárin, Hrafnkelssaga, Mývatnsferð og "Isbutik"

Það er margt um að vera þessa síðustu daga skólaársins. Í morgun buðu 9.bekkingar á sýningu á verkefnum, sem þau hafa unnið um stríðsárin. Þar var að sjá fjölbreytt efnistök og umfjöllunarefni: Menning (tónlist, myndlist, leiklist, tíska, fatnaður), lönd sem urðu fyrir áhrifum af stríðinu, lönd sem tóku þátt í stríðinu, vopn og búnaður, ákveðnar manneskjur sem tengjast stríðinu, stjórnmál (kapitalismi). Sömuleiðis sýndu 9.bekkingar verkefni, sem þau unnu í tengslum við lestur Hrafnkelssögu Freysgoða en sú fornsaga er lesin í 9.bekk. Verkefnin voru eins fjölbreytt og þau voru mörg og margir skiluðu sannkölluðum listaverkum í útfærslu á efni sögunnar. Dönskukennarar í 10.bekk opnuðu popup "Isbutik" þar sem nemendur gátu pantað sér ís með "guf". Nemendur í 7.bekk ásamt kennurum og stuðningsfulltrúum eru á seinni degi sínum í Mývatnssveit þar sem þau skoða fuglasafnið, ganga á fjöll og ýmislegt fleira áhugavert.
Lesa meira

Héraðsleikar 2023

Veðrið lék við okkur á Héraðsleikunum í síðustu viku. Nemendur í grunnskólum Múlaþings gerðu sér glaðan dag í Brúarásskóla, Fellaskóla og í Egilsstaðaskóla. Í Egilsstaðaskóla voru 3. og 4.bekkingar og nemendur á elsta stigi. Það var ýmislegt við að vera s.s. leikir, forritun, fyrirlestrar og margt fleira. Allir fengu pylsur í hádeginu og íspinna á eftir. Flestir virtust njóta dagsins, bæði ungir og eldri.
Lesa meira

Forvarnadagurinn 2023

Í dag koma nemendur úr 8.-10.bekk úr öllum grunnskólum í Múlaþingi saman í Egilsstaðaskóla á Forvarnadegi. Dagskráin er sett saman af starfsfólki íþrótta- og tómstundasviðs Múlaþings og starfsfólki félagsmiðstöðva. Í boði verða fyrirlestrar og smiðjur; Vanda Sigurgeirsdóttir talar um jákvæða leiðtoga og síðan er orðasmiðja, smiðja um fjölmenningu og fokk me fokk jú. Í kvöld verður sameiginlegt raveball í Nýung.
Lesa meira

Viðfangsefni 4.bekkjar á þemadögum

Verkefni 4.bekkjar á þemadögum voru í tengslum við hóflega nýtingu og endurnýtingu. Krakkarnir fóru í gámasvæðið og skoðuðu sig um. Síðan var fjallað um nýsköpun og tækifæri sem felast í því að hanna nýja hluti. Hægt var að velja á milli þess að föndra verkefni í nýsköpun eða taka í sundur gömul raftæki. Það síðarnefnda vakti mikla gleði hjá mörgum nemendum. Auk þessa var unnið hljóðdempunarlistaverk fyrir eitt kennslurýmið sem nú er fullunnið og tekið í notkun.
Lesa meira

Blómin og býflugurnar

Á þemadögum fjölluðu fyrstu bekkingar um býflugur og gildi þeirra, og annarra lífvera, í lífríkinu. Ekkert getur án annars verið. Gerð voru blóm og býflugur sem skreyta nú skólann okkar fagurlega.
Lesa meira

Heimsmarkmið númer 12 í 2.bekk

Á þemadögum vann 2.bekkur með heimsmarkmið nr. 12, ábyrg neysla og framleiðsla. Krakkarnir flokkuðu óskilafatnað sem safnast hefur hjá yngsta stigi í vetur og verðlögðu með því að finna sambærilegar flíkur á heimasíðum verslana. Kostnaðarverð þessa óskilafatnaðar hljóðar upp á 1.450.000 krónur. Nemendur gerðu kannanir, fundu uppruna fata sinna, horfðu á fróðleiksmyndbönd og bjuggu til spil sem vekja okkur til umhugsunar um eigin lífsstíl. Krakkarnir voru því talsvert fróðari um hvaðan fötin þeirra koma og hvers virði þau eru að þemadögum loknum.
Lesa meira

5. - 7.bekkur á þemadögum

Starfsfólk, sem starfar með 5.-7.bekk tók höndum saman og skipulagði dagskrá á þemadögum. Viðfangsefnið var sjálfbærni og fyrr í vikunni var efnið rætt í hverjum árgangi. Nemendunum var blandað í 4 hópa sem fóru á milli fjögurra svæða. Í upphafi fóru allir úr að plokka og síðan hófst svæðavinna. Á hverju svæði var ákveðið efni: 1) Rusl og sköpun: Unnið með listsköpun og nýsköpun úr nýtíndu rusli. 2) Endurnýting: Farið í Nytjamarkað og Fatabúð Rauða krossins, gámasvæðið og fatagám RK auk þess sem flokkunarkerfi voru skoðuð og hvernig breytingar eru að verða á ruslaflokkun. 3) Matur og uppruni; Fjallað um uppruna matvöru og síðan farið í kynnisferð í Nettó til að skoða hvaðan vörur koma. 4) Hreinsivirki og hringrás: Farið á eina hreinsistöð HEF út við Eyvindará. Kynning frá HEF og aðila frá Hreinsitækni um hvernig unnið er úr skólpinu og í hvaða ástandi það fer út í umhverfið aftur. Unnið verkefni í framhaldinu. Endapunktur þemadaganna í 5. – 7.bekk var svo fyrirlestur frá Aðalsteini Þórhallssyni framkvæmdastjóri HEF Veitna um hreinsikerfin, sóun og ýmislegt fleira. Krakkarnir voru áhugasamir og virkir í vinnunni og gaman að sjá afrakstur verkefnavinnunnar þeirra.
Lesa meira