Fréttir

28.10.2025

Undirbúningur fyrir samstarfsviðtöl

Þriðjudaginn 4. nóvember eru samstarfsviðtöl í Egilsstaðaskóla. Í einhverjum árgöngum er líka boðað í viðtöl 3. nóvember sem annars er starfsdagur í skólanum. Búið er að senda út upplýsingar til foreldra og forsjáraðila um sjálfsmat nemenda sem er undirbúningur fyrir viðtölin. Opnað verður fyrir bókanir í viðtöl miðvikudaginn 29. október kl. 8.00 og lokað á miðnætti sunnudaginn 2. nóvember. Reiknað er með um 15 mínútum fyrir hvert viðtal þar sem rætt er um líðan barnsins, ástundun, hegðun og skipulag í námi. Frístund er opin þennan dag en foreldrar þurfa að skrá börnin sérstaklega og miðast mönnun í Frístund við þá skráningu. Skólaakstur er á hefðbundnum tíma þennan dag en foreldrar eru beðnir um að láta skólabílstjóra vita ef þeir hyggjast ekki nýta sér aksturinn. Kennsla hefst svo aftur miðvikudaginn 5. nóvember.
20.10.2025

Opið hús og bleikur dagur

Miðvikudaginn 22. október er opið hús i skólanum. Foreldrar og forsjáraðilar eru velkomnir í skólann til að kynna sér skólastarfið. Dagurinn er einnig helgaður vitundarvakningu um krabbamein og nemendur og starfsfólk hvatt til að klæðast bleiku til að lýsa upp skammdegið.
09.10.2025

Sjöttubekkingar heimsækja Seyðisfjörð

Nemendum í 6. bekk var boðið í heimsókn í Skaftfell á Seyðisfirði. Auk þess að skoða myndir eftir Kjarval og fá fræðslu um hann fóru krakkarnir á Tækniminjasafnið og skoðuðu ýmsa muni sem þar eru varðveittir. Þau voru brosmild og sungu á leiðinni heim í rútunni enda góður föstudagsmorgunn á Seyðisfirði.