100 daga hátíð

Í Egilsstaðaskóla er hefð fyrir svokallaðri 100-daga-hátíð fyrir nemendur í 1. bekk. Þá er haldið upp á það að krakkarnir hafa verið í skólanum í 100 daga. Hátíðin var undirbúin með því að búnar voru til veifur og skrifað á 100 hjörtu það sem krakkarnir hafa lært þessa fyrstu 100 daga. Hjörtun mynda töluna 100 á veggnum fyrir framan stofur 1. bekkjar. Í litlum hópum voru gerðar tilraunir með að skrifa 100 orð á blað. Krakkarnir útbjuggu medalíur sem á stóð „100 dögum klárari“ og skreyttu með einum tug af perlum.
Á hátíðinni sjálfri mátti koma með dót að ósk hvers og eins. Þá teiknuðu krakkarnir mynd af sér þegar þau væru orðin 100 ára og skrifuðu þrennt sem þau ætla að vera búin að gera þegar þau verða 100 ára. Það voru búin til 100 skrímsli og síðast en ekki síst fengu allir að telja sér 10 einingar af 10 tegundum af góðgæti í poka, sem þau gæddu sér á yfir bíómynd í lok dags.