Í liðinni viku settu nemendur á elsta stigi söngleikinn The Greatest Showman eða Sýningarstjórann á svið á fyrstu árshátíð skólaársins. Krakkarnir hafa unnið að undirbúningi síðan í september en það felur í sér leikæfingar, söngþjálfun, sviðsmyndagerð, hljóð- og ljósastjórn. Stór hópur nemenda og starfsfólk kemur að uppsetningu sem þessari enda er þetta viðamikil sýning.
Hrefna Hlín Sigurðardóttir kennari þýddi söngleikinn The Greatest Showman og leikstýrði krökkunum. Kennarar í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum aðstoðuðu við söngþjálfun og myndmenntakennari stýrði leikmyndagerð auk stuðningsfulltrúa á elsta stigi sem aðstoðuðu við undirbúning og leikstjórn.
Það er alltaf gaman að fylgjast með krökkunum eflast og styrkjast í æfingaferlinu og margir sigrar vinnast á leiðinni. Lokapunkturinn, sýningin sjálf, er uppskera margra vikna vinnu og það var auðséð í lok sýningar hve glöð og stolt krakkarnir voru af sýningunni. Fullur salur áhorfenda fagnaði þeim vel í lokin.