,,Þetta vilja þau"

Nýlega kom út skýrsla forvarnardagsins 2020. Á forvarnardeginum sem haldinn hefur verið árlega í október síðan 2006, ræða nemendur sín á milli niðurstöður úr rannsóknum ,,ungt fólk“ sem Rannsóknir og greining hefur unnið undanfarin 20 ár á högum og líðan ungmenna. Spurningarnar varða samverustundir fjölskyldunnar, þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi, auk spurninga sem tengjast áfengis- og vímuefnaneyslu. Spurningarnar voru lagðar fyrir og ræddar í umræðuhópum. Tilgangurinn var að fá fram sjónarmið unglinganna sjálfra og hlusta á skoðanir þeirra og reynslu af ofangreindum málefnum.

Helstu niðurstöður voru þær að þvert á það sem margir gætu talið að þá eru unglingar alls ekki á móti því að verja tíma með fjölskyldu sinni. Flestir gera sér fulla grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir fjölskyldur í öllum myndum að taka sér tíma til þess að viðhalda tengslum og gagnkvæmu trausti. Þessi samvera getur verið á ýmiskonar formi, hvort sem það sé að horfa saman á góðamynd, spila, fara saman í útilegu eða einfaldlega setjast niður sem fjölskylda, borða saman og ræða daginn og veginn. Aðalatriðið er samveran. Þegar kemur að því hversu miklum tíma á að verja saman þá er að mati unglinganna, ekkert eitt rétt svar. Almennt eru þau þó sammála um að það sé mikilvægt að finna tíma daglega til þess að vera saman þó að dagskrá unglinga og foreldra í kringum vinnu og tómstundir séu oft þétt skipaður.

Að mati nemendanna að þá er íþrótta- og tómstundarstarf mikilvægur vettvangur fyrir unglinga þar sem þau geta hitt vini sína, kynnast nýju fólki með sameiginleg áhugamál og haldið sér í líkamlega góðu formi. Mörgum finnst þó að þátttaka í slíku starfi geti verið full dýr og kalla einnig eftir meiri kynningu fyrir börn og unglinga svo fleiri geti tekið þátt. Áhersla á keppni og árangur í íþróttastarfi getur stundum verið fullmikil að mati sumra, þar sem að þeim finnst mikilvægi þess að haf abara gaman stundum gleymast og aðstaða í sumum tilfellum gæti verið betri. Þrátt fyrir þetta eru langflestir meðvitaðir um forvarnargildi skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs og þau jákvæðu áhrif sem að slík starf hefur á líkamlegt og andlegt heilbrigði.

Unglingarnir eru alveg með að á hreinu hvað það er sem að skiptir máli til þess að lifa heilbrigðu lífi. Góður svefn, hollt mataræði og hreyfing stuðla að líkamlegu heilbrigði og samvera með góðum vinum og fjölskyldu er lykillinn að andlegri vellíðan. Hinsvegar sé slæmur félagsskapur og notkun áfengis og vímuefna ávísun á óheilbrigðan líkama og slæma andlega heilsu. Að þeirra mati er félagsþrýstingur oftast neikvæð pressa frá jafningjum á að gera eitthvað sem að þau vilja ekki gera. Oftar en ekki snerist sú pressa að áfengis-eða vímuefnanotkun en þó voru ekki allir sammála um að félagsþrýstingur væri alltaf neikvæður.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að lesa hér.