Fréttir

07.06.2023

Ljósmyndamaraþon 8. og 9. bekkjar

Árlega er haldið svk. ljósmyndamaraþon fyrir nemendur í 8. og 9. bekk á vordögum. Valin eru nokkur orð sem krakkarnir eiga að fanga í myndform. Að þessu sinni voru orðin fegurð, gleði, von, framtíð, hjálpsemi, hugrekki, samvinna og líf þau sem unnið var með. Dómnefnd skipuð tveimur kennurum skólans sem hafa afar listrænt auga, þeim Elvu Rún Klausen og Jónínu Lovísu Kristjánsdóttir. Verðlaun í keppninni voru gefin af Héraðsprenti en það voru útprentaðar vinningsmyndir hvers hóps. Besta myndin var valin sú sem sýndi regnbogastíginn á Egilsstöðum og rökstuðningur dómnefndar var þessi: Sú mynd sem fangaði athygli dómnefndar sem ljósmynd 2023 var mynd af regnbogagöngustíg. Orðatiltækið „less is more“ á vel við í þessu tilfelli því það er einmitt einfaldleikinn sem grípur augað í þessari mynd. Myndin stendur fyrir hugtakið hugrekki sem gerir myndina ennþá sterkari. Hugrekki er mátturinn til að halda áfram. Myndin lýsir því á skýran hátt. Regnbogastígurinn birtist á myndinni eins og lífsins vegur og er ákall um að allir eigi að fá að vera eins og þeir eru. Lífið er fallegra í öllum regnboganslitum eins og við mannfólkið sem erum ólík á ýmsan máta. Vegurinn vísar upp á við sem tákn um von og bjartsýni. Þannig er einmitt hugrekkið. Við tökumst á við áskoranir og með hverri áskorun fetum við upp brekkuna. Til þess að geta tekist á við áskoranir þurfum við jafn mikið hugrekki og áskoranir okkar eru stórar. Áskoranir okkar eru misjafnar eins og litirnir í myndinni benda til. Hópinn á bak við vinningsmyndina skipuðu: Elín Lára, Viren, Ísold Orka, Ágústa og Agla Eik. Besta serían náði einnig að fanga vel merkingu orðanna sem unnið var með. Í hópnum að baki þeirri seríu voru Inga Sól, Maria Anna, Katrín Jökla, Ellen Rún, Katla Fönn og Kamilla.
07.06.2023

Skólaslit 2023

Þann 6. júní var Egilsstaðaskóla slitið í 75. sinn. Nemendur tóku við vitnisburði sínum og kvöddu umsjónarkennara. Útskrift 10. bekkjar fór fram um kvöldið en við það tækifæri voru flutt ávörp og nemendur fluttu tónlistaratriði. Kristín Guðlaug Magnúsdóttir skólastjóri flutti skólaslitaræðu og talaði til nemendanna sem voru að útskrifast. Hún kvaddi einnig sérstaklega þrjá starfsmenn sem nú láta af störfum við skólann; Sigurlaug Jónasdóttir fyrrum skólastjóri og Valgerður Jónsdóttir stuðningsfulltrúi hafa starfað um áratuga skeið við skólann og fara nú á eftirlaun. Lillý Viðarsdóttir hefur starfað við Egilsstaðaskóla í 25 ár en er að færa sig um set. Formaður Nemendaráðs, Diljá Mist Olsen Jensdóttir flutti ávarp og þakkaði starfsfólki og samnemendum fyrir samveruna undanfarin 10 ár. Umsjónarkennarar 10.bekkjar ávörpuðu nemendur og þökkuðu lærdómsrík ár. Nemendur í 10.bekk, ásamt tónlistarkennurum, fluttu nokkur tónlistaratriði og í lokin sungu krakkarnir lagið "You never walk alone", einkennislag Liverpool liðsins en í hópnum eru margir áhugamenn um fótbolta og einn kennaranna sér í lagi áhangandi liðsins. Nokkrir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, seiglu og framfarir í námi og prúðmennsku í framkomu. Auk þess var afhent viðurkenningin Óðinshaninn, sem árgangur 2002 gaf til minningar um bekkjarfélaga sinn Óðin Skúla Árnason. Hún er veitt þeim sem hefur verið góður og traustur félagi í hópnum. Ólafur Þór Arnórsson fékk þessa viðurkenningu að þessu sinni en um er að ræða farandgrip.
05.06.2023

Skólaslit og útskrift 10.bekkjar

Þriðjudaginn 6. júní fá nemendur afhentan vitnisburð sinn. Klukkan 9.00 mæta nemendur í 1. - 4. bekk, fyrst á sal þar sem er stutt dagskrá og síðan farið í heimastofur. Klukkan 10.30 mæta nemendur í 5. - 9. bekk, fyrst á sal. Klukkan 20.00 er útskrift 10.bekkjar sem fer fram á sal skólans og þá verður skólanum slitið formlega. Foreldrar og forráðmenn eru velkomnir með börnum sínum.