Vitund um velferð

Í skólanum í vetur hefur farið fram velferðarkennsla sem leggur rækt við að efla vitund nemenda um eigin velferð og hugarfar. Kennslan byggist á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði sem beinist að því að auka velsæld, efla bjartsýni og trú á eigin getu. Unnið er út frá því sjónarmiði að hamingja snúist ekki endilega um að vera alltaf ánægð og líða vel heldur að bregðast við erfiðleikum sem upp geta komið í lífinu á farsælan hátt. Þeir þættir sem unnið er með að þessu sinni eru tilfinningar og mikilvægi þeirra allra, áhrif hugsana á líðan, nemendur læra að greina styrkleika sína og annarra og hvernig áhrif hugarfars nýtist þeim til að blómstra. Einnig er heilastarfsemin skoðuð með tilliti til tilfinninga og þess að læra nýja hluti. Rannsóknir Carol Dweck hafa sýnt fram á að þegar nemendur læra um heilastarfsemina ná þeir betur að átta sig á eigin viðbrögðum og sjá frekar tilgang með námi sínu. Einnig er áhersla á mikilvægi slökunar. Elsta stigið mun hefja sitt velferðarnám í næstu viku þar sem sérstök áhersla verður á samkennd í eigin garð.

Meðfylgjandi myndband er viðtal við börn í 2. bekk í fyrra sem höfðu lokið 2 vikna þemadögum um hamingjuna.