Átaksverkefni gegn skólaforðun

Egilsstaðaskóli tekur þátt í átaksverkefni gegn skólaforðun í samstarfi við Austurlandslíkanið og aðra skóla á starfssvæði þessi. Austurlandslíkanið er samstarfsvettvangur félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, skóla og heilsbrigðisþjónustu um velferð nemenda og stuðning við fjölskyldur.

Fyrsta skrefið í verkefninu er fræðsla til foreldra um hugtakið skólaforðun ásamt upplýsingum um stöðu málsins í Egilsstaðaskóla og lýsingu á nýju verklagi. Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi skólasóknar og læri að þekkja rauðu flöggin sem gefa til kynna að um skólaforðun geti verið að ræða. Með því móti er líklegra að grípa megi til aðgerða áður en vandinn vex.

Skólaforðun er meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma.

Skólaforðun hefur verið töluvert í umræðunni í samfélaginu eftir birtingu skýrslu um efnið sem Velferðarvaktin lét vinna nýlega. Leitað er til foreldra um samvinnu við þetta verkefni og mikilvægi þess að nemendur stundi skóla og hann gangi öllu jafna fyrir öðrum verkefnum.

Tölurnar varðandi ástundun í Egilsstaðaskóla gefa til kynna að við þurfum að gera betur. Á síðasta skólaári voru 24% nemenda fjarverandi frá skóla 7 daga eða fleiri vegna fría og 10% nemenda voru fjarverandi 10 daga eða fleiri vegna veikinda. Í flestum tilfellum eru leyfin hjá okkur samþykkt eða eiga sér eðlilega útskýringar.  En það breytir því ekki að fjarvera er fjarvera og hefur áhrif á líðan, nám og félagslega stöðu barnsins. 

 Þessar tölur gætu gefið til kynna of afslappað viðhorf gagnvart mikilvægi skólagöngu nemenda í Egilsstaðaskóla og því er mikilvægt að fræða foreldra og taka upp samtal um áhrif fjarvista á skólagöngu.

Fræðslubæklingur fyrir foreldra