Fréttir

Jólafrí - jólakveðja

,,Þetta er ekki árið sem þú færð allt sem þú vilt. Þetta er árið sem þú kannt að meta allt sem þú hefur“ 2020 hefur sannarlega verið öðruvísi ár. Við höfum öll þurft að aðlagast breyttum veruleika og tileinka okkur nýja siði og venjur. Jákvæðni og seigla starfsmanna og nemenda hafa skilað því að breytingar og takmarkanir á skólastarfi hafa gengið mjög vel fyrir sig. Eldri nemendur hafa nýtt takmarkaðan tíma í skólanum vel til náms og tekist hefur að halda úti fullum skóladegi hjá yngstu nemendunum. Í dag fara nemendur og starfsmenn í jólaleyfi. Skólahald hefst aftur að loknu jólaleyfi, þann 5. janúar. Enn er óljóst með hvaða hætti skólastarfið verður á nýju ári en upplýsingar um það verða sendar foreldrum í tölvupósti 4. janúar. Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Meðfylgjandi eru myndir af jólaballi á yngsta stigi sem haldið var með óhefðbundnu sniði í dag.
Lesa meira

Eldstöðvakerfi á Íslandi

Síðastliðnar vikur hafa nemendur í 9. bekk unnið að verkefni um eldstöðvakerfi á Íslandi. Hver og einn safnaði upplýsingum um eitt eldstöðvakerfi og skilaði svo verkefninu því formi sem þeir völdu. Margar útfærslur komu fram og er gaman að sjá hve fjölbreytt verkefni nemendanna eru.
Lesa meira

Jólaþema í list- og verkgreinum

Nú fyrir jólin hafa nemendur í 5. bekk unnið ýmis jólaverkefni í list- og verkgreinum. Í myndmennt skoðuðu þeir hvernig listamenn hafa búið til steinda glugga í gegnum tíðina. Þeir finnast aðallega í kirkjum og menningarstofnunum víða um heiminn. Nemendur unnu síðan eigin mynd í karton og silkipappír sem var svo plöstuð. Hér er afraksturinn sem mun sóma sér vel í gluggunum heima.
Lesa meira

Lagarfljótsormurinn kominn út í 51.sinn

Lagarfljótsormurinn, skólablað Egilsstaðskóla, er kominn út í 51. sinn. Það tölublað sem nú lítur dagsins ljós átti með réttu að koma út í maí sl. en vegna heimsfaraldurs hefur útgáfa frestast þar til nú. Markmiðið er ávalt að allir nemendur skólans leggi af mörkum efni í blaðið og hafa skapast ýmsar hefðir í því sambandi. Blaðið er um 60 síður. Ritstjóri Lagarfljótsormsins er Sigfús Guttormsson.
Lesa meira

Okkar eigin velferð

Í Egilsstaðaskóla er mikið lagt upp úr því að öllum geti liðið vel í leik og starfi. Í vetur fá nemendur velferðarkennslu þar sem unnið er út frá hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði um okkar eigin velferð og hugarfar. Þroskaþjálfi og sérkennari vinna svo að því að kafa dýpra í allt þetta flókna, félagslega samspil með annarskonar félagsfærnikennslu. Sú félagsfærni er kennd einstaklingslega, í litlum hópum og einnig á bekkjarvís eins og gert er með ART í 2.bekk. Í þessari kennslu er lögð áhersla á félagsfærni, tilfinningastjórnun og siðferði. Undirstaðan er sú að öll höfum við hugsanir og tilfinningar sem við lærum smám saman að þekkja og stjórna. Kennt er hvað það þýðir að vera hluti af hópi, hvernig við getum lesið í umhverfið og dregið ályktanir um hvaða hegðun er viðeigandi og/eða óviðeigandi hverju sinni. Kennslan er fjölbreytt, síbreytileg og lausnamiðuð. Í grunninn er áhersla lögð á spjall, hlutverkaleiki og spil en barnabækur, myndbrot, sjónvarpsefni og hinar ýmsu heimasíður spila líka mikilvægt hlutverk í kennslunni. Á meðan barnabækur og bútar úr teiknimyndum eru kjörin til kennslunnar á yngsta stigi þá henta myndbrot, auglýsingar og fyrirmyndir úr sjónvarpsþáttum/kvikmyndum ef til vill betur fyrir nemendur á eldri stigum. Allt nám í félagsfærni er einstaklingsmiðað. Það er því mikilvægt að samvinna við foreldra og heimilin sé góð. Hvað hugmyndafræði varðar má nefna ART-þjálfun, Félagslega hugsun (Social Thinking) og CAT-kassann. Allt þetta, ásamt fleiru, er tvinnað við það sem verið er að fást við hverju sinni. Að lokum er hér meðfylgjandi ein af þeim heimasíðum sem gæti nýst foreldrum vel: https://sterkariutilifid.is/
Lesa meira

