Fréttir

29.04.2024

Fræðsluferð til Skotlands

Í liðinni viku fóru um 50 starfsmenn Egilsstaðaskóla til Skotlands í fræðsluferð. Markmið ferðarinnar var að kynnast áherslum í skoskum grunnskólum og heyra af verkefnum sem verið er að vinna að. Starfsfólk Seyðisfjarðarskóla var einnig með í ferðinni. Á sumardaginn fyrsta sat starfsfólkið fyrirlestra frá nokkrum aðilum. M.a. var kynnt stefna sem skosk menntayfirvöld hafa innleitt og kallast GIRFEC (Getting it right for every child). Stefnan gengur út á að styðja við börnin á fjölþættan hátt með áherslu á velferð þeirra. Af sama meiði er verkefnið Nurture sem íslensk menntayfirvöld hafa verið að kynna fyrir skólafólki á Íslandi. Eftir hádegi var fyrirlestur um hvernig nýta má LEGO í kennslu og þátttakendur unnu nokkur skemmtileg verkefni i tengslum við það. Íþróttakennarar sóttu sérstakt námskeið í íþrótt sem kallast padlet auk annarrar fræðslu. Á föstudeginum var farið í skólaheimsókn í grunnskólann í Alloa í Clackmannanshire. Þar var kynning á verkefnum sem skólinn vinnur með og nemendur kynntu verkefni sem þau eru að vinna í ritun. Það er áhugavert að sjá skólastarf í öðrum löndum; margt er svipað og hjá okkur og áherslan á að styðja við börnin til að þau geti nýtt styrkleika og hæfileika sem best. Við fengum margar hugmyndir og sáum spennandi hluti sem við gætum nýtt okkur í starfinu. Starfsmannahópurinn naut þess að vera saman og við komum heim reynslunni ríkari.
19.04.2024

Stríðsárin

Stríðsárin eru til umfjöllunar í samfélagsfræði í 9. bekk. Fjallað er um fyrri og seinni heimsstyrjöldina og áhrif styrjaldanna á Ísland. Allir vinna lokaverkefni þar sem viðfangsefnið er tengt stríðsárunum á einhvern hátt. Foreldrum og forsjáraðilum var boðið að koma og sjá afrakstur vinnunnar á þemadögum. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og víða leitað fanga. Þar mátti m.a. sjá líkön, vopn, myndbandskynningar, plaköt og myndverk. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af kynningunni.
19.04.2024

Skertur dagur 24. apríl

Miðvikudaginn 24. apríl er skóladagur skertur hjá nemendum. Nemendur í 1. - 4. bekk ljúka skóladegi að loknum hádegismat kl. 12.00. Frístund er opin en sérstök skráning fyrir þennan dag. Skráningunni lýkur 22. apríl. Nemendur í 5. - 7. bekk eru í skólanum til 11.20. Nemendur í 8. - 10. bekk eru í skólanum til 11.10. Skólabílar fara klukkan 12.00. Fimmtudaginn 25. apríl er sumardagurinn fyrsti og frí í skólanum. Föstudaginn 26. apríl er starfsdagur hjá kennurum. Frístund er lokuð.