Fréttir

22.03.2024

Eldur, ís og mjúkur mosi

Egilsstaðaskóli hefur í vetur verið þátttakandi í verkefninu Eldur, ís og mjúkur mosi sem er samstarfsverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs, Náttúrminjasafns Íslands, listafólks og skóla. Verkefnið fékk styrk úr Barnamenningarsjóði í fyrravor og í vetur hafa krakkarnir í 3ja bekk unnið fjölbreytt verkefni tengd listsköpun, náttúruvernd og Vatnajökulsþjóðgarði undir leiðsögn Írisar Lindar Sævarsdóttur listakonu auk umsjónarkennara árgangsins. Krakkarnir lásu söguna Ástarsaga úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur og unnu svo sérstaklega með hlutann þegar Flumbra fer að hitta kærastann sinn. Það leiddi þau til þess að skoða leiðir og staði í þjóðgarðinum og fjölbreytta náttúruna sem þar er að finna. Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður hitti krakkana og ræddi við þau um þjóðgarðinn. Þau bjuggu til sín eigin tröll og Íris Lind aðstoðaði svo við að vinna myndverk með umhverfi fyrir tröllin. Krakkarnir skrifuðu líka stuttar sögur og bjuggu til myndband í Stop-motion sem þau töluðu inn á eða settu texta. Að auki lærðu krakkarnir ljóðið Vont og gott eftir Þórarin Eldjárn, skrifuðu það upp og myndskreyttu. Foreldrum og aðstandendum var boðið á sýningu þar sem afrakstur verkefnisins var til sýnis og krakkarnir buðu líka upp á veitingar. Það er ekki ólíklegt að umhverfið í þjóðgarðinum hafi með þessu verkefni fengið aðra og meiri merkingu fyrir krakkana í 3ja bekk því nú þekkja þau ýmis kennileiti og hver veit nema tröllin þeirra leynist einhversstaðar bak við hæð!
21.03.2024

Útivistardagur í blíðviðri

Þrátt fyrir ýmsar hindranir í aðdraganda útivistardagsins, slæma veðurspá, lokað skíðasvæði og bilaða rútu, voru nemendur og starfsfólk skólans hæstánægð með hve vel útivistardagurinn heppnaðist. Boðið var upp á skíðaferð eða útivist í Eyjólfsstaðaskóla, við Blöndalsbúð, þar sem Náttúruskólinn lagði upp dagskrá á fjölbreyttum stöðvum. Um morguninn þurfti að taka snöggar ákvarðanir þegar kom í ljós að lokað var í Stafdal vegna veðurs en umsjónarmaður skíðasvæðisins í Oddskarði brást við og bauð okkur velkomin þangað. Útivistardagurinn er kærkomin tilbreyting í skólastarfinu en rúmlega 200 börn úr 5. - 10. bekk nutu þess að skíða, baka lummur og brauðorma yfir eldi, súrra, mála snjó og fleira skemmtilegt. Meðfylgjandi eru myndir sem starfsfólk tók.
20.03.2024

Námskeið Náttúruskólans

Í vikunni var haldið námskeið á vegum Náttúruskólans fyrir starfsfólk Egilsstaðaskóla. Þar var m.a. farið yfir gildi útikennslu og tækifærin sem felast í því að læra að þekkja umhverfið sitt og náttúruna. Þátttakendur lærðu að súrra, spila frisbee-golf, kveikja eld og elda yfir opnum eldi. Auk þess voru kenndir leikir og fleira hagnýtt. Markmiðið með námskeiðinu var að gera kennara og annað starfsfólk færara um að kenna nemendahópum úti og styrkja þannig tengsl okkar við umhverfið.