Minningarorð

Mig langar í fáum orðum að minnast Birnu Bjarkar Reynisdóttur, kennara, sem lést 15. október sl. eftir erfið veikindi. Birna hóf störf við Egilsstaðaskóla haustið 2002 snemma á kennsluferli sínum. Hún var fljót að finna sig í kennslunni og með nemendum. Styrkur hennar sem kennara lá meðal annars í góðum tengslum við nemendur, en Birna lagði sig fram um að ná til nemenda sinna, mæta þeim í náminu og vera talsmaður þeirra. Hún starfaði allan sinn kennsluferil sem umsjónarkennari nemenda á elsta stigi skólans.

Birna var í farabroddi ásamt samstarfskennurum sínum við mótun skólastarfsins á elsta stigi. Meðal þeirra verkefna sem hún lagði sig fram um, var að efla sviðslistir og leiklist í skólastarfinu. Þegar skólinn eignaðist leiksvið með nýbyggingu árið 2009, fór leiklistarstarfið á flug. Tekið var upp samstarf við Tónlistarskólann á Egilsstöðum og hafa árlega verið settar upp metnaðarfullar leiksýningar sem leikstýrur úr hópi kennara hafa stýrt og fjöldi eldri nemenda tekið þátt í. Birna kenndi einnig leiklist í vali og hafði mikla trú á mikilvægi tjáningar fyrir þroska og sjálfsmynd einstaklingsins. Hún var ein af þeim sem hvatti til og hafði umsjón með þátttöku skólans í Þjóðleik, sem er samstarfsverkefni á vegum Þjóðleikhússins og hóf göngu sína árið 2008 á Austurlandi. Markmiðið með verkefninu er meðal annars að efla fagþekkingu í leiklist í skólum.

Lokaverkefni nemenda í 10. bekk er annað verkefni sem Birna ásamt samkennara sínum hafði frumkvæði að innan skólans. Ákveðin fyrirmynd var að verkefninu, en það felst í því að nemendur í 10. bekk vinna stórt áhugasviðsverkefni sem reynir á margvíslega hæfni. Verkefnum er skilað með kynningum. Þetta verkefni er vaxtarbroddur innan skólans, sem hefur haft veruleg áhrif á mótun kennsluhátta í átt að einstaklingsbundnu vali nemenda á viðfangsefnum.

Síðasta veturinn sem Birna starfaði var hún leiðsagnarkennari kennarnema í verknámi við skólann. Hún hafði brennandi áhuga á því starfi og hafði hug á að mennta sig frekar á þeim vettvangi.

Fyrir okkur samstarfsfólkið gat Birna verið sannkölluð gleðisprengja, sem með smitandi hlátri og húmor hafði hressileg áhrif á starfsandann. Það fór ekki heldur fram hjá okkur stjórnendum þegar Birnu þótti við ekki hafa staðið okkur í stykkinu, en gagnrýni hennar kunni ég einnig að meta. En fyrst og fremst var Birna stór og gefandi persónuleiki, sem litaði vinnustaðinn sínum litum. Þess fengum við að njóta bæði nemendur og starfsmenn.

Fráfall Birnu Bjarkar er mikill missir fyrir skólasamfélagið. Þar er genginn hæfur og reynslumikill kennari og gefandi manneskja, sem lagt hefur mikið af mörkum við mótun skólastarfsins í Egilsstaðskóla. Þakklæti er okkur í skólanum efst í huga á þessum sáru tímamótum. Við stöndum vanmáttug frammi fyrir þeirri staðreynd að ung kona hefur fallið frá fjölskyldu og starfsvettvangi.

Fyrir hönd starfsmanna Egilsstaðaskóla votta ég Haraldi Geir og drengjunum, Viktori Óla, Bjarka Má og Óttari Jóel ásamt fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð. Minning um einstaka konu mun lifa í skólastarfinu og í hjörtum okkar.

Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla