Olweusaráætlun Egilsstaðaskóla

Stefna skólans

Egilsstaðaskóli er Olweusar-skóli. Í Egilsstaðaskóla er lögð áhersla á jákvæð og uppbyggjandi samskipti. Í skólanum er litið svo á að það sé samstarfsverkefni heimila og skóla að stuðla að velferð nemenda. Yfirlýst stefna skólans er; VIÐ LEGGJUM EKKI AÐRA Í EINELTI.

Skilgreining á einelti

Orðið einelti er yfirleitt notað um endurtekið atferli. Einelti er áreiti af því tagi að ofbeldi beinist að einni manneskju í lengri eða skemmri tíma. Einelti getur birst í mismunandi myndum, s.s.

Munnlegar árásir: Uppnefni, útskúfun, niðurlægjandi athugasemdir, hvíslast á um þolandann, fliss og hlátur. Endurtekin stríðni.

Félagslegt einelti: Barnið er skilið útundan í leikjum, því er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum, enginn af bekkjarfélögum mætir í afmæli hjá því. Barnið er algerlega hundsað.

Andlegt einelti: Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem því er mjög á móti skapi, stríðir á móti réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu. Barninu getur verið skipað í þjónustuhlutverk gagnvart félögum sínum eða jafnvel látið eyðileggja eigur annarra eða skólans.

Líkamlegar árásir: Barsmíðar, spörk, hrindingar, skemmdarverk, eigum þolandans stolið t.d. skólatösku, íþróttafatnaði, reiðhjóli eða peningum.

Rafrænt einelti: fer fram í tölvum á internetinu og í formi smáskilaboða í gegnum GSM síma s.s. sms, msn, facebook, blogg, happy slapping og kosningasíður. 

Einelti er alls ekki ásættanlegt! Það er böl sem skerðir rétt þess sem fyrir verður til þess að njóta lífsins. Einelti í æsku getur verið afdrifaríkt og getur komið í veg fyrir að þeir sem fyrir því verða eða beita, nái að þroska með sér eðlilega sjálfsmynd, sjálfstraust og lífssýn.

 Forvarnir

 Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum. Starfsfólk skólans berst gegn því með öllum tiltækum ráðum og ef það verður vart við andfélagslega hegðun ber því  að stoppa hana þegar í stað. Mikilvægt er að allir þeir sem vitneskju hafa um eineltismál tilkynni það til skólans svo hægt sé að vinna markvisst að því að stoppa eineltið.

Skóli

 • Öllum starfsmönnum skólans ber að kynna sér eineltisáætlunina og funda reglulega þar sem farið er yfir þessi mál.
 • Öflug og virk gæsla í frímínútum, íþróttahúsi og annarri starfsemi á vegum skólans.
 • Bekkjarreglur gegn einelti eru settar í hverjum bekk og bekkjarfundir haldnir vikulega. Bekkjarreglur gegn einelti eru sýnilegar í stofum nemenda.
 • Lögð er fyrir könnun á umfangi eineltis hjá nemendum í 4.-10. bekk á hverju ári.
 • Tengslakannanir eru lagðar fyrir í nóvember og mars.
 • Allir starfsmenn bera ábyrgð á að skrá andfélagslega hegðun nemenda og koma henni til umsjónarkennara.
 • Starfandi er eineltisteymi sem í eru fjórir aðilar og er kennurum sem fást við einelti til ráðgjafar og stuðnings.
 • Eineltisáætlun skólans er  reglulega yfirfarin og endurskoðuð.

Foreldrar/forráðamenn

 • Eru  vakandi fyrir vellíðan, námsgengi og félagslegri stöðu barna sinna.
 • Samvinna heimilis og skóla er skilyrði þess að vel gangi.
 • Foreldrar láti skólann vita ef þeir hafa grun um einelti.
 • Foreldrar allra barna fá ítarlegan bækling sem fjallar um einelti og til hvaða ráða skuli grípa ef það kemur upp.
 • Foreldrafundir eru haldnir a.m.k. tvisvar á skólaárinu.
 • Foreldrar/forráðamenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum um stefnu skólans í eineltismálum.

