Skóli án síma gefur gæðatíma

Um síðustu áramót varð Egilsstaðaskóli símalaus skóli. Þar með var nemendum ekki heimilt að vera með farsíma í skólanum, hvorki í kennslustundum eða frímínútum. Fyrsta misserið var látið reyna á að krakkarnir geymdu símana í töskum eða yfirhöfnum ef þau komu með símana í skólann. Þetta hefur svo reynst ýmsum erfitt og starfsfólk verður vart við að það fjölgar þeim nemendum sem eru með símana á lofti, sérstaklega í frímínútum.

Þeir nemendur, í 7. - 10. bekk, sem velja að koma með síma í skólann þurfa frá og með mánudeginum 23. september að skila símanum í símabox í upphafi skóladags. Símarnir eru svo afhentir í lok skóladags. Símakassarnir verða geymdir í lokuðum skáp á starfsmannagangi. Ef nemendur þurfa að hringja þá er alltaf hægt að óska eftir að hringja hjá ritara eða fá leyfi hjá kennara til að hringja úr kennslustofum.
Stöðugt fleiri rannsóknir sýna skaðleg áhrif mikillar farsímanotkunar, þá sérstaklega notkun samfélagsmiðla, á líðan barna og ungmenna og sömuleiðis á lestrarfærni. Það skiptir því miklu máli að samstaða sé milli heimila og skóla um að draga úr þeim tíma sem börn nota síma og samfélagsmiðla.

Eins og áður er nemendum í 1. - 6. bekk ekki heimilt að koma með síma í skólann. 
Meðfylgjandi eru myndir af símakössunum og þeim skilaboðum sem nemendur fá um símalausan skóla.