Hreyfidagar

Vikuna 8.-12. febrúar voru heilsu- og hreyfidagar í Egilsstaðaskóla.

Þessa daga var lögð áhersla á hreyfingu og heilsu í skólastarfinu. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa hreyfingu meiri gaum og hreyfa sig með fjölbreyttum hætti í skólastarfinu og huga að heilsu og vellíðan hvort sem það var með gönguferðum, útileikjum, slökun, stofuleikfimi, dans eða með öðrum hætti. Það var vinsælt að fara út að renna, á skauta og lengdar frímínútur nýttar í gönguferðir og aukatíma á fót- og körfuboltavelli. Á öllum stigum var notast við myndbönd Lazy monster fyrir stofuleikfimi og dansað með just dance.

Hafragrautur var í boði á morgnana fyrir nemendur og starfsmenn í matsal skólans og voru allt upp í 100 manns sem nýttu sér það á degi hverjum. Krafthræra, sem nemendur í sjöunda bekk útbjuggu í heimilisfræði var í boði fyrir alla nemendur og starfsmenn. Krafthræra er nýtt íslenskt orð yfir ávaxtaboost.

Því miður þurfti að fresta hefðbundnu bekkjarmóti í íþróttahúsi, þar sem aðeins mátti vera með 50 nemendur í hóp sökum heimsfaraldurs. Stefnt er á að halda það mót um leið og takmörkunum verður aflétt. Þess í stað fóru allir bekkir í Tarzanleik í íþróttum.

Rætt var við nemendur um gildi hreyfingar, slökunar, svefns, útiveru, mataræðis og þeirra þátta sem almennt snerta heilsu og vellíðan okkar.

Starfsmenn skólans fengu leiðsögn á gönguskíðum ásamt hugleiðslu og slökun í vikulokin.