Sóttkví og smitgát

Frá og með miðnætti tóku gildi nýjar reglur varðandi sóttkví og smitgát. Nú eru börn á grunnskólaaldri undanþegin reglum um smitgát og sóttkví ef smit er utan heimilis. Þetta gæti þýtt að smitum muni fjölga í skólum.

Reglugerð um takmarkanir á skólastarfi er enn í fullu gildi fram í næstu viku og því eru engar breytingar hér innanhúss enn sem komið er. Við höfum fengið samþykki fyrir því að skipta matsalnum í tvö hólf sem þýðir að allir árgangar utan 2. og 5.bekkjar matast í matsal. 2. og 5. bekkur matast í kennslustofum.

Áfram gildir að senda nemendur ekki í skólann finni þeir fyrir einkennum. Hafi nemendur farið í einkennasýnatöku, geta þeir mætt í skólann með kvefeinkenni. Athugið að hraðpróf nægir ekki ef einkenni eru til staðar.

Töluvert álag er í skólanum þessa dagana m.a. vegna sóttkvíar og sýnatöku, ofan á annað álag svo sem veikindi. Við höfum því gripið til þess í auknum mæli að fella niður einstaka kennslustundir hjá bekkjum og stytta daga hjá bekkjum á efra miðstigi og elsta stigi. Ég á von á því að svo verði áfram á meðan að þetta ástand varir.

Stjórnendur skólans eru þakklátir fyrir skilning foreldra og forráðamanna, og gott samstarf um það stóra verkefni að halda skólastarfi gangandi þessar vikurnar og við vonum áfram að allt fari hér á besta veg.