 Nemendur

 • Allir nemendur tileinka sér og fara eftir skólareglum og bekkjarreglum gegn einelti
 • Regluleg fræðsla er fyrir nemendur um einelti.
 • Allir umsjónarkennarar hafa reglulega bekkjarfundi sem stuðla að betri líðan,   samskipti og hegðun.
 • Nemendur skrifa 2 sinnum á ári stutta frásögn um líðan þeirra í skólanum í október og febrúar.
 • Nemendur þjálfast í að vinna í hópum og sýna hver öðrum tillitssemi, sveigjanleika og umburðarlyndi.

 Það er alvarlegt ef gerendur eineltis fá óáreittir að komast upp með ofbeldisfulla og andfélagslega hegðun. Því sýnt hefur verið fram á fylgni milli slíkrar hegðunar til lengri tíma og þess að leiðast út í afbrot síðar á ævinni.

Ferli í eineltismálum

Ef grunur um einelti berst til skólans, vinnur  viðkomandi umsjónarkennari með aðstoð annars starfsfólks skólans  eftir eftirfarandi ferillýsingu:

Umsjónarkennari

 • Lætur eineltisteymið vita ef grunur er um einelti
 • Tryggir öryggi þolanda og aflar góðra upplýsinga um málið strax frá t.d. nemendum, starfsfólki skólans, foreldrum o.fl. Gangsetur vöktun hjá öllu starfsfólki skólans.
 • Tekur þolanda, geranda  í viðtal og hefur samband við foreldra símleiðis í öllum tilfellum til að upplýsa þá og gerir þeim grein fyrir:

                - Þeirri aðstoð sem skólinn getur veitt nemendunum.
                - Hvað foreldrar geta sjálfir gert til að aðstoða barn sitt, sbr. Foreldrabækling bls.20 (gerendur) eða bls. 22 (þolendur).

 • Ákveður framvindu málsins og getur ráðfært sig við og leitað aðstoðar hjá skólastjóra og/eða eineltisteymi.
 • Vinnur með umsjónarkennurum annarra bekkja að lausn mála þegar mál tengjast út fyrir bekkinn og geta þeir óskað eftir aðstoð eineltisteymis ef þarf.
 • Tekur viðtöl við gerendur og þolendur ásamt foreldrum ef einelti heldur áfram, sjá viðtalstækni í Olweusarbæklingi bls.82-83.
 • Málinu er fylgt eftir með reglulegum viðtölum við þolendur og gerendur í allt að fjórar vikur.
 • Vísar málinu til nemendaverndarráðs ásamt skráningu á málsatvikum í samráði við skólastjórnendur eða eineltisteymi ef ekki tekst að uppræta eineltið.
 • Skráir allt ferlið á sérstök skráningarblöð og í Mentor.

 

Ef mál koma upp sem varða nemendur og starfsfólk ber að hafa samband við stjórnendur eða eineltisteymið.

Ef umsjónarkennari telur málið sér of skylt eða ekki ráða við það þá er hægt að vísað því til eineltisteymisins.

Ef grunur um einelti kemur upp meðal starfsmanna skal hafa samband við stjórnendur.

Skráningarblað um eineltismál er sett í möppu sem er geymd undir eftirliti skólastjóra. Gætt verður fyllsta trúnaðar við meðferð gagna.

  Eftirlit og mat

 • Skólastjóri ber ábyrgð á að upplýsingar um öll eineltismál sem upp koma séu skráðar á þar til gerð skráningarblöð. Þar komi fram lýsing á hvernig tekið var á málinu, hvernig það leystist og hverjir eiga að fylgja málinu eftir.
 • Skólastjóri skal kynna nýjum starfsmönnum stefnu skólans í eineltismálum.
 • Stjórnendur skólans sjái til þess að starfsmenn hafi svigrúm til að taka á eineltismálum og vinna að úrlausn þeirra á vinnutíma sínum.
 • Skólastjóri sér um að stefnan sé endurskoðuð reglulega og að eineltiskönnun sé gerð árlega þar að auki eru tengslakannanir lagðar fyrir tvisvar á ári.