Fjársjóðskistur, spilagerð, heimabyggð, stríðsárin og margt fleira

Í vikunni voru þemadagar í Egilsstaðaskóla. Viðfangsefni krakkanna voru fjölbreytt og unnin bæði innan skólans og utan.

Á miðstigi gerðu nemendur sér fjársjóðskistur sem þau söfnuðu í hlutum sem skiptu þau máli. Þau gerðu einnig sólir sem sýndu hvað fær þau til að skína. Einlægni og þakklæti einkenndi þessi verkefni og það var einstakt að sjá hversu fjölbreyttar fjársjóðskisturnar voru. Í þeim mátti m.a. sjá handprjónaðar peysur, fyrstu skóna, verðlaunapeninga, myndir af látnum gæludýrum, tyggjópoka, vegabréf og margt margt fleira.
Níundi bekkur heimsótti stríðsárasafnið á Reyðarfirði og brugðu sér svo yfir á Eskifjörð. Áttundi bekkur hannaði spil frá grunni og foreldrum var svo boðið að koma og skoða og spila spilin. Gaman að sjá foreldra og börn leika sér saman við fjölbreytta spilamennsku.
Á yngri stigum var farið í ýmsar vettvangsferðir og fræðst um heimahagana. Veðrið lék við nemendur og starfsfólk þessa daga sem voru hressandi uppbrot nú þegar styttist mjög í skólalok.