Samvinna og samkennd

Í Egilsstaðaskóla eru 2 umsjónardagar á skólaárinu en markmið þessara daga er að æfa samvinnu og styrkja hópa og þannig auka samkennd meðal barnanna.

Í dag var seinni umsjónardagurinn og um allan skóla hafa verið unnin fjölbreytileg verkefni, m.a. úr kennsluefni frá Vöndu Sigurgeirsdóttur og KVAN. Verkefni sem gengu út á að byggja brýr, finna út styrkleika sína, hrósa sessunaut sínum, vera í slökun, leysa þrautir með Breakout, dansa og margt fleira. Einhverjir árgangar fóru á skauta og grilluðu pylsur þrátt fyrir að úti væri talsvert rigning.
Það getur reynt á að koma sér saman um leiðir til að leysa þrautir og með slíkum verkefnum þjálfast krakkarnir í samvinnu. Það þarf að hlusta á félagana og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þess vegna er mikilvægt að þjálfa börnin í að takast saman á við áskoranir því þannig eflast þau, öðlast betri skilning á sjálfum sér og félögunum og kynnast nýjum hliðum á bekkjarfélögum sínum.