Allir jafnir í Ávaxtakörfunni

Það er fallegur og góður boðskapur í leikritinu Ávaxtakarfan, sem nemendur í 5. - 7. bekk sýndu á árshátíð sinni í vikunni. Allir eiga jafnan rétt og eru jafn mikilvægir hvort sem þeir eru ávextir, ber eða ávextir! Undirbúningur árshátíðarinnar hefur staðið í nokkrar vikur og fyrst og fremst i höndum umsjónarkennara. Aðrir hafa þó lagt hönd á plóg enda er margt sem þarf að hafa tilbúið þegar svo viðamikil sýning er sett á svið. Kennarar saumuðu búninga, húsvörður aðstoðaði við gerð sviðsmyndar, list- og verkgreinakennarar komu að gerð sviðsmyndar auk þess sem starfsfólk skólans aðstoðaði nemendur við að læra á og stjórna hljóði og ljósum.
Kennarar við Tónlistarskólann á Egilsstöðum mynduðu hljómsveit sem spilaði undir í nokkrum lögum ásamt því að hafa æft krakkana í sönglögum.
Það er mikill lærdómur fyrir alla að taka þátt í að setja leikrit á svið og oft reynir á í undirbúningsferlinu. Við erum afskaplega stolt yfir því hve vel krakkarnir stóðu sig á sýningunni. Meðfylgjandi eru myndir sem starfsfólk tók á sýningunni en líka myndir sem Unnar Erlingsson tók á generalprufu og leyfði okkur að nota fyrir heimasíðuna.