Fréttir

21.01.2021

Vitund um velferð

Í skólanum í vetur hefur farið fram velferðarkennsla sem leggur rækt við að efla vitund nemenda um eigin velferð og hugarfar. Kennslan byggist á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði sem beinist að því að auka velsæld, efla bjartsýni og trú á eigin getu. Unnið er út frá því sjónarmiði að hamingja snúist ekki endilega um að vera alltaf ánægð og líða vel heldur að bregðast við erfiðleikum sem upp geta komið í lífinu á farsælan hátt. Þeir þættir sem unnið er með að þessu sinni eru tilfinningar og mikilvægi þeirra allra, áhrif hugsana á líðan, nemendur læra að greina styrkleika sína og annarra og hvernig áhrif hugarfars nýtist þeim til að blómstra. Einnig er heilastarfsemin skoðuð með tilliti til tilfinninga og þess að læra nýja hluti. Rannsóknir Carol Dweck hafa sýnt fram á að þegar nemendur læra um heilastarfsemina ná þeir betur að átta sig á eigin viðbrögðum og sjá frekar tilgang með námi sínu. Einnig er áhersla á mikilvægi slökunar. Elsta stigið mun hefja sitt velferðarnám í næstu viku þar sem sérstök áhersla verður á samkennd í eigin garð. Meðfylgjandi myndband er viðtal við börn í 2. bekk í fyrra sem höfðu lokið 2 vikna þemadögum um hamingjuna.
29.12.2020

Skólastarf á nýju ári

Gleðileg jól og kærar þakkir fyrir samvinnu á árinu sem er að líða. Megi nýja árið verða okkur farsælt. Þann 21. desember var birt reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem tekur gildi 1. janúar nk. og gildir til 28.febrúar. Samkvæmt henni er nú leyfilegt að blanda hópum og jafnframt leyfilegt að fara yfir 50 nemenda fjöldamörk í matsal og göngum að því tilskyldu að starfsmenn séu með grímur. Á grunni þessarar nýju reglugerðar stefnum við því að hefðbundnu skólastarfi eftir áramótin með fullan skóladag fyrir alla nemendahópa. Jafnframt geta nú allir nemendur snætt hádegisverð í mötuneyti. Frístund mun einnig starfa hefðbundið að morgni og síðdegis. Skólinn verður áfram lokaður gestum, nema með leyfi og í samráði við skólastjóra, og grímuskylda verður áfram fyrir gesti. Reglugerðina er að finna hér: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=82943967-43ae-11eb-812c-005056bc8c60 Sá fyrirvari er á þessum áformum að ef faraldurinn færist í aukana á ný og settar verða nýjar reglur um takmarkanir mun þurfa að aðlaga skólastarfið að því, en það mun þá verða tilkynnt foreldrum þann 4.janúar. Fyrsti skóladagur nemenda er þriðjudagurinn 5. janúar.
17.12.2020

Jólafrí - jólakveðja

,,Þetta er ekki árið sem þú færð allt sem þú vilt. Þetta er árið sem þú kannt að meta allt sem þú hefur“ 2020 hefur sannarlega verið öðruvísi ár. Við höfum öll þurft að aðlagast breyttum veruleika og tileinka okkur nýja siði og venjur. Jákvæðni og seigla starfsmanna og nemenda hafa skilað því að breytingar og takmarkanir á skólastarfi hafa gengið mjög vel fyrir sig. Eldri nemendur hafa nýtt takmarkaðan tíma í skólanum vel til náms og tekist hefur að halda úti fullum skóladegi hjá yngstu nemendunum. Í dag fara nemendur og starfsmenn í jólaleyfi. Skólahald hefst aftur að loknu jólaleyfi, þann 5. janúar. Enn er óljóst með hvaða hætti skólastarfið verður á nýju ári en upplýsingar um það verða sendar foreldrum í tölvupósti 4. janúar. Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Meðfylgjandi eru myndir af jólaballi á yngsta stigi sem haldið var með óhefðbundnu sniði í dag.