Útivistardagur í 5.-7. bekk

Þann 30. mars síðastliðinn var útivistardagur hjá nemendum í 5.-7. bekk.

Nemendum stóð til boða tveir kostir sem þeir þurftu að velja fyrirfram. Annað var gönguferð í Finnsstaði í Eiðaþinghá með Þórdísi Kristvinsdóttur, leiðsögumanni og Hildi Bergsdóttur, útivistarþjálfara. Hitt var skíða-, bretta- og/eða sleðaferð í Stafdal.

Hópur 40 nemenda gekk sem leið lá eftir stíg meðfram Eyvindaránni í Finnsstaði. Á Finnstöðum var hægt að klappa hestum, kanínum og naggrísum og þeim gefið salat og gulrætur auk þess sem farið var í ævintýraratleik. Í skógarrjóðrinu á staðnum var tálgað, poppað og grillað góðgæti. Góður dagur í ævintýralandinu á Finnsstöðum. Á sama tíma fóru rúmlega 70 nemendur í rútu í Stafdal. Sumir alvanir brekkunum á meðan aðrir stigu í fyrsta skipti á skíði eða snjóbretti. Skíðakennari var á staðnum til að leiðbeina nýliðum. Það var gaman að sjá hvað nemendur voru tilbúnir að láta vaða og standa alltaf upp aftur eftir ítrekuð föll. Seiglan!

Veðrið var eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Dúnalogn og nokkrir sólargeislar náðu í gegnum skýin á tímabili.

Heilt yfir frábær dagur hjá okkar fólki. Ánægjan skein úr andlitum nemenda og greinilega kærkomið að fara aðeins út úr skólanum og stunda nám af öðrum toga en gengur og gerist hversdags. Hér eru nokkrar myndir sem fanga augnarblikin.