Fræðsluferð til Skotlands

Í liðinni viku fóru um 50 starfsmenn Egilsstaðaskóla til Skotlands í fræðsluferð. Markmið ferðarinnar var að kynnast áherslum í skoskum grunnskólum og heyra af verkefnum sem verið er að vinna að. Starfsfólk Seyðisfjarðarskóla var einnig með í ferðinni. 
Á sumardaginn fyrsta sat starfsfólkið fyrirlestra frá nokkrum aðilum. M.a. var kynnt stefna sem skosk menntayfirvöld hafa innleitt og kallast GIRFEC (Getting it right for every child). Stefnan gengur út á að styðja við börnin á fjölþættan hátt með áherslu á velferð þeirra. Af sama meiði er verkefnið Nurture sem íslensk menntayfirvöld hafa verið að kynna fyrir skólafólki á Íslandi. Eftir hádegi var fyrirlestur um hvernig nýta má LEGO í kennslu og þátttakendur unnu nokkur skemmtileg verkefni i tengslum við það.
Íþróttakennarar sóttu sérstakt námskeið í íþrótt sem kallast padlet auk annarrar fræðslu.
Á föstudeginum var farið í skólaheimsókn í grunnskólann í Alloa í Clackmannanshire. Þar var kynning á verkefnum sem skólinn vinnur með og nemendur kynntu verkefni sem þau eru að vinna í ritun.
Það er áhugavert að sjá skólastarf í öðrum löndum; margt er svipað og hjá okkur og áherslan á að styðja við börnin til að þau geti nýtt styrkleika og hæfileika sem best. Við fengum margar hugmyndir og sáum spennandi hluti sem við gætum nýtt okkur í starfinu.
Starfsmannahópurinn naut þess að vera saman og við komum heim reynslunni ríkari.