Breytingar í tengslum við matartíma nemenda

Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla að velferð og vellíðan nemenda enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skólanum. Egilsstaðskóli er heilsueflandi grunnskóli, en markmið þess verkefnis er að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana hluta af dagslegu starfi. Í aðalnámská grunnskóla er lögð áhersla á að huga að uppeldis- og félagslegu gildi máltíða meðal annars með því að skapa ró í matartímum og draga þar úr streituvöldum eins og hægt er. Jafnframt er lögð áhersla á að fullorðnir borði með börnum og unnið sé markvisst að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. 

Nemendum í Egilsstaðskóla fer fjölgandi. Fjölmennið getur skapað aukið álag fyrir nemendur, s.s. í matsal. Skólinn hefur brugðist við með því að vera með mismunandi tímasetningar fyrir aldursstigin sem verður til þess að færri nemendur eru í frímínútum eða matsal í einu. Síðasta ár var hætt með skólabjöllu til að fækka streituvöldum og nú er lagt upp með nýtt fyrirkomulag í matsal til þess að skapa meiri ró í kringum matartíma nemenda og líta á þá sem hluta af náminu í skólanum. Matarsóun hefur verið til umræðu og hvaða leiðir hægt er að fara til að draga úr henni. Með því að lækka steitustig ætti það einnig að draga úr matarsóun.

Helstu markmiðin með breytingum á fyrirkomulagi eru:

· Að matartíminn verði ánægjulegur og endurnærandi hluti af skóladeginum fyrir alla.

· Að skapa aukna ró í matsal með því að færri borða þar í einu og að hópar komi á mismunandi tímum í matsalinn til að forðast að biðraði myndist við skömmtunarborð.

· Að líta á matartímann sem hluta af námi í skólanum.

· Að nægur tími sé fyrir alla nemendur til að borða ( 25 mín)

· Að draga úr áhrifum frímínútna á matartíma, þ.e. að nemendur gefi sér tíma til að borða í stað þess að keppast við að komast út. 

· Að draga úr matarsóun.

Leiðir:

· Að endurskoða stefnu varðandi matsalinn og hlutverk starfsmanna í matsal með þátttöku starfsmanna.

· Að tekinn sé hluti af kennslutíma undir matartíma. (á við yngsta- og miðstig).

· Að hagræða fyrirkomulagi frímínútna þannig að sem minnst álag sé á göngum og í matsal vegna fjölda.

· Nemendur skammti sér sjálfir.

· Að setja upp hvatningarspjöld í matsal m.a. með „Disknum“ og viðmiðum í matsal.

· Taka fyrir í öllum bekkjum ákveðna þætti í tengslum við mat og og matarmenningu reglulega s.s. Diskurinn, skráargatið, fæðuhringinn, sykurmagn, borðsiði og fleira. 

Í vetur borða umsjónarkennarar með öllum árgöngum skólans og er matartími hluti af kennslutíma hjá nemendum á yngsta og miðstigi.