Heimsóknir leikskólabarna

Á hverjum vetri koma börn úr elsta árgangi leikskólans Tjarnarlands í heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Markmiðið er að börnin fái innsýn í ákveðna þætti í skólastarfinu smám saman og aðlagist þannig tilhugsuninni um að byrja í 1. bekk. Í dag sótti hluti árgangsins tíma í list- og verkgreinum en áður hafa þau komið á bókasafnið og eldri nemendur hafa lesið fyrir þau. Eftir er heimsókn í íþróttatíma og í vor koma þau hluta úr degi í skólann og sjá þá kennslustofurnar sem þau koma til með að vera í.