Útivistardagur í 1. - 4. bekk

Krakkarnir í 1. - 4. bekk unnu ýmis verkefni og þrautir í dag á útivistardeginum sínum. Fjölbreyttar stöðvar voru settar upp í samvinnu við Náttúruskólann í næsta umhverfi skólans. Á stöðvunum var t.d. tálgað og svo skreyttir töfrasprotar, vatnslitað, farið í kubb og æfðir hnútar. Uppi í skólarjóðrinu voru steiktar lummur og poppað yfir eldi. Í Tjarnargarðinum æfðu krakkarnir frisbee-golf og tóku einnig þátt í víkingaleikjum sem var unnið í samstarfi við Minjasafn Austurlands. Á einni stöð var farið á hestbak og á annarri stöð var Hildur Bergsdóttir mætt með býflugurnar sínar, sem voru enn í vetrardvala.. Auk þess skoðuðu krakkarnir ýmis undur náttúrunnar í víðsjám og með stækkunargler. Það voru glaðir krakkar sem komu inn í hádegismat að dagskránni lokinni.