Fréttir

23.09.2021

Söfnun á birkifræjum

Á Degi íslenskrar náttúru fóru nemendur í 3. bekk að safna birkifræjum. Með því tóku þeir þátt í átaki Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að breiða út birkiskóga á Íslandi. Ekki var leitað langt yfir skammt því á skólalóðinni fundust birkitré sem voru alþakin þroskuðum rekklum. Krakkarnir sýndu söfuninni mikinn áhuga og var hvert boxið á fætur öðru fyllt og tæmt í poka. Í framhaldinu var næsta skref að heimsækja Þröst skógræktarstjóra þar sem pokinn var afhentur en í honum reyndust vera alls 947 gr. af fræi. Skógræktarstjóri lofaði að sjá til þess að fræið yrði þurrkað og fundinn góður staður til að sá því svo nýr skógur geti vaxið upp.
21.09.2021

Skólaþjónusta Múlaþings

Áratuga farsælu starfi Skólaskrifstofu Austurlands lauk 31. júlí sl., en gengið hafði verið frá því að sveitarfélögin, Fjarðabyggð og Múlaþings tækju við starfsemi skólaþjónustunnar frá 1. ágúst. Starfsemi skólaþjónustu sveitarfélaga er skilgreind í 40. gr. grunnskólalaga nr. 9172008 og kveðið á um nánari útfærslu í reglugerð 444/2019.
17.09.2021

Dagur íslenskrar náttúru 16. september

Nemendur í 2. bekk unnu verkefni í tilefni af degi íslenskrar náttúru. Þema verkefnisins var „Við erum náttúra“. Skóladagurinn hófst á stuttri göngu yfir í Tjarnargarðinn þar sem nemendur tíndu eitt og annað úr náttúrunni fyrir verkefnavinnuna. Þegar í skólann var komið gerðu allir nemendur mynd af sér í náttúrunni þar sem efniviðurinn var nýttur. Útkoman er glæsileg og höfðu allir gaman af. Meðfylgjandi myndir eru af vinnu nemenda og verkum þeirra.