Hvaða kröfur gera framhaldsskólar til nemenda sem hefja þar nám?

Þessi spurning kviknar gjarnan hjá nemendum í 9. og 10. bekk enda stefna þau flest á frekara nám eftir grunnskóla. Leiðirnar eru margar og það getur verið gott fyrir unglinga að kynna sér inntökuskilyrði á brautir og stefna þá á ákveðin markmið í efri bekkjum grunnskóla.

Kennarar á elsta stigi í Egilsstaðaskóla funduðu með áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa Menntaskólans á Egilsstöðum í haust til að ræða hvernig nemendur geta undirbúið sig fyrir framhaldsskólann og hvaða inntökuskilyrði eru á mismunandi brautir.

Einnig var haft samband við áfangastjóra Verkmenntaskóla Austurlands vegna þessa. Í framhaldinu var sett saman stutt kynning sem varpa vonandi einhverju ljósi á það hvað bíður krakkanna þegar þau hefja nám í framhaldsskóla. Kynninguna má sjá hér.

Náms- og starfsráðgjafar framhaldsskóla aðstoða nemendur gjarnan við að velja brautir og áfanga við upphaf framhaldsskólagöngunnar og sömuleiðis kynna náms-og starfsráðgjafar grunnskóla framhaldsnám fyrir elstu krökkunum.

Það hjálpar krökkum að ræða málin við foreldra, fjölskyldu og vini því það getur reynst þeim erfitt að ákveða hvert þau vilja stefna. Margar leiðir eru í boði og tækifærin óteljandi!  Það er bara að finna sína réttu hillu.