Fréttir

30.11.2023

Ýkt elding

Tugir unglinga stigu á svið á árshátíð elsta stigs Egilsstaðaskóla í vikunni. Undanfarnar vikur hafa lögin úr söngleiknum Grease hljómað um ganga skólans og víða var verið að undirbúa allt það sem þarf á sýningu sem þessari; Það þurfti að smíða bekki fyrir sviðsmyndina, mála barinn, finna til búninga, mála sviðsmyndina, gera árshátíðarstafina, æfa dansa og söngva, æfa senur, koma hljóði í lag, æfa hljómsveit og hanna lýsinguna. Allt þetta hafa krakkarnir verið að gera í aðdraganda sýningarinnar ásamt öllum kennurum á unglingastigi en auk þeirra aðstoðuðu list- og verkgreinakennarar við sviðsmynd. Húsvörður skólans, Þórarinn Bjarnason aðstoðaði við smíði á leikmynd og uppsetningu á henni. Leikstjóri sýningarinnar var Hrefna Hlín Sigurðardóttir kennari en árshátíðin var samvinnuverkefni allra sem koma að unglingastiginu. Tónlistarskólinn á Egilsstöðum aðstoðaði við að æfa söng og undirleik. Þeim kennurum og nemendum tónlistarskólans, sem spiluðu með hljómsveitinni, þökkum við innilega fyrir samstarfið.
24.11.2023

Barnaþing

Umboðsmaður barna stóð fyrir barnaþingi föstudaginn 17. nóvember. Þetta er í þriðja sinn sem barnaþing er haldið en það hefur verið haldið á tveggja ára fresti. Um 150 börn á aldrinum 11 – 15 ára víðs vegar af landinu sótti þingið en þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Þrír nemendur í Egilsstaðaskóla sóttu þingið, einn úr 9. bekk og tveir úr 7. bekk. Börnin ræddu ýmis mál en m.a. kom fram að börn telja brýnt að stjórnvöld hlusti meira á börn og að réttindi allra barna væru tryggð. Lagt var til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, kosningaaldur væri lækkaður niður í 16 ár, skólakerfið væri sniðið betur að þörfum allra og bið eftir greiningum væri stytt. Auk þess bentu börnin á að bæta þyrfti þjónustu fyrir flóttafólk, strætó væri ókeypis fyrir öll börn undir 18 ára og að öll kyn fengju sömu réttindi í íþróttum. (Upplýsingar teknar af heimasíðu Umboðsmanns barna, www.umbodsmaður.is)
22.11.2023

Upplestur fyrir börn úr leikskólanum

Elsti árgangur á Skógarlandi kom í heimsókn og hlustaði á krakka úr 7. bekk lesa upp á bókasafninu. Þetta er hluti af áætlun um skólaaðlögun leikskólabarna. Sjöunda- bekkjar börnin stóðu sig með prýði og gestirnir okkar hlustuðu af athygli á lesturinn. Næsta heimsókn leikskólabarnanna er eftir áramót en þá koma þau í verkgreinatíma. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá samverustundinni.