Vinaliðar

Egilsstaðaskóli er þátttakandi í verkefni sem kennt er við Vinaliða, en að þessu sinni eru 41 barn í skólanum sem sinnir hlutverkinu. Um er að ræða verkefni sem stuðlar að forvörnum gegn einelti á skólalóðinni. Aðalmarkmið verkefnisins er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum fyrir hádegi. Nemendur í 4. til 7. bekk ásamt umsjónarkennurum velja einstaklinga úr bekkjunum sem fá hlutverk vinaliða en þeir hafa umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og ganga frá eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki Vinaliða starfar í u.þ.b 3 mánuði í senn. Hver vinaliði vinnur að verkefninu í frímínútunum fyrir hádegi einu sinni í viku. Hann mætir einnig á fundi, aðra hverja viku, þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að Vinaliði geti ekki verið valinn aftur, bekkjarfélagar tilnefna þá nemendur sem þeim finnst passa í starfið hverju sinni. Við val á Vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýna öðrum nemendum virðingu.

Í lok hvers tímabils er vinaliðunum boðið upp á þakkarferð þar sem reynt er að gera sér góðan dag. Það sem meðal annars hefur gert til að þakka nemendum fyrir vel unnin störf er bíó og sundferð á Seyðisfjörð, ratleikur í Hallormsstaðaskógi, hjóla – og leikjaferð á Egilsstöðum, skíðadagur í Stafdal, baðferð í Vök svo eitthvað sé nefnt. Þá enda allar þakkarferðir á máltíð, oftast pizzaveislu. Þar að auki fá vinaliðarnir afsláttarkort þar sem þau geta nýtt sér góða afslætti, bæði innan sveitarfélagsins og utan. Undanfarin 2 ár hafa nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu verið svo góð að styðja við verkefnið með því að gefa krökkunum afslátt og færum við þeim bestu þakkir fyrir það.

Verkefnastjórar vinaliðaverkefnisins í Egilsstaðaskóla skólaárið 2020 til 2021 eru Fjóla Hrafnkelsdóttir og Thelma Snorradóttir.