Fréttir

Hér áður fyrr

Hefð er orðin fyrir því hér í skólanum að nemendur 4. bekkjar vinni að samþættu landnámsverkefni í samstarfi umsjónar- og verkgreinakennara. Þessi vinna hefur staðið yfir meira og minna frá áramótum. Í vikunni var svo sýning og kynning á verkefninu sem foreldrar nemenda í fjórða bekk fengu að njóta. Umsjónarkennarar sinntu öllu sem snéri að bóklega þættinum, börnin fræddust um landmótun frá grunni, horfðu á mynd um eldgosið í Surtsey og landnám plantna og dýra þar. Mikið var rætt um landmótun og hvaða dýr hafa numið land á og við Ísland – hver eru innlend og hver innflutt. Svo var lesið um landnám Íslands, hvaða ástæður lágu að baki brottflutningi fólks og hvers vegna menn ákváðu að setjast að á Íslandi. Nemendur kynntu sér víkingaskip og gerðu líkön, unnu með nokkra landnámsmenn, kynntu sér húsakost landnámsmanna. Stórt Íslandskort var málað. Allir bjuggu til sinn landnámsmann sem fékk svo pláss í víkingaskipunum sem gerð voru. Einnig voru gamlir þjóðhættir kynntir og til dæmis farið í verklag fyrri tíma, gamla tímatalið, gamla leiki, siði og hefðir. Í verkgreinum bjuggu nemendur til viskuskrín, bjuggu til bók með ýmiskonar viskukornum, fræddust um galdra og galdrastafi, bjuggu til galdrastein, skoðuðu rúnaletur og æfðu sig að skrifa það. Viskuskrínin eru lítil box unnin úr viði og skreytt með höfuðstaf á leðurbút sem nemendur teiknuðu og skreyttu eftir eigin höfði. Í skrínin fóru síðan ýmsir hlutir sem tengdust fræðslunni. Í myndmennt bjuggu nemendur einnig til víkingaskip úr leir. Í heimilisfræði fengu nemendur fræðslu um matargerð og geymslu matvæla fyrr á öldum. Smökkuðu á þorramat og mysudrykk. Lærðu að steikja parta og laufabrauð sem og lummur. Á sýningunni var boðið upp á parta með smjöri og eplasafa.
Lesa meira

Ég er UNIK

Skólinn í samstarfi við foreldrafélagið og aðra grunnskóla á Héraði standa fyrir foreldrafundinum Ég er UNIK mánudaginn 25. mars kl.17 í fyrirlestrarsal skólans. Foreldrar eru hvattir til þess að láta ekki þetta tækifæri fram hjá sér fara.
Lesa meira

Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Egilsstaðaskóla miðvikudaginn 13. mars sl. Tíu nemendur í sjöunda bekk, úr fimm skólum á Austurlandi – norðursvæði, höfðu unnið sér inn þátttökurétt á hátíðinni sem var haldin með mikilli viðhöfn. Keppnin fór af stað í 23. sinn á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember síðastliðinn og hafa nemendur lagt sérstaka rækt við upplestur og framsögn í aðdraganda keppninnar. Nemendur komu því vel undirbúnir og lögðu mikinn metnað í flutning sinn sem gerði dómurum keppninnar erfitt fyrir að velja þrjá nemendur sem þóttu skara framúr. Það er ánægjulegt að segja frá því að nemendur Egilsstaðaskóla hlutu fyrstu þrjú sæti keppninnar. Í fyrsta sæti var Björg Gunnlaugsdóttir, í öðru sæti var Áslaug María Þórðardóttir og í þriðja sæti var Eyþór Magnússon.
Lesa meira

Heilsu- og hreyfidagar

Í þessari viku standa yfir Heilsu- og hreyfidagar í Egilsstaðaskóla. Nemendur gera sér glaðan dag í íþróttahúsinu undir stjórn íþróttakennara. Alla morgna er boðið upp á hafragraut fyrir skóladaginn og er gaman að sjá hversu margir nemendur mæta og eiga góða stund yfir heitum grautnum. Á morgun fimmtudag munu nemendur í 7. bekk í heimilisfræði ganga í bekki og bjóða upp á heilsudrykk. Einnig er búið að setja upp hreyfiþrautir sem nemendur geta spreytt sig á þegar þeir fara út úr skólastofunum. Lífshlaupið hófst í dag og eru nemendur og starfsfólk skráð til leiks. Nemendur þurfa að hreyfa sig minnst 60 mínútur á dag. Þeir skrá hreyfinguna sína á blað sem búið er að hengja upp í heimastofum þeirra. Það verður spennandi að sjá hvaða árgangur verður duglegastur að hreyfa sig í skólanum og einnig að sjá hvort nemendur nái að skáka starfsfólkinu sem ætlar sér stóra hluti í keppninni.
Lesa meira

Skákdagurinn

Skákdagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land laugardaginn 26. janúar. Hér í Egilsstaðaskóla var deginum flytt fram á Þorradag. Raðað var upp á átta taflborðum í matsalnum þannig að nemendur gætu teflt þegar þeim hentaði. Þetta kom vel út og þátttaka var mjög góð.
Lesa meira

Gleðileg jól

Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Við hlökkum til að sjá ykkur hress á nýju ári.
Lesa meira

1.desember – 100 ára fullveldisafmæli

Þar sem fullveldisdaginn 1. desember bar upp á laugardag þetta árið var haldið upp á daginn föstudaginn 30.nóvember í Egilsstaðaskóla. Nokkrar hefðir eru tengdar deginum s.s. að nemendur og starfsmenn mæta í sínu fínasta pússi í skólann og dagskrá er á sal þar sem formaður nemendaráðs ávarpar nemendur í tilefni dagsins.
Lesa meira