Minnkum sóun

Nemendur 6. bekkjar unnu á dögunum skemmtilegt verkefni þar sem þeir kynntu sér matarsóun og með hvaða leiðum við getum minnkað hana. Þeir unnu í hópum og útbjuggu kynningu sem þeir fluttu fyrir áhugasama nemendur 1.-5. bekkjar. Með því vildum við vekja alla til umhugsunar um þá sóun sem felst í því að leifa mat.

Á tveggja vikna tímabili vigtuðu nemendur hve mikill matur fór til spillis í matsal skólans í matartímum yngsta stigs og miðstigs, þ.e. hve mikill matur var skafinn af diskunum eftir matartímann. Fyrri vikuna vissu aðeins nemendur 6. bekkjar af vigtuninni en fyrir þá seinni höfðu hóparnir haldið kynningar um matarsóun fyrir 1. – 5. bekk. Nemendur í þessum bekkjum voru því meðvitaðir um vigtunina og að fá sér aðeins minna á diskinn og fara frekar oftar. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og leifðu mun minni mat seinni vikuna eða 21,25 kg á móti 31,85 kg í þeirri fyrri.

Allir hópar unnu svo með niðurstöður vigtunarinnar í Excel töflureikni og gerðu súlurit sem sýnir vel mun milli vikna. Að lokum voru gerð veggspjöld sem hengd voru um skólann til að sýna niðurstöður vigtunarinnar til að minna alla á að gera sitt besta og sóa ekki mat að óþörfu.