Ýkt elding

Tugir unglinga stigu á svið á árshátíð elsta stigs Egilsstaðaskóla í vikunni. Undanfarnar vikur hafa lögin úr söngleiknum Grease hljómað um ganga skólans og víða var verið að undirbúa allt það sem þarf á sýningu sem þessari; Það þurfti að smíða bekki fyrir sviðsmyndina, mála barinn, finna til búninga, mála sviðsmyndina, gera árshátíðarstafina, æfa dansa og söngva, æfa senur, koma hljóði í lag, æfa hljómsveit og hanna lýsinguna. Allt þetta hafa krakkarnir verið að gera í aðdraganda sýningarinnar ásamt öllum kennurum á unglingastigi en auk þeirra aðstoðuðu list- og verkgreinakennarar við sviðsmynd. Húsvörður skólans, Þórarinn Bjarnason aðstoðaði við smíði á leikmynd og uppsetningu á henni. Leikstjóri sýningarinnar var Hrefna Hlín Sigurðardóttir kennari en árshátíðin var samvinnuverkefni allra sem koma að unglingastiginu.
Tónlistarskólinn á Egilsstöðum aðstoðaði við að æfa söng og undirleik. Þeim kennurum og nemendum tónlistarskólans, sem spiluðu með hljómsveitinni, þökkum við innilega fyrir samstarfið.