Fréttir

16.02.2021

Hreyfidagar

Vikuna 8.-12. febrúar voru heilsu- og hreyfidagar í Egilsstaðaskóla. Þessa daga var sérstök áhersla lögð á hreyfingu og heilsu í skólastarfinu. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa hreyfingu meiri gaum og hreyfa sig með fjölbreyttum hætti í skólastarfinu og huga að heilsu og vellíðan hvort sem það var með gönguferðum, útileikjum, slökun, stofuleikfimi, dans eða með öðrum hætti. Það var vinsælt að fara út að renna, á skauta og lengdar frímínútur nýttar í gönguferðir og aukatíma á fót- og körfuboltavelli. Á öllum stigum var notast við myndbönd Lazy monster fyrir stofuleikfimi og dansað með just dance. Hafragrautur var í boði á morgnana fyrir nemendur og starfsmenn í matsal skólans og voru allt upp í 100 manns sem nýttu sér það á degi hverjum. Krafthræra, sem nemendur í sjöunda bekk útbjuggu í heimilisfræði var í boði fyrir alla nemendur og starfsmenn. Krafthræra er nýtt íslenskt orð yfir ávaxtaboost. Því miður þurfti að fresta hefðbundnu bekkjarmóti í íþróttahúsi, þar sem aðeins mátti vera með 50 nemendur í hóp sökum heimsfaraldurs. Stefnt er á að halda það mót um leið og takmörkunum verður aflétt. Þess í stað fóru allir bekkir í Tarzanleik í íþróttum. Rætt var við nemendur um gildi hreyfingar, slökunar, svefns, útiveru, mataræðis og þeirra þátta sem almennt snerta heilsu og vellíðan okkar. Starfsmenn skólans fengu leiðsögn á gönguskíðum ásamt hugleiðslu og slökun í vikulokin.
16.02.2021

Himingeimurinn í 3. bekk

Þessa dagana á himingeimurinn hug allra í 3. bekk. Nemendur hafa unnið í hópum með eina plánetu hver og orðið sérfræðingar í henni. Hópavinnunni lauk svo með kynningu fyrir bekkjarfélaga og þannig hafa allir fengið fræðslu um allar pláneturnar. Á þessum tímum þar sem foreldrar geta ekki komið í heimsókn í skólann var brugðið á það ráð að bjóða foreldrum að vera með í gegnum Teams. Ekki hægt að segja annað en að ánægja hafi verið með hversu vel tókst til.
11.02.2021

Húfur sem koma sér vel í kuldanum

Menntun í list- og verkgreinum felst í því að nemendur vinna verklega og skapandi vinnu þar sem reynir á huga, hjarta og hönd. Námið felur í sér kerfisbundna þjálfun í hverri námsgrein fyrir sig þar sem reynir á ólíka þætti í mismiklum mæli eftir eðli verkefna. Nemendur í 2. bekk fara í tvær lotur í textílmennt á hverju skólaári, ein á haustönn og ein á vorönn. Haldið er áfram að byggja ofan á þekkingu sem nemendur hafa og þeir fá að kynnast saumavélinni í einföldum vélsaumsverkefnum. Lögð er áhersla á að nemendur beri virðingu fyrir tækjum og efnivið sem verið er að nota og temji sér góða umgengni. Um helmingur bekkjarins hefur nú lokið textílmennt á þessari önn. Þau stigu sín fyrstu skref í vinnu á saumavél og áhuginn á því töfra tæki mikill. Þessir kátu krakkar eru búin að sauma sér þessar fínu húfur úr flísefni sem hafa komið sér sérstaklega vel í kuldanum upp á síðkastið. Eins og sjá má eru menn ánægðir með útkomuna.
02.02.2021

Vinaliðar