Mikilvægur þáttur í þróun skólastarfs er innra mat en samkvæmt lögum um grunnskóla ber öllum grunnskólum að meta starf sitt með reglubundnum hætti.
Innra mat Egilsstaðaskóla er viðamikið og tekur til margra þátta í skólastarfinu. Kannanir Skólapúlsins eru lagðar fyrir nemendur í 2. – 10. bekk, allt starfsfólk og úrtak foreldra & forsjáraðila. Auk þess eru reglulega lagðar fyrir aðrar kannanir s.s. Íslenska æskulýðsrannsóknin og Ungt fólk.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir þróunarstarfi sem fer fram innan skólans en þar ber helst að nefna innleiðingu á Heillaspori, leiðsagnarnámi og Uppeldi til ábyrgðar. Skólinn hlaut í vor vottun frá Háskólanum á Akureyri á því að vera Byrjendalæsisskóli.
Leitast er við að draga fram styrkleika og veikleika í skólastarfinu. Útfrá greiningu á veikleikum er lögð fram úrbótaáætlun sem tekur til yfirstandandi skólaárs. Auk þess er mat á úrbótaáætlun fyrra árs.
Skólastarf er í stöðugri þróun og því er mikilvægt að meta það með kerfisbundnum hætti þannig að hægt sé að bregðast við ef veikleikar koma fram í einhverjum þáttum.
Matsskýrslan hefur verið kynnt fyrir Fjölskylduráði Múlaþings, skólaráði Egilsstaðskóla og fyrir starfsfólki. Hún er aðgengileg undir tenglinum Skólinn; Mat á skólastarfi.