Fréttir

26.03.2021

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk

Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk 2020 –2021 lauk formlega á norðursvæði Austurlands þann 17. mars sl. með upplestrarhátíð í golfskálanum Ekkjufelli í Fellum. Þar komu saman fulltrúar frá Egilsstaðaskóla, Fellaskóla, Brúarásskóla, Vopnafjarðarskóla og Seyðisfjarðarskóla. Í ár var keppnin haldin í 25. sinn og að þessu sinni voru lesnir valdir kaflar úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Auk þess fluttu þátttakendur ljóð að eigin vali. Að vanda reyndist ekki auðvelt að velja sigurvegarana þar sem allir keppendur stóðu sig með miklum ágætum. Stóra upplestrarkeppnin í sjöunda bekk hefur, undanfarinn aldarfjórðung, hafist ár hvert á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og lokið í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Egilsstaðaskóli átti fimm fulltrúa á lokahátíðinni og er ánægjulegt að segja frá því að Harpa Sif Þórhallsdóttir hlaut 2. sæti í keppninni.
26.03.2021

Útivistardagur í 5.-7. bekk

Þann 23. mars síðastliðinn var útivistardagur í 5. – 7. bekk . Nemendum stóð til boða tveir valkostir sem þeir þurftu að velja fyrirfram. Annað var gönguferð í Taglarétt með Þórdísi Kristvinsdóttur, leiðsögumanni. Hópur 35 nemenda gekk sem leið lá að Miðhúsum og þaðan í Taglarétt. Gamla réttin var skoðuð og nesti borðað. Staldrað við hjá Klofasteini og athugað með kökur sem hefð er fyrir að álfkonan sem þar býr bjóði upp á fyrir duglegt göngufólk á göngudaginn í 2. bekk. Því miður átti álfkonan ekki von á gestum þennan dag og því engar kökur í boði fyrir vonsvikna göngugarpa. Að lokinni göngu var látið líða úr sér í sundlauginni á Egilsstöðum. Á sama tíma fóru rúmlega 70 nemendur með rútu frá Egilsstaðaskóla í Stafdal. Sumir alvanir brekkunum á meðan aðrir stigu í fyrsta skipti á skíði eða snjóbretti. Skíðakennari var á staðnum til að leiðbeina nýliðum. Það var gaman að sjá hvað nemendur voru tilbúnir að láta vaða og standa alltaf upp aftur eftir ítrekuð föll. Seiglan! Veðrið var eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Datt í dúnalogn, fljótlega eftir að lagt var af stað og nokkrir sólargeislar náðu í gegnum skýin á tímabili. Heilt yfir frábær dagur hjá okkar fólki. Ánægjan skein úr andlitum nemenda og greinilega kærkomið að fara aðeins út úr skólanum og stunda nám af öðrum toga en gengur og gerist hversdags.
11.03.2021

Leirmótun - vasi

Þegar nemandi velur sér valgrein á unglingastigi er mikilvægt að hann velti öllum möguleikum fyrir sér og ræði hugmyndir sínar við foreldra eða forráðamenn. Valið á að byggja á áhuga og þörfum hvers og eins en ekki því hvert félagarnir stefna. Valgreinar eru jafnmikilvægar og aðrar námsgreinar og kröfur um ástundun og árangur jafnmiklar og í öðrum greinum. Nýverið lauk hópur nemenda á unglingastigi námskeiði í leirvali. Aðalverkefnið var að hanna og móta vasa úr rauðleir skv. pylsuaðferð. Nemendur veltu fyrir sér formi, skreytingu og litum á glerungum sem þeir settu á vasann. Verkefni tókst vel og mikill metnaður hjá nemendum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
04.03.2021

Minnkum sóun