Fréttir

23.02.2024

Nemendastýrð samtöl

Í dag er ekki hefðbundinn skóladagur heldur koma nemendur með foreldrum og forráðafólki sínu til að ræða saman um starfið í skólanum, sýna verkefni sem þeir hafa unnið og geta spjallað við umsjónarkennara sem eru til taks. Það er alltaf gaman að fá foreldra og forráðafólk í skólann og gaman að fylgjast með krökkunum sýna verkefnin sín og segja frá því sem þau eru að fást við í skólanum. Þess utan gefst tækifæri hjá starfsfólki skólans til að sinna ýmsum verkefnum, sem ekki gefst tími til að vinna á öðrum tímum. Það þarf að taka til, flokka dót, undirbúa fyrir leikmyndagerð, flokka lestrarbækur, plasta bækur á bókasafni og margt fleira gagnlegt.
22.02.2024

Mat á skólastarfi

Í öllum skólum fer fram mat á skólastarfinu. Upplýsingum er safnað m.a. með könnunum Skólapúlsins, Íslensku æskulýðsrannsókninni, starfsmannasamtölum, með fyrirlagningu lesfimiprófa o.fl. Tilgangurinn með þessari gagnaöflun er að greina styrkleika og veikleika í skólastarfinu og gera úrbótaáætlun útfrá niðurstöðum. Matsskýrsla fyrir skólaárið 2022 - 2023 er aðgengileg á heimasíðu skólans, undir tenglinum Skólinn og þar undir Mat á skólastarfi. Efni skýrslunnar er kynnt fyrir starfsfólki og skólastjóri kynnir hana fyrir skólaráði og fjölskylduráði.
14.02.2024

Öskudagur 2024

Skólastarf var óhefðbundið í dag, á öskudaginn. Vinabekkir hittust og unnu ýmis verkefni saman; Það var dansað, spilað, puttaprjónað, spilað blöðrubadminton og margt annað skemmtilegt. Þegar dagskrá vinabekkjanna lauk fóru yngri nemendur í íþróttahúsið á samkomu sem Foreldrafélag Egilsstaðaskóla skipulagði en 5. - 10. bekkingar voru áfram í skólanum og skemmtu sér saman. Skóladegi lauk um hádegi og þá þyrptust nemendur út til að fara um bæinn og syngja. Vetrarfrí hefst svo á morgun og nemendur koma í skólann þriðjudaginn 20. febrúar.
05.02.2024

100 daga hátíð