Krakkarnir í 5. bekk buðu forráðafólki sínu á sýningu á áhugasviðsverkefnum sem þau hafa unnið að undanfarið. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og gaman að sjá hvað krakkarnir höfðu lagt mikinn metnað í þau.
Sem dæmi um verkefni má nefna Grænland, nefapa, ísbirni, sveitina, fræga íþróttamenn, íþróttafélagið Hött og margt fleira. Meðfylgjandi eru myndir af hluta verkefnanna og krökkunum.
Miðvikudaginn 12. mars nk. verður haldinn fundur í skólaráði sem er opinn öllum, foreldrum og forsjáraðilum, starfsfólki skólans, nemendum og öðrum sem eru áhugasamir um starfsemi skólans.
Samkvæmt reglugerð nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla skal halda einn líkan fund á ári fyrir aðila skólasamfélagsins. Þar séu málefni skólans til umræðu.
Dagskrá fundarins er sem hér segir:
Drög að skóladagatali næsta skólaárs
Heillaspor; Dagbjört Kristinsdóttir aðstoðarskólastjóri kynnir verkefnið sem er í innleiðingu
Öryggismál
Önnur mál
Fundur verður haldinn í kennslustofu 10. bekkjar sem er nr. 20 og er á annarri hæð kennsluhúsnæðisins, gengið inn um miðstigs/elsta stigs gang, og hefst kl. 17.00.
Margir telja öskudaginn besta dag ársins, bæði börn og fullorðnir og það sýndi sig vel í morgun þegar skólastarfið hófst. Flestir koma í einhvers konar búningum og sumir hafa lagt mikinn metnað í gervin sín. Það er alltaf gaman að ganga um skólann og sjá hvað börn og fullorðnir njóta dagsins en á dagskránni er samvera vinabekkja, samvera árganga og stiga og samkoma í íþróttahúsinu fyrir nemendur í 1. - 5. bekk sem er skipulögð af Foreldrafélagi Egilsstaðaskóla.
Skóladegi lýkur um hádegi og þá hefst vetrarfrí sem er eflaust kærkomið fyrir nemendur og starfsfólk.