Þriðji bekkur í Náttúruskólanum

Náttúruskólinn var formlega stofnaður árið 2022 af hópi náttúru- og útivistarunnenda í Múlaþingi. Hópurinn hefur í mörg ár haldið námskeið en hlutverk Náttúruskólans er að efla börn og ungmenni til umhyggju og árvekni gagnvart sjálfum sér og náttúrunni og bjóða upp á áskoranir og skapandi tækifæri til reynslunáms. Í skólanum er lögð áhersla á útivist, átthagafræðslu, heilbrigðan lífsstíl, samskipti og samvinnu. 
Múlaþing gerði samning við Náttúruskólann um að tveir árgangar sæktu námskeið í skólanum og í liðinni viku fóru nemendur í 3ja bekk inn í Eyjólfsstaðaskóg þar sem ýmislegt var brasað. Skólinn hefur aðstöðu í Blöndalsbúð og rjóðrinu rétt hjá. Krakkarnir lærðu að tálga, búa til klifurgrind, baka lummur og fóru í gönguferðir í skóginum. Það voru einbeitt börn sem lögðu sig fram í verkefnunum og virtust njóta þessarar tilbreytingar frá hefðbundnu skólastarfi.
Í október mun 9. bekkur fara í Óbyggðasetrið á vegum Náttúruskólans. Sagt verður frá því þegar þar að kemur.