BEBRAS í 10. bekk

Nemendur í 10. bekk tóku þátt í BEBRAS áskoruninni í byrjun nóvember. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem hvetur börn til að nota hugsunarhátt forritunar við að leysa krefjandi verkefni. Þessi áskorun kannar rökhugsun og tölvufærni með því að láta þátttakendur leysa skemmtileg verkefni. Bebras áskorunin er ein fjölmennasta áskorun sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni og í ár tóku 35 skólar á Íslandi þátt. Okkar fólki gekk prýðilega í áskoruninni og gaman fyrir þau að takast á við verkefni af þessu tagi. Upplýsingar um BEBRAS er að finna á vefsíðunni bebras.is
Lesa meira

Fullveldisdeginum fagnað

Nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla brugðu sér í betri klæðin í dag og fögnuðu fullveldinu saman með dagskrá sem var send út af hátíðarsviði Egilsstaðaskóla. Líkt og árið 1918, þegar Íslendingar fengu fullveldi 1. desember, geisar nú heimsfaraldur. Að því leyti verður þessi dagur minnistæður þeim sem tóku þátt þar sem samkomutakmarkanir komu í veg fyrir hefðbundin hátíðahöld en þó var hægt að gera sér dagamun með því að nýta tæknina. Ruth Magnúsdóttir skólastjóri notaði tækifærið og þakkaði nemendum og starfsfólki fyrir samvinnuna og samstarfið undanfarnar vikur. Jákvæðni og seigla nemenda og starfsfólks hafa skilað því að breytingar og takmarkanir hafa gengið mjög vel fyrir sig í skólanum. Nemendur nýta takmarkaðan tíma vel til náms og það hefur tekist að halda úti fullum skóladegi hjá yngstu nemendunum. Það er tvímælalaust styrkleiki skólans að starfsfólk skólans, stórt og smátt, velja að vera öll í saman í liði við að takast á við aðstæðurnar. Valþór Gauti Þórhallsson, formaður Nemendaráðs ávarpaði samkomuna. Hann fór yfir söguna, hvernig þakka mætti Jóni Sigurðssyni og fleirum að Ísland náði að losa sig undan stjórn Danmerkur. Valþór talaði einnig um hvernig spænsku veikinni svipaði til Covid 19. Hann tók sem dæmi að þá hafi þjóðin komist saman í gegnum erfiðleika og hann sagðist sannfærður um að það sama mundi gerast núna. Að lokum hvatti Valþór samnemendur sína áfram með orðunum: ,,Þannig, kæru nemendur Egilsstaðaskóla. Standið upp og berjist í gegnum erfiðu tímana og lærið af mistökum ykkar. Því þá verðið þið sterkari og sterkari“. Næst var upplestur nemenda 8. bekkjar. Það voru 5 nemendur sem lásu til úrslita í Stóru Upplestrarkeppninni í fyrra sem lásu söguna Drengurinn sem hrópaði: ,, Úlfur!“. Sagan er ein af dæmisögum Esóps í þýðingu Steingríms Steinþórssonar. Bjartur Blær, Bóel Birna, Guðlaug Björk, Guðný Edda og Margrét S. lásu. Að lokum voru sungin þrjú íslensk lög sem nemendur höfðu æft fyrirfram en það voru kennara Tónlistarskólans á Egilsstöðum sem sáu um undirleik og forsöng. Þau bættu einu jólalagi þar sem aðventan er nýgengin í garð. Þannig ómaði söngurinn um ganga skólans í dag, öllum til ánægju og upplyftingar á þessum sérkennilegu tímum. Skólastjórnendur þakka nemendum og starfsfólki fyrir þessa fallegu stund. Sérstakar þakkir fá þeir sem komu að undirbúningi og flutningi dagskrár.
Lesa meira

Skólahald eins og verið hefur

Gert er ráð fyrir að skólahald í Egilsstaðaskóla verði með eðlilegum hætti frá og með morgundeginum en skólinn var lokaður í dag, miðvikudag. Aðgerðarstjórn telur ekki ástæðu til að grípa til frekari ráðstafana varðandi skólahald að sinni. Í ljósi aðstæðna hefur verið ákveðið að skipulag skólahalds verði með sama hætti og verið hefur undanfarnar vikur, að minnsta kosti fram að helgi. Nema grímuskyldu nemenda í 5.-7. bekk er aflétt. Enn er skertur skóladagur, takmarkanir á hópastærðum og ekki möguleiki á mötuneyti fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Tímasetningar á því hvenær nemendur mæta í skólann á morgnana og skólalok á daginn verða þær sömu og hafa verið, ásamt fyrirkomulag frímínútna. Í dag tók í gildi reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar og gildir hún til 1. desember nk. Hér er ágæt samantekt á því hvaða takmarkanir á skólahald reglugerðin hefur í för með sér.
Lesa meira

Hvaða kröfur gera framhaldsskólar til nemenda sem hefja þar nám?

Hvaða kröfur gera framhaldsskólar til nemenda sem hefja þar nám? Þessi spurning kviknar gjarnan hjá nemendum í 9. og 10. bekk enda stefna þau flest á frekara nám eftir grunnskóla. Leiðirnar eru margar og það getur verið gott fyrir unglinga að kynna sér inntökuskilyrði á brautir og stefna þá á ákveðin markmið í efri bekkjum grunnskóla.
Lesa meira