Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Egilsstaðaskóla miðvikudaginn 15. mars í 27.skipti. Tíu nemendur í sjöunda bekk, úr fimm skólum á Austurlandi – norðursvæði, höfðu unnið sér inn þátttökurétt á hátíðinni. Undirbúningur fyrir keppnina hefur hafist á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember en hann felst í að nemendur æfa upplestur og framsögn á bæði bundnu og óbundnu máli. Nemendur komu því vel undirbúnir og lögðu mikinn metnað í flutning sinn. Textarnir, sem lesnir voru að þessu sinni, eru úr bókinni Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Ljóðin eru eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson en auk þess velja keppendur eitt ljóð að eigin vali. Þrír dómarar meta keppendur á lokahátíðinni en til þeirra verka er fengið fólk sem hefur bakgrunn sem nýtist þeim við að meta framlag barnanna. Það var vandasamt að velja þau þrjú sem hlutu fyrstu sæti keppninnar en niðurstaðan var sú að Jóhann Smári Kjartansson hlaut fyrsta sæti, Baldur Jarl Fjölnisson annað sæti og Sofija Una Kruze Unnarsdóttir þriðja sætið. Jóhann Smári og Baldur Jarl eru nemendur í Egilsstaðaskóla og Sofija Una í Seyðisfjarðarskóla. Jarðþrúður Ólafsdóttir kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Múlaþings hefur haldið utan um framkvæmd keppninnar Á Austurlandi um árabil en keppnin er skipulögð og undirbúin af Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn.