Útivistardagur í 5.-7. bekk

Þann 23. mars síðastliðinn var útivistardagur í 5. – 7. bekk . Nemendum stóð til boða tveir valkostir sem þeir þurftu að velja fyrirfram. Annað var gönguferð í Taglarétt með Þórdísi Kristvinsdóttur, leiðsögumanni. Hópur 35 nemenda gekk sem leið lá að Miðhúsum og þaðan í Taglarétt. Gamla réttin var skoðuð og nesti borðað. Staldrað við hjá Klofasteini og athugað með kökur sem hefð er fyrir að álfkonan sem þar býr bjóði upp á fyrir duglegt göngufólk á göngudaginn í 2. bekk. Því miður átti álfkonan ekki von á gestum þennan dag og því engar kökur í boði fyrir vonsvikna göngugarpa. Að lokinni göngu var látið líða úr sér í sundlauginni á Egilsstöðum. Á sama tíma fóru rúmlega 70 nemendur með rútu frá Egilsstaðaskóla í Stafdal. Sumir alvanir brekkunum á meðan aðrir stigu í fyrsta skipti á skíði eða snjóbretti. Skíðakennari var á staðnum til að leiðbeina nýliðum. Það var gaman að sjá hvað nemendur voru tilbúnir að láta vaða og standa alltaf upp aftur eftir ítrekuð föll. Seiglan!

Veðrið var eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Datt í dúnalogn, fljótlega eftir að lagt var af stað og nokkrir sólargeislar náðu í gegnum skýin á tímabili.

Heilt yfir frábær dagur hjá okkar fólki. Ánægjan skein úr andlitum nemenda og greinilega kærkomið að fara aðeins út úr skólanum og stunda nám af öðrum toga en gengur og gerist hversdags.