Fréttir

Skólaþing 14. og 15. nóvember

Ákveðið hefur verið að halda Skólaþing fyrir nemendur og foreldra & forsjáraðila í 1. - 6. bekk miðvikudaginn 15. nóvember klukkan 17:00 - 18:30 til að auðvelda foreldrum & forsjáraðilum að mæta á þingið. Skólaþingið fyrir þessa árganga verður sett upp að hluta eins og ferðalag um skólann þar sem foreldrar/forsjáraðilar og börn ganga á milli stöðva og svara ýmsum spurningum sem varða skólastarfið. Skólaþing 7. - 10. bekkjar verður 14. nóvember kl. 16:30 - 19:00 með þjóðfundarsniði. Í vikunni var haldinn undirbúningsfundur þar sem Sigurborg Kr. Hannesdóttir hitti nemendur í Nemendaráði og Leiðtogaráði, kennara og starfsfólk í árgöngunum og fulltrúa foreldra til að kynna fyrir þeim hvernig fundurinn færi fram. Margar góðar hugmyndir komu fram um yfirskrift þingsins og lykilspurningar en miklu skiptir að vel takist til þar sem markmiðið með þinginu er að undirbúa það að skólinn verði snjallsímalaus eftir áramót.
Lesa meira

Náttúruskólinn í Óbyggðasetrinu

Nemendur í 9. bekk fóru í Óbyggðasetrið í síðustu viku til að taka þátt í námskeiði á vegum Náttúruskólans. Hópurinn prófaði ýmislegt óvenjulegt, t.d. að kveikja eld með frumstæðum aðferðum, óbyggðaskyndihjálp, rötun og áttavitar, hnútar og línuvinna. Krakkarnir elduðu hádegismat úti fyrir opnum eldi. Þetta var skemmtileg tilbreyting fyrir krakkana og þau voru ánægð í lok dags.
Lesa meira

Upptaktur fyrir símalausan skóla

Nemendaráð stóð fyrir símalausum degi í dag, 1. nóvember. Því var beint til nemenda á elsta stigi að skilja símana eftir heima eða sleppa því að vera í símanum í frímínútum. Í hádeginu efndi Nemendaráð til tónlistarbingós. Það voru fáir á göngunum í hádegisfrímínútunum enda flestir að spila bingó.
Lesa meira

Ljóstillífun, bruni og orkuflæði

Náttúrufræði er yfirgripsmikið fag. Í 10. bekk hafa nemendur kynnt sér ljóstillífun, bruna, hringrás efna og orkuflæði. Verkefnin voru fjölbreytileg og sett fram á mismunandi hátt.
Lesa meira

Evrópuverkefni í 7. bekk

Í vikunni kynntu nemendur í 7. bekk verkefni sín um lönd í Evrópu. Undanfarið hafa krakkarnir kynnt sér löndin og aflað sér upplýsinga um ýmislegt varðandi þau, s.s. gjaldmiðil, stjórnarfar, frægt fólk, fána, tungumál og margt fleira. Þau buðu yngri nemendum og foreldrum í heimsókn til að skoða verkefnin. Þarna var ýmislegt áhugavert að sjá og gaman að sjá mismunandi útfærslur á verkefnunum.
Lesa meira

Hinseginfræðsla, BRAS, netöryggi og langspil

Í vikunni hafa margir árgangar fengið fræðslu, kynningar eða farið á viðburði utan skólans. Vikan hófst á því að fræðarar frá Samtökunum 78 hittu 3 árganga með fræðslu um hinsegin málefni. Krakkar í 5. - 7. bekk löbbuðu í Sláturhúsið og sáu þar og hlustuðu á DJ (plötusnúður) sem kennir sig við flugvélar og geimskip. í gær og dag hittu Skúli B. Geirdal frá Fjölmiðlanefnd og Steinunn Birna Magnúsdóttir frá Persónuvernd nemendur í 4. - 7. bekk og fræddu þau um ýmislegt í tengslum við netöryggi og notkun samfélagsmiðla. Ástæða er til að benda foreldrum og forráðamönnum á síðu Fjölmiðlanefndar sem fjallar um miðlalæsi: www.midlalaesi.is Þar er m.a. að finna niðurstöður rannsóknar sem var lögð fyrir grunn- og framhaldsskólanema vorið 2021. Sambærileg könnun var lögð fyrir nemendur í 4. - 10. bekk í Egilsstaðaskóla fyrir nokkru og verða niðurstöðurnar kynntar þegar þær liggja fyrir. Hægt er að hlusta á erindið á þessari slóð: https://midlalaesi.is/samtal-um-midlanotkun/ en á síðunni er að finna ýmsar upplýsingar um netnotkun barna og unglinga. Við fengum svo góðan gest í heimsókn í 6. bekk í dag. Eyjólfur Eyjólfsson söngvari og langspilsleikari kynnti langspil fyrir krökkunum og allir sem vildu fengu að spreyta sig á að spila á langspil. Meðfylgjandi eru myndir af langspilskynningunni og úr Sláturhúsinu, af DJ flugvélar og geimskip.
Lesa meira

Hinsegin fræðsla

Mánudaginn 9. október koma fræðarar Samtakanna 78 í skólann og hitta nemendur í 3., 6. og 9. bekk. Fræðslan er hluti af samningi sveitarfélagsins við Samtökin 78. Starfsfólk skólans fær fræðslu sama dag og af þeirri ástæðu lokar Frístund klukkan 14.20.
Lesa meira

Árshátíð elsta stigs - breytt dagsetning

Ákveðið hefur verið að færa árshátíð elsta stigs til 29. nóvember nk. Undirbúningur er þegar hafinn í samvinnu við Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Að þessu sinni verður söngleikurinn Grease settur á svið. Við hlökkum til!
Lesa meira

Haustið í 2. bekk

Krakkarnir í 2. bekk eru að vinna ýmis verkefni tengd haustinu. Þau fóru út og söfnuðu laufum sem þau þurrkuðu og límdu svo á blað sem þau skrifuðu texta á. Þau hafa líka skoðað orð sem tengjast haustinu auk þess að æfa sig á samsettum orðum, orðum sem byrja á au- og mörgu öðru.
Lesa meira

Þriðji bekkur í Náttúruskólanum

Náttúruskólinn var formlega stofnaður árið 2022 af hópi náttúru- og útivistarunnenda í Múlaþingi. Hópurinn hefur í mörg ár haldið námskeið á þessu sviði. Hlutverk Náttúruskólans er að efla börn og ungmenni til umhyggju og árvekni gagnvart sjálfum sér og náttúrunni og bjóða upp á áskoranir og skapandi tækifæri til reynslunáms. Í skólanum er lögð áhersla á útivist, átthagafræðslu, heilbrigðan lífsstíl, samskipti og samvinnu. Múlaþing gerði samning við Náttúruskólann um að tveir árgangar sæktu námskeið í skólanum og í liðinni viku fóru nemendur í 3ja bekk inn í Eyjólfsstaðaskóg þar sem ýmislegt var brasað. Skólinn hefur aðstöðu í Blöndalsbúð og rjóðrinu rétt hjá. Krakkarnir lærðu að tálga, búa til klifurgrind, baka lummur og fóru í gönguferðir í skóginum. Það voru einbeitt börn sem lögðu sig fram í verkefnunum og virtust njóta þessarar tilbreytingar frá hefðbundnu skólastarfi. Í október mun 9. bekkur fara í Óbyggðasetrið á vegum Náttúruskólans. Sagt verður frá því þegar þar að kemur.
Lesa meira